07.05.1949
Efri deild: 100. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1724 í B-deild Alþingistíðinda. (2660)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af óskum hæstv. fjmrh. um, að ég taki mína skriflegu brtt. aftur, þar sem hans till. feli í sér þær breyt., sem ég legg til, en sé hins vegar vænlegri til samkomulags, þá skal ég verða við þeirri ósk. Hvorug till. er efnisbreyt., heldur aðeins breyt. á orðalagi, og svo mikill stuðningsmaður ráðh. er ég, að mér er ljúft að verða við þessum tilmælum hans, ef það er honum einhver styrkur. Skrifl. brtt. mín er því tekin aftur.

Við umr. um þetta mál benti ég á, að benzínskatturinn kæmi til hjálpar þeim, sem enn verða að flytja afurðir sínar og aðdrætti á klökkum. Þeim orðum, sem 1. þm. N-M. (PZ) lét falla út af þessum ummælum mínum, vil ég algerlega mótmæla. Vegakerfið heim að mörgum þeim býlum, sem svona er ástatt um, mætti lagfæra, svo að það yrði fært allt árið með auknu viðhaldsfé. En auk þess liggja fyrir beiðnir um nýja akvegi, svo að skiptir hundruðum og jafnvel þúsundum km.