16.12.1948
Neðri deild: 41. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins minnast á örfá atriði úr ræðu hv: 2. þm. Reykv., sem var hneykslaður á mörgu og ekki sízt á því, að þessari svokölluðu skilanefnd væru fengin allt of mikil völd í hendur samkv. frv. til þess að ákveða, hvort lán skuli veita og hversu með skuli fara. Enn fremur hafa tveir þm. úr sama flokki talið ákaflega mikla firru, að sjóðstjórnin eða skilanefndin væru skipaðar af ráðh. Ég vil aðeins drepa á þetta í sambandi við svipaða löggjöf, sem sett var hér 1935 og heitir Lög um skuldaskilasjóð vélbátaeigenda. Þar eru alveg hliðstæð ákvæði hvað bæði þessi atriði snertir. 10. gr. mælir svo fyrir, að sjóðstjórnin skuli skipuð af ráðh. Og viðvíkjandi því, sem þm. taldi hina mestu óhæfu, að fela pólitískri n. svo mikið vald eins og hann tiltók, þá á það sér líka fordæmi í þessum l. frá 1935. Upphaf 14. gr. hljóðar .svo: „Þegar er sjóðstjórnin hefur fengið í hendur tillögur umboðsmanna og virðingargerðir matsmanna, tekur hún ákvörðun um, hvort lánbeiðandi getur komið til greina við fjárveitingu.“ Og ákvörðunin er alveg afgerandi um það, eftir þeim l., hvort honum er hugsað líf eftir þeim l. eða ekki að dómi þessarar sjóðstjórnar. — Ég bendi á þetta til þess að sýna fram á það, að í þessu frv. er núv. ríkisstj. ekki að koma með nein nýmæli hvað þetta snertir eða frekari þrengingar, en Alþ. hefur á því herrans ári 1935 látið sér sæma að lögfesta.

Að öðru leyti að því er snertir skuldaskilin þá minnist ég þess, að þegar skuldaskil vélbátaeigenda voru lögfest að undangenginni till. til þál., sem ég mun hafa verið 1. flm. að, var því ekki tekið þannig, að það væri skoðað sem fjandskapur við útvegsmenn, heldur þvert á móti, og þó er ég víss um það, að hagur vélbátaútvegsins 1935 var ekki nærri eins slæmur og hagur þeirra, sem verst eru leiknir af skuldum núna. Þessi óánægja núna með skuldaskilin hlýtur að liggja í mikilli breytingu að undanförnu. Á þeim tíma var litið á þetta sem ráðstafanir til björgunar, en eftir ræðum þm. Sósfl. að dæma mætti ætla, að þeir litu á þetta sem eitthvað fjandsamlegt útgerðinni. Annars vil ég benda á það, að í frv., sem ég flutti hér eða flutt var undirnafni sjútvmrh. um aðstoð við bátaútveginn og þessar 6 millj. kr., var ekkert farið inn á þessi atriði. Rn. tók ekki á þeim málum á annan veg, en áður hafði verið gert, sem sé að þetta yrði veitt sem lán útvegsmönnum, eins og áður hafði átt sér stað. En í þessari hv. d. kom einhuga krafa frá hv. sjútvn. um það, að þessu yrði breytt og gert að nokkurs konar framlagi. óafturkræfu, og um leið, að strikað væri yfir kreppulánin frá 1945 og 1947, sem mundi þýða 15 millj. kr. útgjöld fyrir ríkissjóð, og mér var alls ekki sleppt við að gefa yfirlýsingu um, að slík löggjöf kæmi til greina síðar meir. Ég held, að hvorki mér né neinum öðrum í ríkisstj. hafi verið það neitt afar mikið kappsmál að setja þennan skuldaskilakafla inn í, en hann er bein afleiðing af þeirri kröfu, að því