07.05.1949
Efri deild: 99. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1718 í B-deild Alþingistíðinda. (2642)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Án þess að ég vilji vefengja úrskurð hæstv. forseta, þá verð ég ekki ásáttur honum um það, að ég hafi í ræðu minni farið út fyrir eðli þess máls, sem til umr. er, og vil ég því ekki viðurkenna það, að ummæli hans eigi við mína ræðu. Hvort þau eiga við ræðu hv. þm. Str., um það skal ég ekki segja.

Í sambandi við ummæli hv. 1. þm. Reykv. (BÓ) í síðustu ræðu hans, þykir mér það einkennilegur stirðbusaskapur hjá honum í máli, sem verið er að ræða við hann um sem form. n. Skilur hann ekki, að það fer betur á því, að þessi orð séu felld burt úr frv.? Það er starf n. og sérstaklega form. n. að athuga m.a. orðalag á frv., sem til hans koma. Til hvers heldur þessi hv. þm., að n. séu? Heldur hann, að þær séu bara upp á grín? Hvað eftir annað kemur það fram hjá honum, að hann vill ekki athuga ábendingar, nema þær séu bornar fram skriflega. Ég skal gjarna bera fram skriflega brtt., ef hv. þm. lýsir því yfir, að hann nenni ekki að lesa þessa grein. Það er fyrst og fremst hans verk að athuga, hvort fer betur, og sé það álit hans, að það fari ef til vill ekki betur, þá er það mitt verk að bera fram brtt. Læt ég svo útrætt um þetta.

Ég vil leyfa mér að leiðrétta það, sem kom fram hjá hv. þm. Str., með nokkrum orðum. Það er rangt hjá hv. þm., að form. fjvn. og fjvn. í heild hafi verið einangruð við afgreiðslu fjárl. N. bar fram brtt., sparnaðartill. um lækkun á fjárl., sem nam 1.550.000 kr. Af því var tekið upp aftur 340 þús. kr. til flugmála, sem er aðeins 9 þús. kr. lægra en till., sem felld var. Svo að ummæli hans í sambandi við þetta eru sögð alveg út í bláinn. Auk þess aðeins 55 þús. kr. í sambandi við aðrar till. Það er alveg rangt, sem hv. þm. fullyrti, að ekki væri hægt að komast lægra með landhelgisgæzluna eins og nú væri. Það veltur ekki sízt á því, hvernig þeim málum er stjórnað, hvort hægt er að komast af með minna fé. Það er algerlega rangt, að gerð hafi verið nokkur tilraun til að fella nokkrar till. um framlög til brúa, vega eða sveitasíma. Þær till. voru allar samþ. óbreyttar og kannske langsamlega mest fyrir það, hvað fjvn. hélt utan um þau mál. Það er rangt, að það hafi komið til Alþ. að ákveða, hvort niður skyldi fella skattdómaraembættið á Akureyri eða sendiherraembættin á Norðurlöndum. Svo að flest, sem hv. þm. Str. sagði um afgreiðslu fjárl., var rangfærslur einar, sem sennilega byggjast á því, að hv. þm. hefur hvorki gefið sér tíma til að vera við afgreiðslu fjárl. né lesa þingskjölin.