13.05.1949
Neðri deild: 108. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1774 í B-deild Alþingistíðinda. (2749)

118. mál, raforkulög

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að í þessu frv. felast í raun og veru ekki aðrar breyt. en þær, sem 4. tölul. fjallar um. 1., 2. og 3. töluliðir eru aðeins orðabreyt. á ákvæðum, sem nú þegar eru fyrir í l. Og þær heimildir, sem þar eru teknar upp, voru í l. og eru komnar til framkvæmda. Eina efnisbreyt. er í sambandi við 4. tölul., þ.e. að bæta við heimild til þess að lána úr raforkusjóði til dieselrafstöðva með þeim skilyrðum og takmörkunum, sem þar eru settar. Það er nú nokkurn veginn gefið mál, að ef verulegur skriður kemst á það að raflýsa til sveita með dieselrafstöðvum, verður mjög mikil eftirspurn til þeirra hluta. Og eins og frsm. gat um, er nú þegar ekki á annað að vísa í þessu efni en heimild í l. um ræktunarsjóð, sem hefur heimild til þess að lána til slíkra stöðva í sveitum. En það er vitað, að það fé, sem hann hefur með höndum, er mjög takmarkað og því hætt við, að seint verði fullnægt þeirri eftirspurn fyrir slík lán, sem búast má við, að verði á næstunni, nema sérstaklega sé aukið það lánsfé, sem sjóðurinn hefur til þeirra hluta. Það er því ekki nema eðlilegt, að menn, sem hafa áhuga fyrir þessum málum, reyndu að opna þarna aðrar dyr fyrir lánsmöguleikum, og verður þá raforkusjóður fyrir hendi. En það er rétt hjá frsm., að svipað verður nú ástatt fyrir honum og ræktunarsjóði, þó að þessi heimild sé gefin þarna. Þar mun vera lítið fé fyrir hendi fram yfir það, sem nú þegar er búið að ákveða til annarra þarfa samkv. 1., 2. og 3. tölul. þessarar gr. Ég geri því ráð fyrir, að það muni reynast svo, eins og hv. frsm. benti á, að að sinni verði þetta lítil lausn til þess að bæta úr þessu máli, þó að þessi lagaheimild sé gefin, og verður þá að finna aðra fjáröflunarmöguleika, ef þessi heimild á að koma að raunhæfum notum.