skuli slegið föstu, að ríkissjóður skuli einn bera þungan af þessum 15 millj., hvernig sem færi um hag skuldunautanna í framtíðinni. Ég tók það fram við framsögu málsins, þegar á því var imprað af einhverjum hér, að þetta ætti að vera styrkur, en ekki lán, að ég teldi engan veginn vonlaust, að bátaútvegurinn gæti goldið þetta á sínum tíma, ef hann fengi góða vertíð, og var það sannfæring mín, enda veit maður, að sveiflurnar hér geta verið bæði upp á við og niður á við. En menn voru nú annarrar skoðunar og þar með hv. flokksbróðir hv. 2. þm. Reykv., hv. þm. Siglf., sem er fulltrúi sósíalista í sjútvn. En þegar svo er komið, að Alþ. vill endilega láta ríkissjóð bera svona stór gjöld, er óverjandi fyrir ríkisstj. að gera engar ráðstafanir til þess, að aðrir lánardrottnar sjávarútvegsins gefi svipaða eftirgjöf. Það er nú svo með þessi skuldaskil, að litið er á þau allt öðrum augum nú en fyrir 13 árum, eins og komið hefur fram í ræðum þm. Það er sem sé sú slæma hugarfarsbreyting, að gera megi ótakmarkaðar kröfur til ríkissjóðs. En ef þeir, sem þann og þann daginn eru í forsvari fyrir ríkissjóð eða hagsmuni ríkisins, draga af því rökréttar ályktanir og bera fram, eins og í þessu tilfelli, till. um skuldaskil útvegsins, er það á máli þessara þm. sérstakur fjandskapur við skuldunautana.

Hv. 2. þm. Reykv. var ákaflega gramur yfir ýmsum aðgerðum ríkisvaldsins, og mér skildist og raunar veit, að hann er það vel að sér í þingsögunni og að öðru leyti það skýr, að hann veit vel, að margt af því, sem hann hér hellti úr skálum reiði sinnar yfir, stafar ekki frá þessari ríkisstj., sem nú situr, einni saman né af aðgerðum þeirra þinga, sem haldin hafa verið í hennar tíð, heldur verður að sækja það miklu lengra aftur í tímann, t.d. afskipti af utanríkisverzlun og afurðasölu. Það byrjaði auðvitað fyrir alvöru í stríðinu og hefur haldizt síðan, m.a. vegna þess, að einmitt þeir menn, sem fylla flokk hv. 2. þm. Reykv., hafa viljað halda af öllum mætti í þessi afskipti ríkisvaldsins af afurðasölunni, t.d. með því að verða fyrstir manna til þess að kveða upp úr með það, að ríkissjóður ætti að bera ábyrgð á og tryggja ákveðið verð á fiskinum, þegar sá tími var liðinn, sem gat heitið ófriðarástand. En þegar þess er krafizt af hv. 2. þm. Reykv. og flokki hans, að ríkið ábyrgist fyrir fram ákveðið verð fyrir afurðirnar, er vissulega beinlínis verið að halda við afskiptum ríkisvaldsins af afurðasölu. Það þarf ekki að rökstyðja það fyrir skynbærum mönnum. Það væri undarlegt ríkisvald, sem léti sig afurðasölu engu skipta, eftir að ríkissjóður væri settur undir áhættu af henni. Nú er það ekki eins og hv. þm. vildi halda fram, og getur verið, að hann sé þessu máli ekki eins kunnugur í einstökum atriðum og honum er það tamt og leikið að tala snjallt og fellt og skýrt og stundum fordæmandi um það í almennum atriðum. Það eru t.d. ekki allar afurðir, sem ríkisvaldið skiptir sér beint af að selja. Á ýmsum sviðum, líka hvað sjávarafurðir snertir, hafa