07.05.1949
Efri deild: 100. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1721 í B-deild Alþingistíðinda. (2648)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég er hræddur um, að hv. 4. landsk. þurfi einhvern annan ráðh. en mig til að svara þessu að fullu. Ég veit ekki til, að komið hafi tilmæli í þessa átt í þau rn., sem ég á að sjá um, og það er ekki undarlegt, þó að þeim sé ekki þangað beint. Að öðru leyti get ég ekki leyst úr því í skjótri svipan, hvort hægt er að skipta sól og regni milli þeirra, sem vilja aka, ef þeir hafa lögum samkvæmt rétt til farþegaflutninga. Hitt er mér vel skiljanlegt, að mikil fjölgun er til einskis góðs, hvorki fyrir þjóðfélagið í heild né þá, sem stunda þessa atvinnugrein. Ég geri ráð fyrir því, að kannske nú þegar stundi fleiri farþegaflutninga, en ströng nauðsyn krefði. Mér þykir leitt, að ég get ekki leyst úr spurningum hv. þm., en mér er ekki kunnugt um neina málaleitun í þessu sambandi, enda býst ég við, að fjmrn. eigi hér ekki hlut að máli. Annars var það svo, þegar skömmtunin var sett á, að talið var, að hún væri frekar til óþæginda og leiðinda og álitið, að vinsælt væri að létta henni af, ef benzínið væri látið sinna því hlutverki, er því ber. Ég á við opinberar álögur, en í þá átt er drjúgt spor stigið með samþykkt frv., eins langt og hún er komin. Skömmtunin hefur komið illa út fyrir bifreiðarstjóra og reynt hefur verið að rýmka til, svo að þeir hefðu rýmri skammt, en allir vita, að þeir hafa orðið að drýgja hlut sinn á svörtum markaði. Það er ástæða til að ætla, að þeim hafi verið þetta ógeðfellt, en það hefur stafað af því, að skömmtun hefur verið á benzíni.

Ég skil vel, að hv. þm. sé ekki ánægður með þessi svör, en ég get ekki látið annað í té.