13.05.1949
Efri deild: 107. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1748 í B-deild Alþingistíðinda. (2703)

207. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þegar umr. var frestað áðan, þá var ég búinn að biðja um orðið og ætlaði að minnast á 4. gr., sem er ný gr. sett inn í Nd. Hæstv. ráðh. var spurður um það áðan, hvernig hann mundi nota þessa heimild, og hann svaraði því á þá leið, að með reglugerð, sem sett var um skömmtunina, hefðu þeir bílstjórar, sem þá keyrðu frá stöð og eru atvinnubílstjórar, fengið stærri benzínskammt en hinir. Ég skildi hann svo, að ef til þess kæmi, að þessi atvinnuréttindi bílstjóra væru takmörkuð, þá hugsaði hann sér eitthvað svipað áframhald, þ.e.a.s., að atvinnubílstjórar, sem keyra frá stöð, héldu áfram, en aðrir kæmu þar ekki til greina. Hann talaði um bæjaryfirvöldin í Rvík, til þeirra hefðu þessir menn snúið sér. Ég vil benda á það, að þegar maður tekur meirapróf í bílkeyrslu, er hann búinn að fá réttindi til að keyra bíl og selja öðrum flutning, en minna próf veitir ekki réttindi til að flytja farþega fyrir borgun, en meiraprófið gerir það. Mér er óskiljanlegt, hvernig hæstv. ráðh. hugsar sér að fá heimild í l. til að setja reglugerð, sem upphefji landslög. Mér er líka óskiljanlegt, hvernig hann hugsar sér að fara að semja við bæjarstjórnina í Rvík um að setja reglugerð, sem á að gilda fyrir bifreiðastjóra um allt landið. Ætlar hann að fara að semja við bæjaryfirvöldin í Rvík um það, hvað atvinnubílstjórar megi vera margir úti um landið? Ég held, að það sé fjarri lagi. Þess vegna vil ég vænta þess, þó að 4. gr. verði látin standa, svo að ekki verði farið að senda málið milli d., að hæstv. ráðh. noti alls ekki heimildina. Hitt gæti komið til mála, að athuga til haustsins, hvort á að herða á kröfunum, sem veita mönnum þau réttindi nú, að mega vera atvinnubílstjórar og selja mönnum flutning í bílum. En meðan það er ekki gert með l., tel ég, að ekki komi til greina að fara að setja einhverja reglugerð eftir heimild í öðrum l. um það, að ekki fleiri en svo og svo margir menn megi stunda þessa atvinnu. Þess vegna vil ég vænta þess, þó að þetta verði samþ., að hæstv. ráðh. láti sér ekki koma til hugar að setja neinar reglur um þetta. En hitt kæmi til mála, að láta athuga, hvort ekki væri rétt að herða á þeim kröfum, sem nú eru, ef mönnum þykir nauðsynlegt að tryggja betri menn í starfið eða á einhvern hátt betri þjónustu, en nú er. Þá gæti þurft slík skilyrði, en það á að undirbúa með sérstökum l., en ekki að breyta með reglugerð í öðrum l., sem mér finnst stappa nærri broti á stjórnarskránni.