þegnarnir — ég vil segja sem betur fer — athafnafrelsi að öðru leyti en því, að þeir verða að sækja um útflutningsleyfi á vörum. Það hafði lengi með höndum n., sem hét samninganefnd utanríkisviðskipta, og var hún nokkurs konar arftaki nefndar með öðru nafni, er skipuð var til svipaðra starfa í byrjun síðasta stríðs. Nú hefur hún látið af störfum, var margmenn, og heyrðust útflytjendur oft kvarta yfir seinni afgreiðslu hjá þessari n. og þótti erfitt við hana að eiga, ekki af öðrum ástæðum en þeim, að nm. höfðu allir einhverjum öðrum störfum að sinna, og það þótti dragast oft á langinn meir en góðu hófi gegndi að afgreiða beiðni um útflutning o.s.frv. Svo var það líka, að í ýmsum atriðum vildi þessi n. ekki taka endanlegar ákvarðanir og taldi sig oft þurfa að bera sig saman við ríkisstj. um sölu og verð, og tafði þetta líka talsvert fyrir afgreiðslu. Nú hefur þetta verið gert einfaldara, þannig að í utanrrn. er deild, eða réttara sagt, það heitir svo, því að það er einn maður, mjög duglegur og glöggur, sem hefur þetta með höndum fyrir ríkisstj., og veit ég með vissu, að það er orðið miklu liprari gangur á þessum málum nú við það að komast úr höndum margmennrar n., sem hafði líka mörgum öðrum störfum að sinna og, eins og ég líka sagði áður, þurfti oft að bera sig saman við ríkisstj. Nú er þetta mál komið í deild í stjórnarráðinu, þar sem afgreiðslan getur gengið fljótt.

Ég sagði áðan, að það væru fjölmargar vörur; sem væru frjálsar til þess að selja, t.d. saltfiskur. Hann er seldur af Sölusambandi íslenzkra fiskframleiðenda. Það er sölusamlag, sem upphaflega er stofnað af fjöldasamtökum allra fiskframleiðenda í landinu. Þeir hafa þar sína fulltrúa kosna í stjórn, halda þar sinn aðalfund með þar til kjörnum fulltrúum á hverju ári. Hefur svo verið í nokkur undanfarin ár, að þeim hefur verið falið að hafa á hendi sölu saltfisks, alveg án íhlutunar ríkisvaldsins að öllu leyti, þangað til Alþ. fór inn á þá braut, eftir kröfu hv. 2. þm. Reykv. m.a., að ganga í ábyrgð fyrir saltfiskinn. — Síldarútvegsnefnd er dálítið hliðstæð stofnun. Hún er kosin af Alþ. og hefur með höndum sölu á saltsíld, eins og allir vita, og starfar á svipaðan hátt að öðru leyti. Og svo eru vörutegundir, sem tilheyra sjávarútveginum, t.d. þorskamjöl, niðursuðuvörur og margt annað, sem til fellur. Það er í frjálsri sölu og engu háð nema því, er snertir utanríkissamninga, sem landið gerir, þar sem Íslendingar verða að lofa einhverri þjóð einhverjum hluta af lýsi eða mjöli gegn því að fá leyfi fyrir öðrum vörum þaðan í staðinn. Um sjálfar síldarafurðirnar, síldarlýsi og síldarmjöl, er það að segja, að þær eru að mestu leyti tilheyrandi stofnun, sem ríkið sjálft rekur, síldarverksmiðjur ríkisins. — Svo að þegar þetta er athugað, er ofmælt hjá hv. 2. þm. Reykv., þegar hann kemst þannig að orði, að ríkisstj. taki vörurnar með valdi af landsmönnum. Og engar af þessum ráðstöfunum eru upp teknar af núv. stj., heldur er þetta búið að vera svona lengi.

