11.05.1949
Neðri deild: 106. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1776 í B-deild Alþingistíðinda. (2760)

208. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls var borin fram ósk af mér við hæstv. fjmrh., að hann gæfi um það upplýsingar, hve mikilli fjárupphæð þessi tekjuöflunarleið mundi nema fyrir ríkisstj., ef frv. yrði samþ. Þessar upplýsingar lágu aldrei fyrir n., svo að það væri ágætt að fá þær núna. Hæstv. ráðh. lofaði að koma með upplýsingar um þetta núna við þessa umr. málsins, en þar sem hann er nú ekki hérna viðstaddur, vildi ég biðja hæstv. forseta að láta þau boð til hans ganga, að málið sé tekið á dagskrá.

Ég hef sjálfur í millitíðinni athugað, hvernig þetta afnám kjötuppbótarinnar mundi koma niður á fjöldanum öllum af þegnum þjóðfélagsins, og get skýrt hv. þm. frá þeim niðurstöðum, sem ég komst að. Það er auðséð, að með þessu móti kemur þetta harðast niður á fólki, sem hefur haft einna lægst laun, t.d. fólki, sem vinnur á skrifstofum eða við afgreiðslustörf, því að það missir alla kjötuppbótina. T.d. eiga stúlkur, sem vinna í búðum og hafa frá 250 kr. á mánuði í grunnlaun, mjög erfitt með að draga fram lífið af þessum tekjum. Ég býst við, að þessar stúlkur þurfi að greiða í tekjuskatt af þessum launum sínum svona 400–500 kr. Kjötuppbótin, sem er 214 kr., hefur venjulega numið um það bil hálfum tekjuskattinum. Þetta afnám mundi því, ef það yrði samþykkt, þýða sama og það, að á lægst launuðu þegnum þjóðfélagsins er tekjuskatturinn tvöfaldaður. Nú er það vitað, að mikill fjöldi af þessu fólki, t.d. stúlkur, sem vinna alveg fyrir sér sjálfar og geta ekki fengið ódýrara húsnæði eða fæði heima hjá sér, verður að greiða af þessum 800 kr. mánaðarlaunum 300–400 kr. á mánuði í húsaleigu, en með þessu afnámi er verið að tvöfalda við þetta fólk tekjuskattinn. — Annað dæmi eru símastúlkur. Þær hafa frá 4.200–5.400 kr. árstekjur. Nú liggja fyrir ríkisstj. kröfur frá öllum starfsmönnum ríkisins um 36% uppbætur á laun sín, svo að þeir fengju það sama út úr launum sínum og þeir höfðu og ætlazt var til, að þeir hefðu með setningu launalaganna. Starfsmenn ríkis og bæja leggja áherzlu á það að fá a.m.k. 25% kjarabætur. Þetta er svarið, sem ríkisstj. gefur við þessum kröfum, að tvöfalda tekjuskattinn við lægst launuðu þegna þjóðfélagsins. Þegar farið er fram á 25% kjarabætur, er svarað með tvöföldum tekjuskatti. Ég skal geta þess, að á fjölskyldum kemur þetta tiltölulega létt niður, miðað við hina, sem ég gat um áðan, og er þó nokkuð af verkamannafjölskyldum, sem sleppur alveg, en það gildir aðeins um ófaglærða verkamenn, sem hafa stopula vinnu og stopular tekjur, en þetta gildir ekki um faglærða verkamenn og eins um þá, sem lenda í nokkurn veginn fastri vinnu með einhverjar tekjur fyrir eftirvinnu, því að þeir missa uppbótina alveg.

Það er þá þetta, sem ríkisstj. er að túlka sem skatt á þá ríku og skatt á hátekjumenn. En sannleikurinn er sá, að þetta kemur lítið niður á þeim, en kemur þyngst og harðast niður á þeim mönnum, sem lág laun hafa að búa við. Þess vegna tel ég það alveg fráleitt að fara inn á þessa tekjuöflunarleið, og ég er alveg hissa á því, að ríkisstj. skuli svara þannig launakröfum starfsmannafélags ríkis og bæja, með því að tvöfalda tekjuskattinn, sérstaklega þegar það er nú enn fremur athugað, að því hefur verið yfirlýst þegar, að það stendur til einmitt hér í Rvík núna í ár að hækka útsvörin um einn þriðja, án þess að útsvarsstiginn hafi hækkað. Þetta stafar af því, að útsvarsstiginn hefði gefið minna í ár en í fyrra, vegna minnkandi tekna bæjarbúa, en það er einmitt að kenna ríkisstj., þessari fyrstu stjórn Alþfl., og fjárhagsráði, sem bannar allar verklegar framkvæmdir og hefur dregið úr öllum atvinnurekstri og framkvæmdum hjá einstaklingum, svo að ekki er tækifæri til þess fyrir menn að vinna eins og þeir vilja. Það er vegna þessa, að það stendur til að hækka útsvörin um 1/3, en þó eru allir sammála um, að það megi alls ekki gera. Á sama tíma leggur ríkisstj. til að tvöfalda tekjuskattinn hjá lægst launuðu þegnum þjóðfélagsins. Ég álít, að þetta sé fjarri öllu lagi, og ef það á að fara að knýja þetta fram núna, ef það er meiningin, þá verður a.m.k. að gera einhverjar endurbætur á frv., þannig að undantekningar yrðu meiri, en þar er gert ráð fyrir. Ég sé nú, hvernig málinu muni reiða af við þessa umr., en það verður þá að taka það til athugunar fyrir 3. umr. málsins. Hins vegar vil ég nú ítreka ósk mína við hæstv. fjmrh. um það, því að ég sé nú, að hann er kominn inn í d., að hann upplýsi það nú, hverju ríkisstj. reikni með, að þetta frv., ef það verður að l., gefi í tekjur.