25.04.1949
Efri deild: 88. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1768 í B-deild Alþingistíðinda. (2734)

118. mál, raforkulög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vildi segja örfá orð til áréttingar á það, sem hv. 1. þm. N-M. var búinn að segja um þetta frv. og breyt. þær, sem hér liggja fyrir. Ég verð að telja frá mínu sjónarmiði, þó að þetta frv.

sé ekki að öllu leyti æskilegt eins og það nú er orðið, að það sé mjög viðunanlegt eins og það nú liggur fyrir frá hv. iðnn. á þskj. 550, og mun ég greiða því atkv. mitt. Ég tel, að frv. hafi frá 2. umr. breytzt að því leyti til batnaðar, að nú er ekki lögbundinn lengur, en verður auðvitað í reglugerð, lánstíminn eða ákvæðið um það, að fasteignaveð skuli vera fyrir lánunum. Þetta hvort tveggja var heppilegt að afnema og hafa það ekki í lagaákvæði, og nú geri ég ráð fyrir því, eftir því sem hæstv. landbrh., sem með þetta mál fer nú, hefur látið orð falla, bæði á búnaðarþingi og Alþ., að bæði vextir og önnur kjör verði höfð hin þægilegustu sem hægt er og sanngirni heimtar á báðar hliðar. Og þó að hann vilji vel, þá hef ég þá von, að annar geti komið jafngóður í hans stað, og þess vegna lýsi ég því yfir, að ég mun óhikað greiða þessu frv. atkv., eins og það er á þskj. 550, og sérstaklega líka vegna þess, að nú er liðið á þingtímann og ef breyt. færi enn að verða hér mikil á þessu máli, þá tel ég, að það væri tilræði við frv. og mundi verða til þess, að málið kæmist ekki fram í þetta skipti. Þess vegna vænti ég þess, að allir þeir, sem vilja fylgja frv. af heilum hug, fari nú ekki að koma með brtt. við það, heldur styðji það með sínu atkv.