16.05.1949
Efri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1801 í B-deild Alþingistíðinda. (2791)

208. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er kunnugt, að reglurnar um kjötuppbætur hafa alla þá tíð, sem þær hafa gilt, verið í mörgum aðalatriðum ranglátar. Það hefur oft farið þannig, að fátækir, aldraðir verkamenn, sem hafa leyft sér að hafa nokkrar kindur, af tryggð við sveitina, þar sem þeir höfðu búið áður, voru sviptir þessum kjötuppbótum vegna þessa, þó að þeir hefðu barnmörgum fjölskyldum fyrir að sjá. Hins vegar hafa barnmargir stóreigna- og hátekjumenn í sumum tilfellum fengið svo háar kjötuppbætur á undanförnum árum, að þeir hafa fengið afgang af peningum heim til sin frá sýslumanninum, þegar þeir hafa fengið kvittaðan tekjuskattinn. Það eru til mörg dæmi um þetta, og þessu á víst að halda áfram, því að engin ákvæði eru í l., sem ákveða, að nokkurt tekjuhámark skuli binda endi á að fá uppbæturnar.

Þá er ákvæði í gömlu reglugerðinni, sem segir, að atvinnurekendur, sem hafi fleiri en 3 menn í þjónustu sinni, skuli ekki fá neinar kjötuppbætur. En eigendur í auðugum hlutafélögum, kannske milljónafélögum, gátu fengið kjötuppbætur og fá það enn, þótt þeir neyti kannske aldrei kjöts. Það eru því ýmsar af hinum gömlu misheppnuðu reglum viðvíkjandi kjötniðurgreiðslum, sem koma til með að halda sér enn þá. En það er ekki það versta við þetta. Það versta er það, að allmargt af lágtekjufólki, sem á nú mjög erfitt með að komast af með sínar lágu tekjur, verður svipt þessum kjötuppbótum og fær þannig á sig alltilfinnanlegan nýjan skatt. Menn munu segja, að ekki sé nema réttmætt, að einhleypingar fái engar kjötuppbætur, og þá hugsa menn vafalaust til þess, að einhleypingar séu svona ungir menn, fólk á bezta aldri, sem eigi að vera allar leiðir færar og ástæðulaust fyrir ríkið að gefa til slíks fólks. Og það er rétt, að margt af þessu fólki er fólk, sem hefur ekki stofnað heimili, og segjum svo, að geri ekki til, þó að engir þeirra, sem hafa 7 þús. kr. tekjur eða meira, fái uppbætur, ef svo stendur á fyrir þeim. En það hefur verið bent á, að það sé fjöldi af einhleypu fólki, sem verði sviptur kjötuppbótunum eftir þessum reglum og hefur þó eiginlega enga möguleika til þess að verða fjárhagslega sjálfbjarga, og á þetta einkum við eldri, einstæðar konur. Þær eru yfirleitt tekjulágar, en vegna þess hvað þær eru tekjulágar, fá þær ellilaun, sökum þess af tekjuupphæð þeirra nær ekki neitt í áttina til þess að duga þeim til framfærslu, en samt á þessi skattur að koma á þær, vegna þess að ekkert lágmark er þarna. Sumt fólk, sem nýtur ellilauna, á að fá á sig þennan nýja skatt, og það er það versta við þetta frv. Þess vegna fór Alþfl. fram á það við fjmrh., að sett yrði þarna. lágmark, sem heimilaði þessum eldri konum, sem ég hef nefnt, kjötuppbætur, en það fékkst ekki. — Þetta er eitt meginatriðið fyrir því, að ég mun ekki sjá mér fært að greiða frv. atkvæði.