25.04.1949
Efri deild: 88. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1771 í B-deild Alþingistíðinda. (2740)

118. mál, raforkulög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að þetta er skilyrði fyrir lánveitingu, ef till. verður samþ., og ég vil upplýsa, hvers vegna þetta var sett. Þegar raforkul. voru sett, kom til athugunar, hvort ekki skyldi setja slíkt ákvæði, að heimila upphæð til lána úr ríkissjóði til að koma upp dieselrafstöðvum. Ráðh. og raforkumálastjóri beittu sér gegn því, af því að það væri óöruggt og kostaði gjaldeyri og mundi auk þess draga úr áhuga manna á því að koma upp vatnsorkustöðvum, og var því ekki lánað til dieselstöðva. Þessir sömu aðilar vilja halda sig á sömu braut, nema fé sé veitt til þess í fjárl., m.a. vegna þess, að fé raforkusjóðs er þegar ráðstafað langt fram í tímann, nema þá með því móti að bregðast því, sem lofað hefur verið, og það er rétt hjá hæstv. ráðh., að það er mikill eðlismunur á, hvort þetta verður fellt eða samþ.