07.03.1949
Neðri deild: 76. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1806 í B-deild Alþingistíðinda. (2802)

141. mál, iðnfræðsla

Frsm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Iðnn. hefur haldið nokkra fundi um málið milli 1. og 2. umr., eins og hún hafði heitið. Í n. er ágreiningur um nokkur grundvallaratriði þessa máls og einmitt sömu atriðin, sem valdið höfðu ágreiningi hér á Alþ., þegar málið var til meðferðar síðast, þ.e.a.s. á næstsíðasta þingi. Það, sem ágreiningi veldur, eru þau tvö meginatriði, sem ég rakti í framsöguræðu minni við 1. umr. málsins, þ.e. hvort taka skuli upp það nýmæli að heimila iðnnemendum að ganga undir próf án þess að hafa stundað nám tiltekinn tíma hjá meistara, og svo vandamálið um gervimennina svokölluðu. N. fór rækilega í gegnum frv. og athugaði, hvort ekki gæti orðið samkomulag um nokkrar breyt., sem fremur snerta form en efni, og að því hefur n. unnið milli 1. og 2. umr. málsins. Þessum brtt. á þskj. 419 hefur nú verið útbýtt. N. ræddi málið við formann stjórnar hinnar stjórnskipuðu n., sem frv. þetta hefur samið á sínum tíma, Helga Hermann Eiríksson. Hann er fyrir sitt leyti samþykkur öllum brtt., sem tilgreindar eru á þskj. 419. Ég held, að þessar brtt. skýri sig sjálfar, svo að ástæðulaust sé að rekja efni þeirra með löngu máli.

Um 1. brtt., sem gerð er við 7. gr., a-lið, er það að segja, að n. vildi, að það kæmi skýrt fram í l., að iðnfræðsluráð á að hafa afskipti af tölu nemenda aðeins frá því sjónarmiði, að þeir fái þar sem fullkomnasta kennslu. Þetta er tekið fram til þess, að skýrt sé, að iðnfræðsluráð hafi ekki vald til þess að loka iðngreinum. Þetta vald skal vera í höndum iðnfræðsluráðs til þess eins að tryggja, að ekki sé hrúgað óeðlilega miklum fjölda nemenda inn í greinarnar, svo að þeir geti ekki notið þar fullkominnar kennslu. — Hin brtt. við 7. gr. er þess eðlis, að það er ekki gert ráð fyrir, að úrskurður iðnfræðsluráðs í vissum deiluatriðum sé endanlegur, heldur að slíkum úrskurði megi áfrýja til dómstólanna. — 2. brtt. skýrir sig sjálf. — Um 3. brtt. er það að segja, að n. þótti eðlilegt, að það væri tekið fram í l., að nemendur gætu gengið oftar en einu sinni undir próf, en þó jafnframt ákveðið að hafa það hámark, að það mætti þó ekki nema þrisvar sinnum. — 4. brtt. miðar að því að taka tillit til gildandi almannatryggingal. 5. brtt. er aðeins um það að breyta orðalagi, sem n. þótti ekki viðkunnanlegt. N. þótti óheppilegt að orða ákvæðið eins og hætta væri á, að nemendum væri misþyrmt, og taldi rétt að hafa það orðalag í staðinn „ef komið er ósæmilega fram við hann á vinnustöð.“ — Um 6. brtt., b-lið, er það að segja, að þar sem í l. er gert ráð fyrir, að gerðardómur skuli fjalla um mál og fella endanlegan úrskurð, þá er hér gert ráð fyrir, að dómi gerðardóms megi þó áfrýja til dómstóla, og má segja, að slíkt sé nokkurt aðhald fyrir gerðardóminn.

Ég vil endurtaka það, að hér er ekki um neinar efnisbreytingar að ræða og fullt samkomulag um brtt. innan n. og einnig við formann þeirrar stjórnskipuðu n., sem samið hefur frv. upphaflega.