16.12.1948
Neðri deild: 41. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hefur furðað á málflutningi okkar sósíalista, og hæstv. forsrh. talaði um, að stjórnarandstaðan væri ábyrgðarlaus. Það væri þokkalegt framferði af stjórnarandstöðunni að koma ekki fram með neinar till. um að borga tapið. Hví rýkur hæstv. ráðh. upp til handa og fóta, þegar fyrir liggur, að fiskurinn sé seldur? Því byrjar hann á því að skammast út af því, að hér skuli vera komið fram frv. um ábyrgð til handa sjávarútveginum? Ég vil sjá um, að á þessu verði ekkert tap. Við erum að reyna að troða því inn í hæstv. ríkisstj., að hún geti selt, en hún er alveg trúlaus á annað en hún verði að tryggja þessar ráðstafanir með nýjum álögum. Hæstv. forsrh. talaði langt mál um ábyrgðarleysi stjórnarandstöðunnar. Það er e.t.v. fyrirgefanlegt, en hvað kallar hann það framferði að leggja fram frv. eins og þetta, svo að enginn annar úr hæstv. ríkisstj. sér sér fært að vera með því? Engum hv. þm. úr liði hv. stj: kemur til hugar að standa upp til að mæla fyrir frv. Dettur hæstv. forsrh. yfirleitt annað í hug, en þetta frv. sé hámark ábyrgðarleysisins, Hæstv. meðráðherrar hans skildu þetta og reyndu að þvo sig hreina. Þetta frv. verður e.t.v. skoðað sem aðalverk „fyrstu stjórnar, sem Alþfl. myndar á Íslandi“ og á vafalaust að sýna, hvernig landinu:skuli stjórnað. Og ekki var hugsað til annars en hæstv. forsrh. legði á það vizkunnar blæ. Það er ábyrgðarleysi að viðurkenna, að mál þetta sé bráðabirgðaleið, sem menn draslist svona rétt inn á af berri ólund vegna ósamkomulags. Hvað er eiginlega ábyrgðarleysi, ef þetta er það ekki? Það er vítavert ábyrgðarleysi að lýsa slíku yfir úr forsætisráðherrastól. Og hæstv. forsrh. ferst ekki að eyða að því orðum, þótt frv. komi frá stjórnarandstöðunni, þar sem menn sjá eigi ástæðu til að skoða fiskábyrgðina sem yfirvarp fyrir auknum álögum á þjóðina. Hér er um lýðskrum eitt að ræða. Hvaðan annars staðar skyldu þá útgerðarmenn vænta sér trausts? Áreiðanlega ekki frá hæstv. forsrh. Þeir trúa ekki á gull þaðan. Mér þætti gaman að fá traustsyfirlýsingu útvegsmanna varðandi þetta frv. En vill hæstv. forsrh. lýsa því yfir, að hæstv. ríkisstj. hafi í fyrstu verið þess fullvíss, að útgerðarmenn færu af stað og gerðu báta út, þegar búið væri að samþykkja þetta frv.? En sé svo eigi, hvers konar tegund af ábyrgðarleysi er það þá að koma fram með slíkt frv. og fá það síðan framan í sig frá útgerðarmönnunum, að ekki sé hið minnsta gagn að því? Nei, ég hef ekki enn komið auga á traustið til hæstv. ríkisstj. í þessum efnum né heldur, að hæstv. ráðh. hafi tilkynnt þessari hv. d. það traust útvegsmanna. Mér virðist hann vera hræddur um, að þessi leið dugi ekki; og telur hann okkar gera rangt í því að æsa útgerðarmenn upp: En ég held, að hæstv. fjmrh. hafi fengið sannanir fyrir því; að það eru útgerðarmenn, sem voru æstir fyrir; án þess að við sósíalistar höfum þurft að auka þar meiru við. Og ein af ástæðum þess er þetta ráðleysi og þetta fálm og úrræðaleysi um það allt, sem varðar sjávarútveginn. Það var og talað um það, að mjög mikill hluti af tekjum ríkissjóðs væri notaður til niðurgreiðslna afurðaverðsins og væri það gert fyrir fólkið, svo að alþýðunni væri gert léttbærara að bera dýrtíðina í landinu. En hæstv. ráðh. þarf að fara til annarra til þess að fá það álit, að rétt sé að taka úr öðrum vasa alþýðunnar til að setja í hinn. Allt eru þetta álög á fólkið, og það er síður en svo nokkurt réttlæti í þessu. Ef hæstv. ráðh. gæti sýnt fram á, að hér væri einnig verið að leggja á auðmennina, þá gætu hlutföllin eitthvað breytzt í landinu. En hér er bara verið að hækka vörurnar í verði.

