03.02.1949
Efri deild: 53. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í B-deild Alþingistíðinda. (2716)

118. mál, raforkulög

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka báðum, hæstv. atvmrh. og hv. 1. þm. N-M., fyrir þær undirtektir, sem þetta mál hefur fengið að þeirra hálfu. Ég verð nú að segja, að það er nokkuð annað hljóð í hv. þm. en verið hefur.

Ég hef raunar litlu hér við að bæta, en ekki get ég fellt mig við þá hugmynd að takmarka innflutning ljósavélanna í viss héruð. Ætli það kæmi ekki kurr í Austfirðinga, ef Vestfirðingar yrðu látnir ganga fyrir með tækin? En ég er ekki á móti því, að stuðlað yrði að því að koma upp viðgerðarverkstæðum. En eins og ég sagði áðan, þá ætla ég ekki að teygja lopann, en þykir vænt um, að málinu er vel tekið. Nú hafa verið pantaðar 30–40 vélar hjá landssmiðjunni, en 60–70% þeirra umsókna, sem borizt hafa, bera það með sér, að óskað er eftir 6 kw. stöðvum. Það virðist því benda til þess, að heppilegast yrði að flytja inn þessa stærð stöðva.

Að lokum — ég gleymdi því víst áðan vil ég óska þess, að málinu verði vísað til hv. iðnn. að umr. lokinni.