05.04.1949
Efri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1763 í B-deild Alþingistíðinda. (2723)

118. mál, raforkulög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem ég flutti hér í hv. d., hefur tekið nokkrum breytingum hjá hv. iðnn., og hefur hv. 1. þm. N–M. gert nokkra grein fyrir því, svo sem vaxtaspursmálinu. Þá er lánstíminn mjög styttur, og tel ég, að þar hafi n. rétt fyrir sér, enda hafði ég fallizt á þá skoðun á búnaðarþingi. Ég mun einnig til samkomulags sætta mig við vextina, sem hv. n. leggur til, og yfirleitt mun ég fallast á brtt. hv. n. Hins vegar finnst mér brtt. hv. þm. Barð. til skaða fyrir frv., sérstaklega það að láta ráðh. ákveða lánskjörin og tryggingu fyrir láninu. Þá má gera ráð fyrir, að allir sæti ekki sömu kjörum, því að oft er skipt um ráðherra, og eins og nú er, eru lánskjörin í raforkusjóði fastákveðin. Ég held, að hann hafi ekki athugað þetta, því að ég þykist vita, að hann vill vel, þó að honum skjátlist. Öllum getur orðið á í messunni. Það verður ekki til þess ætlazt, að menn búi við það öryggisleysi að vita ekki fyrir fram um kjörin. Það er það stóra misrétti, og ég þykist vita, að þegar hann hefur athugað þetta nánar, muni hann ekki fylgja brtt. sinni fast, ekki sízt er ég hef verið kúgaður til hlýðni við n. og tekið mína till. aftur.