Þá kom hæstv. ráðh. inn á, að verzlunarauðvaldið hefði átt besta daga, þegar við sósíalistar áttum sæti í ríkisstjórn. Við hefðum nú e.t.v. við litla athugun getað komizt að þeirri niðurstöðu, að skárra hefði verið fyrir auðmennina, þegar form. Sjálfstfl. myndaði stj., en þegar hinn róttæki Alþfl. gerði það. Það væri nú ekkert óeðlilegt, þó að form. helzta auðmannaflokksins hér á landi mundi hugsa eitthvað nær sínum en aðrir. Annars er ekki nema rétt, að þetta sé krufið til mergjar. Það urðu átök í stj., meðan við sósíalistar sátum þar, um, hvað gera skyldi fyrir hvorn aðila um sig, útveginn og verzlunarauðvaldið. Á þeim tímum var mest gert fyrir sjávarútveginn og var nýsköpunarstjórnin stórvirk í þeim efnum. Þess vegna runnu nú hærri tekjur til þjóðarinnar, en nokkru sinni fyrr. Bjó stj. í haginn fyrir framtíðina með margvíslegum framkvæmdum, og núverandi hæstv. ríkisstj. hefur lifað á þessu síðan. En hverjir hafa riðið hér baggamuninn? Þegar nýsköpunarstjórnin var mynduð, voru til í inneignum erlendis upp undir 580 millj. kr. Sósíalistar lögðu til, að fjárhæðir þessar yrðu hafðar til nýsköpunarframkvæmda, en Alþfl. sá um það með hinum alræmdu skilyrðum sínum að koma þeirri upphæð, er til nýsköpunar gengi, niður í 300 millj. kr. En mismunurinn, 280 millj. kr. af fé, sem við vildum verja til nýsköpunar atvinnuveganna, var settur inn á almennan notkunarreikning fyrir þjóðina. Þetta var nú hið fyrsta, — en við skulum halda áfram. Næsta afrekið varð, þegar dollarana þraut. Þegar hin fyrstu átök urðu innan stj. um það, hvort taka ætti dollarana og leggja þá inn á nýbyggingarreikning, þá varð atkvgr. í stj. nýsköpunarinnar, þar sem Sjálfstfl. hafði tvo ráðh. og leyfði hinum flokkunum einnig að hafa tvo hvorn, svo að hann var í minni hluta. En hvað gerðist? Alþfl. gekk með Sjálfstfl., en móti sósíalistum, í því að taka dollarana út af nýbyggingarreikningi. Kom það ævinlega í ljós; þegar til átaka einhverra, kom um, hvort gengið skyldi til nýsköpunarframkvæmda eða ekki, að þá gekk Alþfl. með Sjálfstfl. Síðan hefur Alþfl. haft aðstöðu til að sýna, hvað hann vildi gera, þessi flokkur, sem svo oft hefur stært sig af skilyrðunum, sem hann hafi sett við myndun stj. En hver er svo útkoman? Jú, sjávarútvegurinn hefur aldrei verið verr leikinn, skriffinnskan aldrei verið meiri og verzlunarauðvaldið aldrei verið voldugra. Þetta eru afrekin. Nei, ég held, að hæstv. forsrh. ætti ekki að hætta sér lengra út í samanburð. Hann hefur hlotið þau ömurlegu örlög að veita forstöðu aumustu og óvinsælustu stjórn, sem nokkurn tíma hefur verið við völd á Íslandi.

