07.05.1949
Efri deild: 100. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1724 í B-deild Alþingistíðinda. (2659)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Það hefur borizt bréf frá bílstjórafélaginu Hreyfli til Alþ., dagsett þ. 6. maí 1949. Þar mótmælir félagið hækkun á benzínskatti og bendir á hækkun rekstrarkostnaðar, sem af því mundi leiða, 1.909 kr. á bifreið á ári. Muni og hækkun á rekstrarkostnaði leigubifreiða vegna hækkunar á tollum og gjöldum af varahlutum, gúmmíi, ýmissi efnivöru, vegna hækkaðs bifreiðaverðs, söluskatts og viðgerðarkostnaðar og benzínverðs s.l. 2 ár nema kr. 9.896.89. Benda þeir á, að ökugjald, þ.e. byrjunargjald, hafi vaxið aðeins um 50 aura á ökuferð síðan 19. apríl 1943. Einnig benda þeir á, að það dyljist ekki, að verði benzínskömmtunin nú afnumin, sem menn munu fagna, þá mundu falla úr gildi þær hömlur, sem benzínskömmtunin setti um hámarkstölu bifreiða til fólksflutninga, en það mundi hafa í för með sér offjölgun og atvinnuleysi í stéttinni, og fara þess því á leit, að löggjöf verði sett um þetta efni. Nú tókst eigi að ná tali af hæstv. samgmrh., og eigi hefur tekizt að fá svör frá stj. um afstöðu hennar til málaleitunar bifreiðastjóranna. Skilst mér af þessum ástæðum, að meiri hl. n. muni eigi fallast á heimildarákvæði í þessa átt. Ég sé því ekki betur en till. um það yrði felld. Og þar sem það gæti spillt fyrir málinu, mun ég eigi bera slíka till. fram. Býst ég þó við, að upplýsingar muni liggja fyrir um málið, þegar frv. kemur til Nd. Og í trausti þess, að þá liggi fyrir fullnægjandi upplýsingar frá ríkisstj. og að þar verði þær ráðstafanir gerðar, sem duga til þess að fyrirbyggja offjölgun í stéttinni, þegar núverandi hömlur falla úr gildi, mun ég eigi bera fram brtt. í þá átt á þessu stigi málsins.