11.05.1949
Neðri deild: 106. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1781 í B-deild Alþingistíðinda. (2764)

208. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þeir hv. 11. landsk. (HermG) og hv. 8. þm. Reykv. (SG) hafa bætt mótmælum sínum við það, sem hv. 2. þm. Reykv. (EOl) sagði um þetta mál. Hv. 8. þm. Reykv. gekk svo langt, að hann sagðist heldur vilja, að allar kjötniðurgreiðslur yrðu felldar niður, en að þetta væri flokkað eins og hér er gert. Nú er það svo, að verið var að leitast við að ganga ekki á rétt þeirra smæstu, og þess vegna numið staðar við það, að þegar hjón með barn hafa ekki sem svarar 19.687 kr. árslaunum, skuli þau fá kjötuppbætur. Ég býst við því, að hv. þm. hafi sagt þetta fremur af ofurkappi, en að hann hafi athugað það vel, því að bæði er það svo og mun kannske verða svo, að margir, bæði giftir og ógiftir, beri minna úr býtum, en hér var lýst með þeirri takmarkalínu, sem ég skýrði frá áðan. Og vissulega mundi hv. 8. þm. Reykv. ekki vilja taka af þeim fríðindin bara fyrir þá sök, að aðrir, sem bæru meira frá borði, fengju ekkí þessi fríðindi. Ég þykist vita, að hv. þm. finni það sjálfur, að hann hefur þarna ofmælt. Það er vitanlegt, að fyrir neðan þennan launaskala geta mjög margir orðið, og þeir eiga að njóta þeirra sömu uppbóta framvegis og verið hefur. Ég sagði áðan, að frá skattteknísku sjónarmiði hefði verið réttara að afnema með öllu þessar kjötuppbætur og niðurgreiðslurnar til bænda, en það er mest af því, að ég finn til þess kannske meira en flestir, hvað ríkissjóður á erfitt með að standa við þessar skuldbindingar sínar. En á hinn bóginn vil ég undirstrika það, þó að þessir þm., sem talað hafa, hafi ekki viljað viðurkenna það, að þarna er viðleitni til þess að láta þá lægst launuðu njóta uppbótanna. Nú hafa þm. bent á þessar einhleypu stúlkur. Það eru nú yfirleitt stúlkur, sem eru við verzlanir og annað og jafnvel við síma og eru mjög sæmilega launaðar, eftir atvikum. Það getur raunar verið, að stúlkur, sem þurfa að leigja sér eins dýrt herbergi og hv. 2. þm. Reykv. talaði um, séu ekki ofsælar af kaupi sínu. En það er of mikið af stúlkum, sem vilja létta vinnu utan heimills og leigja sér óþarflega dýrt, svo að heimilin fara þeirra á mis og fá ekki notið aðstoðar þeirra. Hér er ekki reynt að hafa áhrif á þetta, en þegar um það er að ræða, hverjir eigi að njóta þessara sérstöku fríðinda, finnst mér einkennilegt, ef mönnum á að verða starsýnt á þetta einhleypa fólk, að það verði sérstaklega illa úti fyrir svona tekjurýrnun. Nei, það eru barnaheimilin, sem náttúrlega er erfiðast með, og hér er vendilega um það búið, að ekki sé gengið allt of nærri þeim í þessum efnum.

Að lokum vildi ég segja það, að þegar þessir ágætu forsvarsmenn alþýðunnar eru nú að berja sér á brjóst út af hækkun á benzínskattinum og niðurfellingu á kjötniðurgreiðslum, ef til þess kæmi, ættu þeir að hafa það í huga, að tal þeirra er a.m.k. ekki vel á rökum reist, þegar þeir kvarta fyrir hönd alþýðunnar í landinu undan því, hve afkoma manna sé erfið hér á landi, ef þeir vildu lita til þess, sem sannar skýrslur bera með sér um það, hvað fólkið á við að búa annars staðar. Sannleikurinn er sá, að þetta litla ísl. þjóðfélag býr miklu betur að sínu launafólki, fastlaunaða fólki og daglaunamönnum, þegar á allt er litið, en stórþjóðirnar í kringum okkur. En þessu gleyma menn eða koma oft ekki auga á, og því miður er það oft prédikað, innan þings og utan, að hér sé hag alþýðunnar þrengt mest. Einn flokksbróðir hv. 8. þm. Reykv. sagði einu sinni í Vestmannaeyjum, að það langerfiðasta í starfi sínu þar fyrir kommúnismann væri að fá fólkið til að skilja, hvað það ætti bágt. Það minnir mig dálítið á þessi orð, þegar ég heyri hinar ágætu ræður forsprakka Sósfl., eftir þessa, eftir atvikum, litlu kjaraskerðingu, sem hér er um að ræða, en gerð er með það fyrir augum að stilla kostnaði og útgjöldum ríkisins meira til samræmis, en ella mundi.