Hæstv. forsrh. hefur reynt að afsaka þetta frv. með því, að það væri bráðabirgðaleið, þar sem stj. hefði ekki komið sér saman um aðrar leiðir. en sannleikurinn er, að stj. hefur yfirleitt ekki komið sér saman , um nokkurn skapaðan hlut til lausnar málinu, og svo telur forsrh. það alveg makalaust að tala um frv. sem árás á sjávarútveginn en það er frv., þegar það er skoðað sem stefna ríkisstj. Þegar hæstv. forsrh. var að tala um aðstoð við útveginn, þá datt mér í hug, að þetta væri svona svipuð aðstoð og hengingarólin er fyrir þann hengda. Ástæðan til þess, að svona er komið fyrir sjávarútveginum, er fyrst og fremst sú, að ríkisstj. þorir ekki að horfast í augu við að taka upp baráttu við verzlunarvaldið í landinu. Hæstv. forsrh. talaði um, að við segðum, að stj. sýndi hatur sitt til útvegsins með þessu frv. Það er síður en svo, að þetta sé rétt, heldur er það aumingjaskapur og úrræðaleysi ríkisstj. gagnvart verzlunarvaldinu, sem bitnar á sjávarútveginum.

Svo talaði hæstv. menntmrh. og komst nú heldur betur í essið sitt, þegar hann fór að rifja upp gamla dýrtíðarsönginn sinn og stefnu Framsóknar frá 1942. Og niðurstaðan fyrir núverandi ástandi sjávarútvegsins væri verðbólgan, þó að ríkisstj. sé hvað eftir annað búin að lýsa því Yfir áður, að þetta frv. sé borið fram vegna aflabrests hjá útgerðinni, en því gleymir ráðh. alveg, þegar hann er byrjaður á dýrtíðarsöngnum. Nei, það er ekki verðbólgan ein, sem hefur skapað núverandi ástand sjávarútvegsins. En hitt er rétt, að aflabrestur á undangengnum síldarvertíðum hefur átt mikinn þátt í því, þó að ríkisstj. og afskipti hennar af afurðasölunni eigi líka sinn drjúga skerf í því, að svo er komið. Allur þessi dýrtíðarsöngur menntmrh. endaði svo eins og venjulega á tilvitnun í stefnu Framsóknar. Og hver var svo þessi stefna? Jú, hún var sú að binda kaupið strax 1942 og koma með því í veg fyrir, að verkamenn gætu á nokkurn hátt bætt kjör sín á þeim gróðatímum sem í hönd fóru, en auk þess var það sama og að vísa frá sér miklum erlendum gjaldeyri, sem þjóðinni áskotnaðist í sambandi við hækkandi kaup verkamanna, sem unnu við setuliðsvinnuna. Við stjórnarmyndunina 1944 var enn stagazt á lækkun launa og afurðaverðs af hálfu Framsfl. og það sett sem skilyrði fyrir þátttöku hans í ríkisstj. Og svo blindur var menntmrh. þá, að hann knúði bændur til að afsala sér nokkru af verði framleiðsluvöru sinnar í þeim tilgangi, að með því yrði hægara að komast að samkomulagi við Sjálfstfl. til að knýja fram launahækkun. En þegar þessi tilraun mistókst, þá neitaði flokkurinn að taka þátt í ríkisstj. og virtist aðalástæðan sú, að tryggja átti alþýðunni svolitlar kjarabætur. Svo ætlar þessi hæstv. ráðh. að telja fólkinu trú um, að hann og flokkur hans hafi með þessu verið að berjast fyrir hag og velferð verkamanna og bænda. Sú var tíð, að hæstv. menntmrh. ásakaði okkur sósíalista fyrir þátttöku okkar í stj. með Sjálfstfl. og sagði, að við styddum einungis með því auðmenn og braskara. En hver varð raunin? Jú, hún varð sú, að aldrei hafa verið gerðar meiri umbætur í þjóðfélaginu, en á meðan sú