06.05.1949
Efri deild: 98. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1698 í B-deild Alþingistíðinda. (2617)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Ég gat þess við umr. um síðasta tekjuöflunarfrv. hæstv. ríkisstj., hækkun á álagningu á tóbak, að það frv. mundi sennilega vera það skásta í langri röð af tollafrv. og nýjum álögum, sem nú væri verið að leggja fyrir þingið. Ég held, að þetta sé að koma á daginn. Hér kemur annað frv., sem er nú miklu verra. Ég lýsti mig strax andvígan þessu frv. í n., þegar það var sent henni af hæstv. ríkisstj., og lýsti yfir, að ég vildi engan þátt eiga í flutningi þess, enda er það flutt af meiri hl. fjhn. Þetta er eitt hinna mörgu tollafrv., sem komið hafa frá núv. hæstv. ríkisstj. um nýjar álögur á almenning, sem allar stefna í þá átt að rýra kjör almennings og stofna til enn meira fjármálaöngþveitis með sífelldum verðhækkunum og vexti dýrtíðarinnar. Það er framhald af þeim tolla- og skattafrv., sem hæstv. ríkisstj. lagði fram um áramót og þá voru samþ. með einkennilegu nafni: l. um dýrtíðarráðstafanir. Það var boðað þá þegar, að lagt yrði fram slíkt frv. um hækkun á benzíntollinum, og nú er það komið, svo að þetta kemur okkur ekki á óvart, þó að það hafi verið ærið lengi á leiðinni. Það er þáttur í þeirri heildarröð af till., sem hæstv. ríkisstj. er nú að leggja fram í sambandi við afgreiðslu fjárl., og sennilega eitt það versta.

Það er tekið fram í þessu frv., að nokkur hluti af þessum skatti skuli renna til viðhalds vega og svo nokkur hluti til brúargerða, og hæstv. ráðh. gerði þetta að aðalatriði í ræðu sinni, og það var á honum að heyra, að frv. væri í raun og veru borið fram í því skyni að fá þetta fé til viðhalds vega, og gat hann í því sambandi um þá kenningu, sem ýmsir hafa haldið fram og mér skildist hann vera fylgjandi, að rétt væri, að ekki aðeins kostnaður vegna viðhalds vega, heldur líka vegna nýbyggingar vega yrði borinn uppi eingöngu af benzínskatti. Ég tel þetta fráleita kenningu. Nýbyggingu og viðhaldi vega á að halda uppi eins og framlögum til annarra almennra þarfa, með almennum sköttum, og það er engin ástæða til að taka það fé endilega með benzínskatti. Það er mál út af fyrir sig, hve mikil nauðsyn er á viðhaldi vega og vegagerð, og hitt er einnig mál út af fyrir sig, hvernig beri að leggja skatta á. Það er hugsanaruglingur að blanda því tvennu saman.

Sannleikurinn er sá, eins og hv. þm. Str. tók greinilega fram í ræðu sinni, að allir hv. þm. vita, að þetta frv. er ekki borið fram í þeim tilgangi, heldur er blátt áfram einn þáttur í þeim fjáröflunarfrv., sem hæstv. ríkisstj. hefur á prjónunum til þess að jafna hinn almenna greiðsluhalla fjárl. á því stigi, sem þau, nú eru.

Þessi skattur verður mjög þungbær skattur. Hann mun koma mjög þungt niður á öllum almenningi vegna hækkaðra flutningsgjalda. Hann mun koma þungt niður á bifreiðastjórum, einkum þeim, sem hafa ekki ákvæði í samningum sínum um, að taxtarnir skuli hækka með hækkuðu benzínverði. Það er tekið fram í grg., að tekið verði tillit til þessarar hækkunar við ákvörðun taxta fyrir bifreiðaakstur, en ekki tilgreint nánar, svo að þetta er mjög óákveðið. Og það kemur í raun og veru líka niður á þeim bifreiðastjórum, sem fá þessa hækkun upp borna með hækkuðum taxta, á þann hátt, að það dregur úr atvinnu þeirra. Það kemur mjög þungt niður á bændum, þeim sem hafa vélar, sem ganga fyrir benzíni, og sennilega kemur það langþyngst niður á þeim af öllum landsbúum, þ.e.a.s. svo lengi sem þeir fá það ekki upp bætt með hækkuðu afurðaverði.

