11.05.1949
Neðri deild: 106. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1780 í B-deild Alþingistíðinda. (2763)

208. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Hermann Guðmundsson:

Herra forseti. Ég var ekki við, þegar hæstv. fjmrh. flutti fyrri ræðu sína í þessu máli. En ég hlustaði á ræðu hans áðan og verð að segja, að mér fannst rökstuðningur hans fyrir þessari ráðstöfun harla lítilvægur. Upphafið var um það, að frá embættismönnum úti á landi hefðu borizt bréf, þar sem skýrt hefði verið frá því, að almenningur í landinu hefði tekið þessu svo og svo einkennilega og menn hefðu jafnvel brosað. Ég vil að engu leyti efast um sannleiksgildi þessara bréfa, en bros má skilja á tvo vegu, og ég veit, að menn brosa ekki að því, þegar svo á að skerða kjör þeirra eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Það hefur verið mikið talað um það í þinginu og annars staðar, hve mikil nauðsyn sé á því að halda atvinnuvegunum gangandi, að vinnufriður sé í landinu o.s.frv. Mér virðist þetta frv. verka öfugt við þau orð, sem ríkisstj. hefur viðhaft í þessu sambandi, þar sem með því eru gerðar ráðstafanir, sem rýra kjör almennings að verulegu leyti. Afleiðingunum þarf ekki að lýsa. Ég vildi aðeins með örfáum orðum leyfa mér að mótmæla þessu frv., sem hlýtur að hafa í för með sér vaxandi dýrtíð og versnandi kjör almennings. Það kann að vera rétt hjá hæstv. fjmrh., að mikið fé vanti í ríkissjóð í sambandi við fjárl. En mér virðist, því miður, að þessar ráðstafanir snerti fyrst og fremst hina fátæku og smáu, og kemur það úr hörðustu átt, því að þótt þessi ríkisstj. beri ekki neinn sérstakan vinarhug til alþýðunnar, mætti búast við, svo framarlega sem hún vill vinna að þjóðarhag, að hún kysi, að í þessu landi væri vinnufriður og starfsfriður. Þetta frv., ef samþ. verður, hlýtur hins vegar að hafa í för með sér, að vinnufriður í landinu fer út um þúfur. Það harma það allir góðir menn, en allir sanngjarnir menn hljóta að sjá það, að launþegar geta ekki tekið svo á móti hverju högginu af öðru án þess að rétta hlut sinn, og eina leiðin til þess er að knýa fram grunnkaupshækkanir, hversu skammgott sem það kann að reynast.

Ég vil sem sagt láta í ljós andstöðu mína gegn þessu frv. og vænti, að það nái ekki fram að ganga.