stj. sat að völdum, hvorki fyrir verkamenn né bændur, þrátt fyrir langa valdatíð Framsóknar. Þá var hæstv. menntmrh. að gera tilraun til að grínast með hinar stórkostlegu framkvæmdir í sjávarútveginum í tíð nýsköpunarstj. Ég tel, að hann ætti að endurskoða afstöðu sína, ef hann ætlar að fara að líta smánaraugum á nýsköpunina í sjávarútveginum, sem þá var gerð. Það er að minnsta kosti víst, að hefði stefna hæstv. menntmrh. fengið að ráða, þá flyttu nýsköpunartogararnir ekki til landsins 100 millj. í erlendum gjaldeyri.

Ég ætla ekki að gera veltuskattinn hér að umtalsefni, en undarlegt þykir mér, þegar menntmrh. heldur því fram, að þessi skattur verki eins og tollar, og ekki sízt vegna þess, að einhvers staðar í stefnu Framsóknar er ákvæði um að afnema alla tolla, en svo er bara allt í lagi með veltuskattinn, af því að hann verkar eins og tollar.

Hæstv. menntmrh. lauk máli sínu með því að koma að bílaáætluninni. Það er dálítið fróðlegt fyrir þm. að heyra um störf ríkisstj. og fjárhagsráðs. Eða hvernig leyfir forsrh. sér að segja, að skatturinn af innfluttum bílum muni nema 4 millj., en svo kemur menntmrh. og segir, að það sé engin áætlun til um bílainnflutning á næsta ári? Hvernig er þetta eiginlega? Hverju á að trúa? Er engin innflutningsáætlun til? Er þetta allt saman út í bláinn? Getur stj. ekki einu sinni komið sér saman um að segja allt á einn veg, svo að ósannindin rekist ekki svona áberandi á? Það verður tilhlökkunarefni, ef við í fjhn. þurfum að byrja á því í fyrramálið að yfirheyra fjárhagsráð og ríkisstj., og svo eru ef til vill engar áætlanir til hjá þessum aðilum. Það er flutt hér frv., sem gerir ráð fyrir tekjuliðum af innflutningi, sem ráðh. hafa alls ekki komið sér saman um, að verði fluttur inn. Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega? Ég get skilið, að það sé erfitt fyrir stj. að afgreiða fjárlög, ef ekki er hægt að gera 29. gr. frv. öðruvísi en svo, að hún sé tóm vitleysa. Hvað hefur ríkisstj. verið að gera undanfarið? Eru öll störf hennar bara kák út í loftið? Svo var hæstv. fjmrh. að upplýsa viðvíkjandi skilanefndinni, að á því væri svipað fyrirkomulag og 1935. Ég hélt nú, að hæstv. fjmrh. hefði ekki þótt það nein fyrirmynd. Þá saknaði ég skýringa á 2. gr. frá ráðherranum. Varðandi það atriði, að eðlilegt væri, að aðrir lánardrottnar gæfu eftir eins og ríkið, þá verður að koma því inn hjá hæstv. ríkisstj... Og það er þetta, sem er ákaflega erfitt að koma ríkisstj. í skilning um eða hún vill ekki skilja. Við vitum, að okkar verzlun innanlands hefur sína góðu og öruggu afkomu, vegna þess að sjávarútvegurinn starfar að því að afla gjaldeyrisins. Þess vegna væri ekki óeðlilegt einmitt í sambandi við svona frv., að gerðar hefðu verið ráðstafanir til þess að draga úr því, hve mikið af tekjum þjóðfélagsins fer til þeirra aðila, sem verzlun stunda. Og það væri nær að gera það en að gera þær ráðstafanir, sem hér er stefnt að gagnvart beinum lánardrottnum sjávarútvegsins.ÞÓ er einn lánardrottinn sjávarútvegsins hér dreginn undan hjá ríkisstj., sá, sem mest hefur grætt, þ.e. Landsbankinn.

