13.05.1949
Efri deild: 107. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1746 í B-deild Alþingistíðinda. (2699)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mig langaði aðeins til þess að fá upplýsingar um 4. gr. Hér stendur: ,,Enn fremur er ríkisstj. heimilt að setja reglur um atvinnuréttindi bifreiðastjóra samtímis því, sem benzínskömmtunin væri afnumin.“ Á þetta að skoðast þannig, að það sé á valdi að setja hvaða reglur sem er um þetta, t.d. hvað margir menn megi vera í atvinnugreininni, eða setja þeim einhver skilyrði, sem ekki eru nú í l.? Svo er talað um að þetta megi gerast samtímis því, sem benzínskömmtun sé afnumin. En mér skilst á gr., að þetta gildi þó ekki, þótt skammturinn sé aukinn takmarkalaust, þannig að engin raunveruleg skömmtun verði, og er þá auðvelt að komast fram hjá þessu ákvæði. Ef skammturinn væri t.d. aukinn tifalt frá því, sem nú er, þá hefði þessi gr. enga þýðingu. En ef ráðh. á að hafa í sínu valdi að setja um atvinnuréttindi bílstjóra hvaða reglur sem er, þá þykir mér það nokkuð viðtækt vald, og vildi ég þá gjarnan heyra, undir hvaða ráðh. þetta ætti að heyra. Það fer nokkuð eftir því, hvort ég get staðið með frv. eða ekki. Það væri hægt fyrir viðkomandi ráðh. að svipta svo og svo marga bifreiðastjóra atvinnuréttindum með því að ákveða tölu atvinnubifreiðastjóra lægri eða með því að setja hin erfiðustu skilyrði, en svo getur gr. orðið einskis virði, ef benzínskömmtunin verður aldrei afnumin, en skammturinn bara aukinn. Ég verð að segja, að ég undrast, að hæstv. ráðh. skyldi taka við þessari gr. inn í frv.