09.05.1949
Efri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (2605)

100. mál, jeppabifreiðar

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Við 2. umr. minntist ég þess, að n. mundi athuga þetta mál betur á milli umr. og þá í samráði við hv. þm. Barð. eða n. mundi a.m.k. minnast á þetta mál við hann. Og ég hef minnzt á þetta mál við hv. nm., en ekki kallað saman fund í n. um þetta mál, og ég hygg, að hv. nm. séu sammála um það, að mál þetta eigi að fara óbreytt frá þessari hv. d., að undanskilinni ofur lítilli breyt., sem till. kemur fram um síðar. Og við hv. þm. Barð. talaði ég einnig, sem taldi, að hann mundi láta sér það líka, að svo færi. En ég vil fyrir n. hönd sem frsm. gefa þær upplýsingar hér um þetta mál, að við í n. teljum, að vörubifreiðar yfirleitt geti ekki komið undir þennan flokk, jeppabifreiðar til landbúnaðarþarfa. Hins vegar höfðum við Landrowers í huga, sem eru í uppsiglingu, að þeir gætu reynzt eins vel og jepparnir, en að drossíur, stærri eða minni, komi ekki undir þennan flokk.

Ég hef minnzt á það við áhrifamenn, bæði í stjórn Búnaðarfélags Íslands og stjórn Stéttarsambands bænda, um kaup nefndarmannanna, sem úthluta eiga bifreiðunum, og gera þeir ráð fyrir, að nm. þessir taki yfirleitt ekki kaup fyrir þetta starf sitt við að úthluta bifreiðum þessum. En ég tel, að verði eitthvað töluvert um þessar úthlutanir, þá verði af því einhver smávegis skrifstofukostnaður, því að þá verður að senda bréf viðkomandi úthlutuninni og þess háttar, svo að það er ekki hægt að segja, að þetta verði alveg kostnaðarlaust gert. En ég og þeir hv. nm., sem ég hef náð í, erum sammála um það, — ég hef ekki náð í hv. 7. landsk. (GÍG), en hygg, að hann sé á sama máli, — að til þess að það sé enn tryggara, að ekki verði eytt miklu fé í þessi nefndarstörf, verði kosnir varamenn í þessa n., til þess að ef einhver af þessum nm. ætlar að sýna sig í því að vera dýr á vinnu sinni í n., þá sé hægt að gripa til varamanns. Og leyfi ég mér því að bera fram fyrir n. hönd svo hljóðandi till.: „Við 2. gr. Á eftir orðunum „til 2 ára“ bætist: Sömu aðilar kjósa jafnmarga varamenn.“

Þessar jeppabifreiðar skilst mér, að eigi að fara til einnar stéttar til þess að þjóna hagsmunum hennar, bændastéttarinnar, og svo að nokkru leyti til annarra stétta, sem þurfa á þessu að halda, t.d. manna, sem eru í opinberri þjónustu og verða að fara embætta sinna vegna yfir meiri eða minni víðáttu, svo sem læknar og ljósmæður. Og jafnvel getur komið til, að hreppstjóri í sveitarhreppi eigi heima í kauptúni og sé því ekki bóndi, en þurfi á bíl að halda.

Ég óska svo eftir, að frv. þetta verði samþ., eftir að búið er að samþ. þá brtt., sem ég gat um.