Svo kom hæstv. fjmrh. inn á það, hvernig afskipti ríkisvaldsins hefðu verið af afurðasölumálunum og yfirleitt atvinnuvegunum. Ja, þar vildi ég gjarna mega beina dálitlum spurningum til hæstv. fjmrh. Hann vildi sérstaklega kenna okkur sósíalistum um það, hve þessi afskipti væru mikil, og sagði, að æskilegt væri, að hægt væri að hverfa með verzlunina inn á frjálsar brautir. En vald ríkisstj. um að ráða því, hvort menn megi flytja vörur út úr landinu, það var komið á, þegar stríðið byrjaði, og var eðlilegt á stríðstíma, og var líka eðlilegt á ýmsan hátt, svo framarlega að ekki væri tekin upp þjóðnýting á framleiðsluatvinnuvegunum, að rýmkun hefði orðið — um verzlunina til þess að gera hana frjálsari með stríðslokum eða nokkru eftir að hlutirnir fóru að komast í eðlilegra horf. M.ö.o., það hefði verið ákaflega eðlilegt fyrir núverandi hæstv. ríkisstj. að sjá til þess, að þarna yrði farið að losa um þessi höft. Og nú vil ég spyrja: Hvað hefur Sjálfstfl. í ríkisstj. gert til þess að fá einhverju slíku framgengt? Við verðum varir við, að Sjálfstfl. talar ákaflega mikið um frjálsa verzlun. Og hæstv. forsrh. hefur hvað eftir annað í þessum umr. talað um, að hann óskaði, að meira frelsi væri gefið í verzluninni. — Ég hef sérstaklega og af ásettu ráði tekið mjög greinilega fram, að ég álít, þó að ég sé hlynntur öðru framtíðarfyrirkomulagi, að heppilegra væri, að verzlun landsmanna væri frjálsari nú, heldur en að hún sé bundin þeirri einokun, sem nú er. Og ég efast ekkert um, að útvegurinn mundi bjarga sér betur, ef hann nyti meira frjálsræðis en hann gerir undir einokunarfyrirkomulagi hæstv. ríkisstj. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Vill hann og hans flokkur gera ráðstafanir til þess að losa um þessi höft, sem sjávarútvegurinn á nú við að búa? Vill hann gefa útgerðarmönnum meira frelsi til þess að mega ráða yfir sínum gjaldeyri? Eða er það einokunin, sem hann vill halda í til handa sjávarútveginum? Þetta vildi ég ræða. Og ef hæstv. fjmrh. vildi gefa mér ofurlítið undir fótinn, mundi ég freista þess að bera fram brtt. í þessa átt. Og hæstv. fjmrh. sagði tvisvar, að útflutningsverzlun sjávarútvegsins væri nú ekki öll svo þrælbundin, því að verzlunin með hrognin væri frjáls. — Og við skyldum nú segja, að eitthvað fleira ætti að vera frjálst á tuttugustu öldinni heldur en hrognin. Á sínum tíma var verzlunin á Íslandi gefin frjáls