06.05.1949
Efri deild: 98. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1708 í B-deild Alþingistíðinda. (2623)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð. Hæstv. fjmrh. sagði, að það væri ekki hægara verk að vinna, en finna að þessu frv. Þetta er rétt hjá ráðh, og sömuleiðis viðurkenning á því, að rökin, sem fram hafa komið gegn frv., eru rétt. — Hæstv. ráðh. viðurkenndi líka, að þetta frv. væri ekki borið fram vegna vegavíðhaldsins, heldur til þess að afla ríkissjóði tekna til að jafna hallann á fjárl. En sannarlega er þetta frv. ekkert bjargráð fyrir ríkissjóð, því að það verður til þess, að nærri allt verðlag hækkar í landinu og þar með landbúnaðarafurðir líka. Þetta er því ekkert bjargráð, heldur kallar bráðlega á enn nýjar álögur.

Hæstv. ráðh. hélt áfram að afsaka stj. fyrir, hvernig fjárhag landsins er komið og afgreiðslu fjárl., en gat þó ekki mælt á móti neinu atriði, sem sagt hefur verið um þau efni. Hann gat ekki mælt á móti því, að vöruverð hefði hækkað um 50% vegna ráðstafana ríkisstj. Ekki heldur að niðurgreiðslurnar, sem voru 16 millj. í tíð fyrrv. stj., hefðu orðið 56 millj. á síðasta ári og væru nú áætlaðar á fjárl. 75 millj. Þá gat ráðh. ekki mælt á móti því, að kostnaður við ríkisbáknið hefði mjög aukizt í tíð núv. ríkisstj., en þessi hækkun mun nema, miðað við 1947, á stjórnarráðinu um nál. 25%, dómgæzlunni um 12%, opinberu eftirliti um 22%, og áfram mætti telja. Þessar hækkanir hafa allar orðið síðan 1946, en svo hækkar þetta enn meir á árinu 1948. Hver ber ábyrgðina á þessum hækkunum nema núv. ríkisstj.? (BSt: Sumir segja fyrrv. ríkisstj.) Hverjir hafa greitt atkv. með þeim ráðstöfunum, sem núv. ríkisstj. hefur gert? Hæstv. ráðh. hefur talað um, að fjárl. væru svo sem raun ber vitni vegna lagasetninga í tíð fyrrv. ríkisstj. En þetta er algerlaga rangt, því að eins og ég hef sýnt fram á, hafa allar aðgerðir núv. ríkisstj. miðað að aukinni dýrtíð, hvort sem þær hafa átt að gera það eða ekki. — Það er oft minnzt á fræðslulöggjöfina, sem sett var í tíð fyrrv. ríkisstj., sem einhvern gífurlegan lið á fjárl. þessa árs. Það er nú auðvitað ekki að spyrja að því, að fyrst af öllu á að spara skólahald eftir stefnu núv. stj. En allt um það. Sannleikurinn í þessu máli er sá, að allt skólahaldið kostar um 30 millj. Og mér finnst nú satt að segja ofrausn að eigna mér alla fræðslu í landinu, þó að ég hafi átt þátt í fræðslul. 1946, sem ég er mjög ánægður yfir að eiga hlut í. En hækkunin við nýju fræðslulögin er samtals 6 millj. kr., og þess vegna er ekki hægt að segja annað, en það sé einkennileg meðferð á staðreyndum, að þessi löggjöf hafi skapað glundroða í fjármálunum.

Ráðh. varpaði þeirri spurningu til mín, hvort ég væri reiðubúinn að samþ. gengislækkun. Það hefur verið framkvæmd allt að 25% gengislækkun í tið núverandi stjórnar, þó að óbeint sé, og þessari gengislækkun hef ég verið á móti. Ég er líka andvígur beinni gengislækkun, vegna þess að hún er ekki nema gálgafrestur, og mun sækja fljótlega í sama farið aftur, ef ekki er breytt um stefnu. Annars er það mál út af fyrir sig. Sannleikurinn er sá, að fjármálum landsins er svo illa komið vegna stefnu núv. stj. bæði í innanlandsmálum og viðskiptapólitíkinni, sem rekin er við önnur lönd. Það er t.d. mjög einkennileg afstaða hjá ríkisstj., þegar hún gat losnað við dýrtíðarábyrgðina fyrir sjávarútveginn með því að láta útgerðarmenn hafa lítinn hluta af þeim gjaldeyri, sem þeir öfluðu, að hafna því boði og verða nú að greiða stórar upphæðir af þeim ástæðum.

Þm. Eyf. var að hlaupa undir baggann hjá hæstv. ráðh. og verja þetta frv., en ekki gat hann þó gert það nema að halla á fyrrv. ríkisstj., og er því vafasamt, hvort hann gerði ráðh. stóran greiða, þar sem hann var stuðningsmaður fyrrv. stj. En hvað er það, sem þm. Eyf. er að ráðast á hjá fyrrv. stjórn? Eru það kannske kaupin á nýsköpunartogurunum, sem nú afla um 100 millj. kr. í erlendum gjaldeyri? Hvernig væri ástandið nú, ef þeir væru ekki til. Nei, það er áreiðanlegt, að hefði flokkur þm. Eyf. fengið að ráða, þá væri enn verr komið en nú er, því að þá væri skollið hér á bæði atvinnuleysi og kreppa.