05.04.1949
Efri deild: 82. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1766 í B-deild Alþingistíðinda. (2726)

118. mál, raforkulög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður, það þýðir ekki að lengja umr. Í raun og veru getur það staðizt, að gr. sé eins og hún liggur fyrir, þar sem það nýrra gengur fyrir hinu gamla. En ef einhver rekur augun í þetta, er ekki vert að láta það stangast í l. sjálfum, og má laga það við 3. umr.

Ég vildi fyrst geta þess, að sitthvað er um héraðsrafveiturnar, því að það skildist mér, að kostnaðurinn vegna héraðsrafveitnanna væri heimlagningartaugin. En ríkið byggir upp raforkuverin. Hér er hins vegar farið fram á lán nú og ekkert annað og eigi með betri kjörum, en nú fá bændur almennt til ræktunar, og eru þau þó erfiðari en hin, sem veitt eru til bæjarhúsabygginga. Bæði er lánstíminn styttri og vextirnir hærri. Ég geri ráð fyrir, þó að fasteignaverð komi til, þá verði kröfurnar linar og eigi um 1. veðrétt að ræða. Margir bændur eru búnir að festa jarðir sínar í 1. veðrétti — því miður — fyrir lánum.

Hv. þm. Barð. gat þess, að vatnsvirkjanir væru einmitt ódýrari og dygðu betur. Það sýnir þó, að einmitt er dýrt að reka stöðvarnar, að þarna er meiri þörf hjálpar. Ég tók fram, að þannig hagar til í sveitum, að nauðsynleg rafmagnsáhöld verða að koma í bæina. Á fjölda bæja eru komnar mjaltavélar, og síðan bætast við fleiri. Það er krafizt þæginda, og í því efni verða smámótorar að hjálpa. Og þegar svo er komið, vita menn, að stærri vélar eru ódýrari og traustari, en smærri vélar. Bændur eru ekki að gera að gamni sínu, heldur eru þeir knúðir af nauðsyn, þar sem engin von er um að fá stórar héraðsrafveitur eða hægt verði að koma upp vatnsvirkjunum. Þetta mun skiljast, og skal ég ekki þreyta hv. d. á meiri mælgi um þetta mál.