öllum þegnum Danakonungs. Ég ætla, að ekki væri það nú óeðlilegt, að sjávarútvegsmenn hefðu frjálsræði til að selja ofur lítið meira en hrogn. — Hæstv. fjmrh. vildi alveg sérstaklega kenna okkar till. um fiskábyrgðina um það, að þessi höft væru á útflutningsverzluninni. Þetta hefur snúizt við í hans höfði. Fiskábyrgðin er afleiðing af valdboði, sem ríkið hefur komið þarna á. Vegna þess, að ríkið tekur sér það vald að taka afurðirnar af útvegsmönnum og ráða sjálft, fyrir hvað þær eru seldar, og að taka gjaldeyrinn af sjávarútveginum á ákveðnu verði og ráða, hverjir megi nota hann, — vegna þess er það ekki nema eðlileg krafa, að slíkt ríki sem þetta gerir taki gagnvart útveginum ábyrgð á, hvaða verð það gefur honum fyrir fiskinn. Ríki, sem tekur fiskinn þannig af útveginum og gjaldeyrinn, sem það fær fyrir hann, verður a.m.k. að geta sagt við útveginn: Ég gef a.m.k. þetta fyrir fiskinn. En ef útvegurinn væri frjáls viðkomandi útflutningsverzluninni og gjaldeyrinum fyrir fiskinn, þá væri hægt að tala um, að ríkið eigi ekki að ábyrgjast verðið fyrir fiskinn. En það getur ekki farið saman, að ríkið taki afurðirnar og gjaldeyrinn fyrir þær og ætli að láta verðið fyrir þær fara niður úr öllu valdi og skapa útgerðarmönnum kannske stórtap á þeirra rekstri.

Hæstv. fjmrh. sagði, að það væri, sem betur færi, til athafnafrelsi á þessum sviðum og talaði um síldarolíu, síldarmjöl og saltfisk í því sambandi. Og svo bætti hann við: Þeir eru aðeins háðir útflutningsleyfum. En það eru útflutningsleyfin, sem ríkið notar til þess að hafa allt valdið í sínum höndum yfir íslenzkum útflutningi. Nei, sem betur fer, sagði hæstv. fjmrh., er athafnafrelsi til á einstaka sviði. En það er bara ekki til í útflutningsverzluninni nema bara viðkomandi hrognum. Þetta er bezt, að menn geri sér ljóst, þegar rætt er um þessi mál. (ÓTh: Verður það ekki, þegar kommúnistar koma á sínu fyrirkomulagi?) Hv. þm. GK. veit, að svo framarlega að það eigi að leiða gott tímabil yfir þessa þjóð, þá er bezt að hafa samstarf við sósíalista. Það er í það eina skipti, sem tekizt hefur að láta Sjálfstfl. vinna góð verk fyrir þessa þjóð, þegar hann stjórnaði í samvinnu við Sósfl. hafi hann annars unnið fyrir þessa þjóð, þá hefur hann meira og minna orðið til skammar. En í það eina skipti, sem hann hefur unnið með Sósfl., þá hefur hann unnið vel. (ÓTh: Góð áhrif höfum við á ykkur.) Eða við á hann.

