09.05.1949
Neðri deild: 104. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1729 í B-deild Alþingistíðinda. (2667)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af aths. hæstv. fjmrh. út af einu atriði í ræðu minni. Það er misskilningur, að sú tollahækkun, sem hér er um að ræða, hækki alla tolla, sem á benzíninu eru. Sú grein Keflavíkursamningsins, sem fjallar um þetta, er 9. gr. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Eigi skal leggja neina tolla eða önnur gjöld á efni það, útbúnað, nauðsynjar eða vörur, sem inn er flutt til afnota fyrir stjórn Bandaríkjanna eða umboðsmenn hennar samkvæmt þessum samningi eða til afnota fyrir starfslið það, sem dvelur á Íslandi vegna starfa, sem leiðir af framkvæmd samnings þessa. Útflutningsgjalda skal heldur eigi krefjast af útflutningi téðra vara.“

Þetta vísar svo aftur til samningsins í 4. gr., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Flugförum þeim, sem rekin eru af Bandaríkjastjórn eða á hennar vegum í sambandi við framkvæmd þeirrar skyldu, er Bandaríkin hafa tekizt á hendur, að hafa á hendi herstjórn og eftirlit í Þýzkalandi, skulu áfram heimil afnot af Keflavikurvellinum. Í þessu skyni skal stjórn Bandaríkjanna heimilt að halda uppi á vellinum á eigin kostnað, beinlínis eða á eigin ábyrgð, þeirri starfsemi, þeim tækjum og því starfsliði, sem nauðsynlegt kann að vera til slíkra afnota. Taka skal tillit til sérstöðu flugfara og áhafna þeirra að því er varðar tolla, landvistarleyfi og önnur formsatriði. Engin lendingargjöld skal greiða af slíkum flugförum.“

Allur samningurinn byggist á flutningum til Þýzkalands, en að svo miklu leyti, sem um almenna notkun er að ræða, civil Aircraft, sætir hún ekki sérréttindum. Á þessu vakti ég athygli þegar í upphafi, og þegar það var til umr. í fjhn., vakti ég athygli á því í mínu nál., sem var nr. 174 það ár, en þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Eðlilegast er, að tollur sé greiddur af öllum þeim vörum, sem fluttar eru til ameríska starfsliðsins, og síðan sé tollurinn endurgreiddur af þeim vörum, sem íslenzk yfirvöld úrskurða, að fluttar séu inn til afnota fyrir starfsliðið samkv. 9. gr. samningsins. Með því móti yrði helzt hindrað smygl og svartur markaður í sambandi við starfslið þetta. En um þetta þarf lagaákv.“

Og sú n., sem sat þá fyrir Íslendinga við þessa samninga, telur í nál. sínu, sem birt var í október 1947, að það sé algerlega óframkvæmanlegt nema að leggja toll á allar vörur og greiða svo aftur til baka. Það var bent á þetta í upphafi, og það var eina ráðið til þess, að hægt væri að komast hjá nokkru svindli, að láta greiða toll af öllum vörum, sem fluttar voru inn, og greiða svo til baka aftur það, sem lagt hafði verið á þær vörur, sem tollfrjálsar áttu að vera samkvæmt samningnum. Með þessu hefði verið hægt að koma í veg fyrir smygl og svartamarkaðsbrask á Keflavíkurflugvellinum, og þetta átti að gera. Hitt er svo annað mál, að l. eru brotin, hvort sem það er gert samkvæmt einhverjum leynisamningi eða smyglað utan frá, það skal ég ekkert um segja. En þess vegna vildi ég aðeins leiðrétta þetta, að ég held, að um misskilning hafi verið að ræða hjá hæstv. fjmrh. Hins vegar er það alveg rétt, að tollstjóri og tollverðir hafa fullan vilja á að rækja starf sitt.

Viðvíkjandi málinu annars skal ég ekki ræða meira við þessa umr. Ég skil það vel, að hæstv. ríkisstj. eigi mjög erfitt með að verja þessa stefnu, sem hún hefur tekið í fjármálunum, enda er nú svo komið, að helztu rökin í þessu máli eru eins og þegar tóbakið var hækkað, að verðlagið hefði hækkað almennt, en verð á tóbaki og benzíni hefði dregizt aftur úr og sem beina aflleiðingu af því þyrfti að hækka það núna. Sem sé, í stað þess að halda dýrtíðinni í skefjum, er allt gert til þess að auka hana.