07.05.1949
Efri deild: 100. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1723 í B-deild Alþingistíðinda. (2656)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það voru tvö atriði, sem ég vildi minnast á. Ég vildi leiðrétta þann misskilning hjá hv. þm. Barð., að benzínskatturinn hefði áhrif á gerð afleggjara heim að bæjum og flýtti fyrir þeim. Þetta er misskilningur. Þeir eru ekki lagðir af ríkissjóði og koma þessu máli ekki við. Hann talaði og um, að fjöldi bænda þyrfti enn að flytja mjólkina á klökkum að þjóðvegum, og talaði líka um, að benzínskatturinn bætti úr þessu. En þessi skattur gengur aðeins til þjóðvega, og langur tími mun líða, þar til þeir munu ná til allra bæja. Það liggur nú fyrir von um, að skömmtuninni verði aflétt á benzíni, ef þetta frv. verður samþ. nú. Ég tel það þó ekki bundið við frv. Skömmtunin hefur verið þarflaus. Hún hefur aðeins látið menn fá atvinnu við úthlutunina, aðra við að selja benzín á svörtum markaði, en hefur ekki sparað einn lítra. (Samgmrh.: Þetta er of mikil fullyrðing.) Hæstv. ráðh. skal bara athuga benzínskömmtunina fyrr og nú, miðað við bílafjöldann, og hann mun sjá, að meira benzín er nú notað á hvern bíl til jafnaðar en áður var Það liggur beint við, ef þetta er reiknað út. Er því sjálfsagt að afnema skömmtunina. Ástæðan fyrir því að hafa hana er aðeins sú að veita mönnum tækifæri til að selja benzín á svörtum markaði og hinum atvinnu, er við úthlutun þess fást.

Hv. 4. landsk. talaði þá um, að þetta mundi hafa mikil áhrif á atvinnu bílstjórastéttarinnar, gat þess, að takmarka verði, hverjir eigi að fá að aka leigubifreiðum frá stöðvum eða stunda bifreiðakeyrslu sem atvinnu. Þetta er tekið fram í l. Menn þurfa að hafa meira próf o. fl. til þess að öðlast þessi réttindi. Ef á að fara þá leið að meina mönnum með l. að stunda atvinnu, sem þeir hafa aflað sér réttinda eftir öðrum lögum til að stunda, þá er það fjarri öllu viti. Því er ég undrandi yfir till. og hinu, að málinu skuli hafa verið vís- að í annað sinn til n. Það er fjarri öllu lagi. Ég vænti því, hvað sem þessu líður, að benzínskömmtuninni verði aflétt, eins og raunar ber að gera um alla skömmtun, þótt skömmtun á álnavöru sé e.t.v. ekki óþarfi enn sem komið er. Hún er óþörf og aðeins til að auka skriffinnskuna, kostnað, svartamarkað o.fl. Ég vænti þess því, að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært, hvað sem bílstjórunum liður, að afnema skömmtunina þegar í stað eða mjög bráðlega.