16.12.1948
Neðri deild: 41. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Aðeins örfá orð, sem ég vil bæta við skýringar hæstv. forsrh. Ég vil taka það fram, að þeir, sem að ríkisstj. standa, hafa auðvitað ekki verið á einu máli um samningu þessa frv. og að það er vitanlega ekki að efni til eins og það hefði orðið, ef hver flokkur um sig hefði einn haft aðstöðu til að móta það.

Framsfl. fyrir sitt leyti hefði álitið, að skynsamlegra hefði verið að stíga spor í verðhjöðnunarátt, en þar sem ekki fékkst samkomulag um slíkt, er ekki um annað að ræða en halda áfram á bráðabirgðabrautinni og afla tekna til þess að halda áfram niðurgreiðslunum og ábyrgðarverðinu. En til þess þarf að afla meira fjár en fram að þessu hefur verið gert, og við samþykktum því að fallast á þær leiðir, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. — Þó álitum við óaðgengilegt að hafa sama innflutningsgjald á alla bíla, sem fluttir eru til landsins, þar sem um þá gildir ekki svipað því sama máli, og hafa jepparnir einkum sérstöðu. Það mun því verða flutt um það brtt. og bent þá á aðrar leiðir til að afla fjár í skarðið.