Þá kom hæstv. fjmrh. að lokum með þá spurningu, — ég held, að ég fari ekki rangt með það, — hvort við vildum eitt af tvennu, lækka kaupið eða landbúnaðarafurðaverðið. Það var bara þetta tvennt, sem hæstv. ráðh. virtist álíta, að væri til ráða. Ég verð nú bara að segja það, að það er hægt að stjórna þessu landi án þess að lækka kaupið og meira að segja án þess að lækka landbúnaðarafurðaverðið. A.m.k. er hægt að stjórna því án þess að lækka það raunverulega verðgildi, sem verkamenn og bændur fá af þessu hvoru tveggja, með því að taka af öðrum aðilum, sem hafa sannarlega þó nokkuð, sem hægt er að taka af. Ég hef í nál., sem ég hef lagt hér fyrir einmitt í sambandi við mál, sem snertir dýrtíðarlöggjöfina, lagt fram upplýsingar um tekju- og eignaskiptingu bara hér í Reykjavík. Ég vil nú leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. — og að sumu leyti má beina því líka til hæstv. menntmrh., hvort þeim finnst nú ástæða til þess að setja það sem númer eitt í öllum gerðum vegna erfiðleika atvinnuveganna að lækka landbúnaðarvísitöluverðíð, meðan tekjur t.d. í Reykjavík eru þær, sem ég skal upplýsa. Heildartekjur í Reykjavík, sem til skatts koma, að frádregnu öllu nema sjálfum sköttunum, voru 1947 kr. 591 millj. hjá þeim, sem greiddu tekjuskatt. Ef við viljum fá heildartekjur nettó út, þá verðum við að bæta þarna við tekjum hjá þeim mönnum, sem ekki greiða tekjuskatt, og verður þá upphæðin yfir 600 millj. kr. Og ef við vildum draga frá þessu skatta og útsvör, sem menn greiða í Reykjavík, þá mun það vera um 100 millj. kr. Samkv. þessu munu meðalnettótekjur 5 manna fjölskyldu í Reykjavík vera um 50 þús. kr. Þegar svo vitað er, að meginið af verkamönnum hér í Reykjavík hafa varla yfir 20 þús. kr. til 25 þús. kr. til að lifa af, þó að um 5 manna fjölskyldu sé að ræða, þá er auðséð, að það eru það stórir partar af tekjunum, sem ganga til yfirstéttarinnar, að það er sannarlega af þó nokkru að taka þar, ef til er ríkisstj. í landinu, sem þorir að leggja á yfirstéttina. Enda er það upplýst af skattstofunni, að 100 tekjuhæstu félögin í Reykjavík hafi um 25 millj. kr. í tekjur, eða um einn fjórða úr milljón að meðaltali hvert. Meðan heildartekjurnar eru svona miklar og meðan sá hlutur, sem verkamenn fá þarna í, er svona tiltölulega lítill, þá er það sannarlega ekki númer eitt að lækka tekjur verkamannanna, þegar um er að ræða ráðstafanir til að rétta við atvinnuvegina, — jafnvel þótt hæstv. fjmrh. álíti það viturlegustu till., sem hann getur komið með í ríkisstj. — Og enn þá skýrar en tekjuskiptingin talar eignaskiptingin í Reykjavík. Ef athuguð er eignaskiptingin í Reykjavik, þá kemur í ljós, að 200 ríkustu félögin og einstaklingarnir í Reykjavík, ef dregnar eru frá eignir S.í.S., Sláturfélags Suðurlands og Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis, miðað við fasteignamat og nafnverð hlutabréfa, að þeir aðilar eiga samtals eignir upp á 109 millj. kr., eða ef miðað er við það mat, sem eignarskatturinn byggist á, þá þýðir það, að 200 ríkustu félögin og einstaklingarnir í Reykjavík eiga sínar 600 millj. kr. í skuldlausum eignum. Það virðist þess vegna koma allundarlega fyrir, að það skuli ekki vera neitt annað til í heila tveggja hæstv. ráðh., sem hér hafa talað, hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh., heldur en annaðhvort að lækka laun hjá verkamönnum eða lækka tekjur hjá bændum. Hins vegar sýna spor hæstv. ríkisstj., að í heila hæstv. forsrh. er heldur ekki neitt annað til. Hjá honum og hans flokki er auðsjáanlega ekkert vikið að því, að það ætti að fara að taka eitthvað af fjárfúlgum, sem safnazt hafa saman hjá auðmönnum í Reykjavík.

