06.05.1949
Efri deild: 98. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (2615)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef beðið fjhn. þessarar hv. d. að flytja þetta frv. samkv. ósk ríkisstj., sem að aðalefni er um hækkun á benzínskattinum. Þessi hækkun er nauðsynleg vegna þess, að ríkissjóð skortir nú tekjur til þess ekki sízt að halda uppi vegabótum og vegagerð. Við urðum ásáttir um að fara þessa leið, að hækka benzínskattinn, bæði vegna þess viðhalds og nýbyggingar vega, sem hér fara fram og kosta árlega stórfé, og eins vegna hins, að benzínverð er tiltölulega lægra hér en annars staðar, þar sem minna þarf að leggja fram til vegaviðhalds tiltölulega. Þegar þessi ákvörðun var tekin, lá hér fyrir d. frv: til l. um breyt. á l. nr. 84/1932, um bifreiðaskatt o.fl., og fjölluðu um framkvæmd bifreiðaskattsins. Það þótti því rétt að gera annað tveggja, að koma þessari viðbót á það frv. sem viðbótartill. eða semja að öðrum kosti að nýju frv., sem innifæli í sér það frv., sem þegar lá fyrir d., og freista þess að fá það lögfest. Þess vegna er þetta frv. þannig, að 1. og 2. gr. eru teknar úr l. nr. 27/1947, um bifreiðaskatt, 3. gr. orðrétt úr frv., sem fyrir lá, að efni til. 4. gr. frv. er shlj. 8. gr. l. nr. 84/1932, sem felld var inn 1947. Ákvæði til bráðabirgða er það sama og í frv., sem fyrir lá. Nýmæli frv. eru því hækkun á benzínskattinum og svo skiptingin, sem fram kemur í 4. gr., og um leið er stofnað til þess, að bifreiðaskatturinn verði framvegis bundinn við almanaksár í stað skattársins, sem áður var, eða frá 1. apríl til 31. marz.

Eins og hv. þdm. taka eftir, er til þess ætlazt, að viss fjárhæð renni í brúasjóð til þess að standa undir byggingu Þjórsárbrúar fyrst, en síðan annarra stórbrúa, því að þótt það sé ekki tekið fram í frv., er þó ætlazt til, að það renni framvegis til stórbrúa.

Þá er ætlazt til þess, að viss hluti fjárins verði með b-lið 4. gr. fastbundinn til viðhalds og umbóta á akvegum, en það viðhald hefur orðið æðimikið, eins og raun hefur borið vitni um og sjá má á þskj. 644, eða:

1944 varð viðhaldskostnaður 6.4 millj. kr.

1945 — — 10.2

1946 — — 11.6

1947 — — 13.9

1948 — — 11.7

Við, þetta bætast svo aðrar framkvæmdir, sem t.d. samkv. fjárlögum þeim, sem nú liggja fyrir Alþ., nema um 7 millj. kr. til nýbyggingar vega og 4 millj. til brúargerða.

Það er talsvert hægt að segja þeirri skoðun til framdráttar, að raunar ætti benzínskatturinn og skattur á gúmmíi að standa undir vegaviðhaldi og raunar líka nýbyggingu vega. Það er ætlazt til þess, að þetta frv., ef það verður samþ., geti hækkað tekjur ríkissjóðs um 51/2 millj. kr., og segir þar um í grg., að áætluð benzínotkun sé um 40 millj. lítrar á ári og benzínotkun fari vaxandi. Hins vegar kæmi það einnig til athugunar, hvað hægt er að hafa mikið af gjaldeyri til umráða vegna benzínkaupa. En það er gert ráð fyrir því, að með þessu gæfi benzíngjaldið 12.4 millj. kr., og er sú upphæð svipuð þeirri, sem varið hefur verið til vegavíðhalds undanfarin ár. Bifreiðaskatturinn og þar með talið gúmmígjaldið er á fjárl. áætlað 3.5 millj. kr., eða alls er þetta 15.9 millj. kr. Frá þeirri upphæð dregst svo 5 aura gjaldið í brúarsjóð, eða 2 millj. kr. Svo liggja 2 millj. kr. milli hluta. Þeirri upphæð er ekki ráðstafað þarna, en rennur í ríkissjóð. En þegar þetta er hvort tveggja dregið frá benzínskattinum og gúmmígjaldinu, eru eftir 11.9 millj., en sú upphæð samsvarar þeirri upphæð, sem fór til vegaviðhaldsins 1948, en hefði hins vegar ekki náð þeirri, sem var 1947. Auðvitað verður að taka tillit til þessarar hækkunar á benzíni, sem verður nú á 96 aura lítrinn; það verður að taka tillit til þessa við ákvörðun taxta fyrir akstur. — Þá hefur einnig komið til mála að afnema skömmtun á benzíni, um leið og verðið verður hækkað, eins og sést af grg. frv.

Ég ætla nú ekki að fara um þetta fleiri orðum, en um þörfina á þessu vita allir. Það er að vísu aldrei ljúft verk að gera hlutina dýrari en þeir eru, og þegar þörfin er jafnmikil nú, hvað snertir vegaviðhald og vegalagningar, og menn vilja vera láta, þá verðum við að horfast í augu við þann veruleika, til þess að geta mætt þessum framkvæmdum með skynsamlegu móti, og það er ekki ósanngjarnt, að benzínnotkunin mæti þeim kostnaði, sem af þessum framkvæmdum stafar.

Að endingu vildi ég svo mælast til, að þessu frv. verði hraðað í gegn. Afvikin eru engin frá því, sem var, nema þau sem ég nefndi í upphafi.