Hæstv. fjmrh. sagði í sambandi við umr. um það skattafrv., sem við ræddum siðast, verðhækkun á tóbaki, að það þýddi ekki að vera að deila um þá fjármálapólitík, sem hefði leitt til þessara álagna, þar væru allir jafnsekir. Ég mun ekki heldur fara mikið út í umr. um það eða nokkrar eldhúsumræður í sambandi við þetta mál. Það er tilgangslaust. til þess verða næg tækifæri á næstunni á öðrum vettvangi. En ég vil aðeins benda á, að það er tilgangslaust fyrir hæstv. ríkisstj. að reyna að velta af sér ábyrgðinni af eigin gerðum, því að það er hún, sem ber ábyrgð á því, að jafnvel hinar mjög svo hóflegu till. fjvn. um lækkun kostnaðar við ríkisbáknið voru felldar við 2. umr. fjárl. Það er henni að kenna og hennar fylgismönnum í þinginu. Ef þær hefðu verið samþ., þó að ekki hefði verið annað gert, þá hefði vissulega verið hægt að fara allmiklu vægara í sakirnar með þetta frv., sem gefur ekki meira það sem eftir er ársins en 51/2 millj. kr. Það er ríkisstj. ein, sem ber ábyrgð á því, að tollar og skattar á almenningi hafa verið lækkaðir um talsvert á annað hundrað millj. kr. síðan hún tók við og vöruverð á ýmsum nauðsynjavörum hækkað þannig fyrir beinar aðgerðir ríkisstj. í allt að 50% og á sumum vörum kannske meira. Hin raunverulega vísitala er komin talsvert á 5. hundrað stig og mun halda áfram að hækka. Ekki hefur stjórnarandstaðan hér á þingi veitt hæstv. ríkisstj. brautargengi til þess að koma þessum dýrtíðarráðstöfunum í framkvæmd. Það er hæstv. ríkisstj., sem ber ábyrgð á, að ýmis útgjöld fjárl. eru. 3–4 sinnum hærri nú en á fjárl. 1946 og heildarupphæð útgjalda 2–3 sinnum hærri eða mun verða, þegar þau verða nú endanlega afgr. Hæstv. ríkisstj. getur sannarlega ekki til þess ætlazt, eins og stundum virðist koma fram, þegar hækkunartill. eru bornar fram af fjmrh., að allir sætti sig við þetta, af því að það vanti fé í ríkissjóð. Hæstv. stj. getur ekki ætlazt til þess, að stjórnarandstaðan taki það fyrir góða og gilda vöru, þegar hún kemur hálfu ári síðar en bar að vera búið að afgr. fjárl. í síðasta lagi og segir: Nú er stór halli á fjárl., nú verður eitthvað að gera, jafnvel þótt súrt sé á bragðið.

Á það hefur verið bent, að allar þessar tollahækkanir eru í raun og veru stórfelld lækkun á íslenzku krónunni. En því meir sem dýrtíðin vex, því meiri verða erfiðleikar framleiðslunnar og því dýpra verður að seilast í ríkissjóð til þess að framleiðslan geti staðið undir sér, sem aftur kallar á nýjar tollaálögur. Á þetta hef ég oft bent, það er ekki fyrst nú, að sýnt er fram á þetta, og það er ekki hægt að mótmæla því.

Mér þykir vænt um að heyra, að hv. þm. Str. tók mjög eindregið undir þessi rök. En það eru takmörk fyrir því, hvað slík svikamylla getur gengið lengi. Maður heyrir á ýmsum, að þeir þykjast sjá, að nú sé það langt komið, að ekki sé um annað að ræða en beina gengislækkun. En ekki heldur hún getur bjargað, því að það fer á sömu leið, þó að sú leið sé farin. Hún getur aldrei orðið annað en gálgafrestur, þar til allt er sokkið aftur í sama fenið. Án þess að sjálfri heildarstefnunni verði breytt, verður engu bjargað.