Ég kem þessum upplýsingum hér inn í aðeins til þess að benda á, að svo framarlega að vilji væri fyrir hendi hjá meiri hl. á Alþ. til þess að leggja skatta á auðmenn, þá er hægt að taka þarna nóg fé. Og ég hef bent á það í sambandi við þær álögur, sem alltaf er verið að samþ. hér í þessari hv: d., að það væri nær að þjóðnýta eitthvað af þessum einkafyrirtækjum, sem hér eru rekin. En það er svo langt frá því, að hæstv. ríkisstj. geti látið sér detta í hug að snerta við einhverju af þessu. Hæstv. ríkisstj. er búin áður, þegar hún fékk dýrtíðarlög samþ., að rýra kjör almennings um a.m.k. 8%. Og hún hefur þetta ár svikið allt, sem hún lofaði, þegar hún fékk þau lög í gegn. Hún lýsti yfir, þegar hún batt kaupgjaldsvísitöluna við 300 stig, að þá mundi raunverulega framfærsluvísitalan lækka við það niður í 315 stig og svo eftir mánuð niður í 300 stig, þ.e. raunverulega vísitalan. Og hálærðir prófessorar tóku undir þetta til þess að leggja blessun vísindanna yfir aðfarir ríkisstj. Og hvað sýndi sig svo? Jú, vísitalan er álíka há þrátt fyrir allar niðurgreiðslur eins og hún var í fyrra, og raunverulega vísitalan í landinu er hærri en hún hefur nokkurn tíma verið áður. Og það er nú þó ár liðið síðan hæstv. ríkisstj. kom fram með sín dýrtíðaráform, og svona er árangurinn. — Svo stöndum við hér með frv., sem hæstv. ríkisstj. leggur fyrir okkur, þar sem ríkisstj. sjálf hefur ekki meiri trú á því frv. heldur en svo, að hún reynir ekki að telja okkur trú um, að ástandið í þeim málum, sem það tekur til, batni nokkurn skapaðan hlut við samþykkt þessa frv. Hún gengur ekki með þær byltingar í kollinum nú, sem hún virðist þó að hafa verið með í fyrra, en ætlazt er til, að Alþ. samþ. þetta. Og svona er sett fram úrræðaleysið í þessum málum með því að samþ. þetta frv., sem ríkisstj. álítur aðeins bráðabirgðaleið. Nei, ég get ákaflega vel skilið það, að þegar svona frumvörpum er fleygt fram, þegar ríkisstj. hefur aldrei komið sér saman um málin, meðan hæstv. ráðh. hafa rætt þau í ríkisstj., og geta ekki einu sinni komið sér saman um útreikninga viðvíkjandi þeim hér og ekki, með hverju þeir elgi að blekkja þm., og ekki einu sinni nær samkomulagið svo langt, að þeir geti komið sér saman um að auka nokkru við frv. og ekki nokkra leið til þess að ráða bót á dýrtíðinni, þá erum við komnir að því, að ríkisstj. er að gefast upp við lausn dýrtíðarmálanna og að því er virðist skoðar það sem sitt einasta verkefni bara að sitja og sitja, hvað sem á dynur, þótt segja megi, að hún væri til annarra hluta valin. Eru þetta einu úrræðin, sem hún nú sér — annað virðist ekki vera sjáanlegt, — og að finna einhverjar bráðabirgðalausnir, til þess að hún geti setið? Hún hefur meira að segja sjálf hætt að reyna að telja okkur trú um, að hún ætli að gera eitthvað með því að sitja. Hvert er Alþ. komið, ef það lætur bjóða sér svona hluti hvað eftir annað?

Nei, það væri ákaflega ánægjulegt að geta rætt við hæstv. ríkisstj. í alvöru um þessi mál. En meðan hæstv. ríkisstj. ætlar að reyna bara með sínu flokkavaldi að pína svona frv. í gegnum þingið, þá get ég fyrir mitt leyti ekki annað en reynt a.m.k. að vekja eftirtekt hv. þm. á því, hvað verið er að gera með þessu máli, og í þeirri n., sem ég næ til, reynt, ef þess er kostur, að fá einhvern botn í, hvað ríkisstj. hugsar sér í sambandi við þessi mál, ef nokkur leið er til þess að fá slíkar upplýsingar.