10.05.1949
Neðri deild: 105. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1743 í B-deild Alþingistíðinda. (2680)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Út af brtt. hv. 2. þm. Rang. (IngJ) vil ég láta í ljós sama álit mitt og viðvíkjandi till. hv. þm. V-Sk. (JG). Ég tel ekki hægt að skerða þessar tekjur, sem nú eru orðnar minni, en orðið hefði, ef benzínskattsbreytingin hefði verið gerð fyrr. Þeir hv. þm., sem ekki geta fellt sig við þetta, ættu heldur að koma með sparnaðartill. en að höggva skarð í þessar tekjur, sem allir viðurkenna þó, að fara til viðhalds vega og til brúabygginga. Það er út af fyrir sig mjög eðlilegt, að stjórnarandstaðan reyni að fleyga frv. sem mest með brtt., og er ekkert við því að segja, enda vissi maður alltaf, á hverju var von úr þeirri átt. Ég hygg þó, að öllum sé ljóst, að ekki verður komizt hjá að auka tekjur ríkissjóðs, og því ættu allir, sem vilja, að fjárl. fái sómasamlega afgreiðslu, að sjá sóma sinn í því að flytja ekki brtt., sem eyðileggja þetta frv. að meira eða minna leyti.