Hv. 2. þm. S-M. beindi til mín fyrirspurn um það, hver kostnaður ríkissjóðs yrði vegna fiskábyrgðar á þessu ári. Þegar ég flutti hér fjárlagaræðuna, gaf ég nokkurt yfirlit yfir þetta, eiginlega hvort tveggja, sem hann spurði um, bæði hvað kostnaður ríkissjóðs hefði orðið á árinu 1047 og hvað væri líklegt, að hann yrði í ár, ekki einasta fyrir ríkisábyrgð á fiski, heldur líka fyrir dýrtíðarráðstafanir. Ég gerði þá ráð fyrir, að dýrtíðarráðstafanirnar í heild mundu á þessu ári kosta ríkissjóð kringum 68 millj. kr. Ég skal nú bæta því við, að þessi tala er víst heldur lág, og má víst gera ráð fyrir ekki lægri upphæð en 70 millj. kr., þegar allt er tekið með, bæði fiskábyrgðin, útflutningsuppbætur á kjöt og allar niðurgreiðslur. En ég segi þó ekki, að þetta sé nákvæm upphæð, því að um einn liðinn í niðurgreiðslunum, þ.e. kjötniðurgreiðslur til neytenda, sem sýslumenn um land allt gera upp við skattgreiðendur, koma víst ekki skýrslur til stjórnarráðsins fyrr en löngu eftir áramót. — Í sömu ræðu gerði ég ráð fyrir, að fiskuppbæturnar mundu nema 141/2 millj. kr. þetta ár, og vil ég hafa sama fyrirvara hvað þetta snertir, því að ekki er enn séð, hvað þetta verður mikið, en mun ekki verða langt frá 15 millj. (LJós: Væri ekki hægt að fá þetta sundurliðað?) Sundurliðun hef ég ekki hér við höndina.

Þá spurði hv. þm., hvað verðuppbætur á útflutt kjöt hefðu verið miklar þetta ár. Þar liggur fyrir alveg ákveðin tala, 4,6 millj., eins og ég hef líka skýrt frá áður. Saltfiskframleiðslan, sem var 26 þús. tonn í fyrra og kostaði 10 millj. þá í útflutningsuppbætur, mun vera nálægt 13 þús. tonnum nú, eða helmingi minni en í fyrra. Maður hafði jafnvel búizt við, að hún yrði enn þá minni, en nú í haust hefur verið álitinn góður afli við Norður- og Norðausturland, og mér er sagt, að þessi framleiðsla muni verða um 13 þús. tonn. Niðurgreiðslurnar námu 10 millj. í fyrra á helmingi meira magni, en ég hef von um, að salan hafi tekizt það betur á þessu ári, að ekki verði tilsvarandi niðurgreiðslur á saltfiski, miðað við það magn, sem var í fyrra. Það er náttúrlega skylda þeirra, sem fyrir þessum málum standa hverju sinni, að leitast við að draga úr þessum niðurgreiðslum eftir mætti með því að leitast við að selja þessar vörur sem bezt. Það telja allar ríkisstjórnir sér skylt, og núverandi ríkisstj. hefur unnið dyggilega í þessu efni, einkum með því að gera sölusamninga við erlend ríki, þar sem ábyrgðarverði er náð. Ég tel mig þá hafa leyst úr þessari fyrirspurn hv. þm. Hv. þm. spurði einnig um aðgreiningu á niðurgreiðslum fisksins, en ég hef ekki tök á að gefa um það sundurliðaða skýrslu fyrr en um áramót. Það er t.d. núna ráðgert að afskipa með „Brúarfossi“ hleðslu af freðfiski, sem er afgangsframleiðsla og verkaður þannig, að ekki er hægt að selja hann nema í Bretlandi, og verður hann seldur með afföllum, sem ég veit ekki nú, hver verða.

Hér hefur nú verið sagt margt um þetta mál, og er það kannske eðlilegt, því að nú er miklu meiri vanda að ráða en nokkru sinni áður. Hv. 2. þm. S–M. taldi sig hneykslaðan á því, að það væri talað um þetta frv. sem aðstoð við bátaútgerðina. Frv. heitir nú raunar ekki því nafni, og þótt segja megi, að ef 70 millj. kr. fari í dýrtíðarráðstafanir og útflutningsuppbætur á fisk nemi aðeins 15 millj. kr., að það sé ekki stór hluti af 70 milljónum, þá er þó stór liður, sem vissulega er háður því, hvort verðlag er hátt eða lágt, og því koma niðurgreiðslur á afurðum landbúnaðarins að haldi fyrir sjávarútveginn eins og aðra. Frv. er til þess að reyna að halda við ráðstöfunum, sem áður hafa verið gerðar til þess að létta á verðbólgunni. Því hefur þegar verið lýst af hæstv. forsrh., og þarf ég ekki að orðlengja það. En þegar maður, sem eins mikið er við sjávarútveg riðinn og hv. 2. þm. S-M, hneykslast svona á þessu frv., þá verður manni að spyrja. Hvað vill hv. þm. láta gera? Hvað treystir hann sér út í af öðrum leiðum, svo að ekki þyrfti þennan dýrtíðarpóst í fjárlögin og svo að ekki þyrfti að afla neinna tolla og gjalda upp í þann kostnað? Vill hv. 2. þm. S-M. lækka kaupgjald yfirleitt, eða vill hann hitt, að þvinga niður landbúnaðarafurðir þvert ofan í landslög, sem hann hefur átt sinn þátt í að staðfesta? Hvern kostinn vill hann taka? Ef hann — eins og ég — játar, að hann hafi ekki orku til að koma þessu til leiðar, svo að nægði til að tryggja öruggan og ábatasaman atvinnurekstur, vill hann þá samt ekki reyna aðrar leiðir til að halda um stund atvinnuleysinu frá dyrum landsmanna? Hv. 2. þm. S–M. hefur sjálfur játað á þessu þingi að reyna niðurgreiðslur á innlendum neyzluvörum og hins vegar að veita útflutningsuppbætur fyrir fisk, og þegar hann og aðrir hv. þm. greiða atkv. með slíku, þá krefst rökrétt hugsun þess, að hinir sömu sýni þá tillitssemi, að þeir sjái ríkissjóði fyrir tekjunum, er þarf til að standa við skuldbindingar Alþingis í þessu efni. Hann flytur hér sjálfur frv. um fiskábyrgð, og þar er öllu fögru lofað, hærri fiskábyrgð en ríkisstj. treystir sér til að lofa, lægri beitukostnaði, stórlækkuðum vöxtum, lækkuðum iðgjöldum o.s.frv., og það góða við þetta frá hans sjónarmiði er það, að hann getur tekið undir með skáldinu og sagt:

„Það er ókeypis allt og með ánægju falt.“

Það er ekkert verið að láta í það skina, að þetta kosti einhvern eitthvað. En getur hv. 2. þm. S-M.haldið því fram,að það sé samboðið ábyrgðartilfinningu nokkurs manns að bera svona fram og lítilsvirða alveg þá leið málsins, sem snýr að því að afla tekna handa ríkissjóði, sem standa á undir útgjöldunum, sem af þessu leiðir. Það þarf ekki valinn mann úr sveit til þess að benda á galla á ráðstöfunum þeim, sem ríkisstj. er að reyna að gera til þess að halda uppi framleiðslu og atvinnu. Eins og dýrtíðin er mögnuð, er það hægðarleikur að benda á gallana, en höfuðatriðið er það, að Alþingi beri gæfu til þess að sníða sem mest af þessum göllum af og ganga svo frá, að flestir megi við una, hafandi þó fyrir augum, að hvað eina sem krafizt er af ríkissjóði, þá verðum við að sjá til þess, að hann fái endurgreiðslu fyrir, því að annars eru till. hv. þm. í þessu efni harla léttvægar og lítils virði. — Skal ég svo ekki fara hér um fleiri orðum. Ég þykist hafa reynt að gefa hv. andmælingum frv. í fyrsta lagi andsvör við spurningum og í öðru lagi mynd af því, hvernig þeirra hugsunarháttur birtist raunsæjum augum. Þeir hafa ekki ómakað síg á því lítilræði að gera það.