08.04.1949
Neðri deild: 88. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1808 í B-deild Alþingistíðinda. (2812)

141. mál, iðnfræðsla

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Mig langar til, áður en till. þessar koma til atkv., að lýsa því yfir, að ég hef ekkert annað að segja um brtt. meiri hl. iðnn. á þskj. 539 en að ég tel þær eðlilegar og fellst á þær. En um brtt. á þskj. 448 er allt annað að segja, og ef þær yrðu samþ., vildi ég óska, að frv. í heild yrði fellt.

Frv. þetta er samið af mþn. í iðnaðarmálum, sem hafði fulltrúa frá sveinum og meisturum og lögfræðinga, sem kynnt höfðu sér þessi mál. Nefndin náði samkomulagi, og kemur árangurinn af starfi hennar hér fram. Ef brtt. á þskj. 448 verður samþ., þá er þar með búið að hrinda þeim grunni, sem frv. er byggt á. Frv. er byggt upp á því, að kennsla meistara verði áfram eins og verið hefur og einnig bókleg kennsla í skólum. Í brtt. er gert ráð fyrir, að verkleg kennsla meistara verði burt numin og þar með hægt að útskrifa iðnaðarmenn og gera að sveinum, sem aldrei hafa stundað verklegt iðnnám. Þá er hægt að taka menn, sem hafa vottorð um, að þeir hafi stundað þessa iðn lengur eða skemur. En þetta segir ekki neitt. Flestir verkamenn okkar gætu t.d. lagt fram vottorð um það, að þeir hefðu stundað byggingarvinnu. í lengri tíma, og þannig fengið sveinsréttindi án þess að kunna nokkuð að ráði til verka. Og þó að þeir þurfi að ganga undir próf í faginu, þarf það ekki að koma fram, því að ekki er hægt að prófa í öllu, heldur eru aðeins einstök atriði tekin út úr, sem nemandinn þarf að leysa af hendi, svo að prófin eru enginn algildur mælikvarði á hæfni nemandans. Ef þessi till., sem byggð er á fullkominni vanþekkingu á þessu máli, verður samþ., er því frv. stofnað í fullkominn voða, og ég mundi því óska, að það yrði fellt, ef hún næði fram að ganga. Allar stéttir iðnaðarmanna, sem ég þekki, eru á móti þessari brtt., bæði meistarar og sveinar. Og þó að sams konar till. hafi áður verið hér til umr. þarf það síður en svo að sanna ágæti málsins, heldur var það einmitt látið daga uppi þá vegna þess, að það þótti óhæft. Ég tel brtt. þessa því, ef hún verður samþ., tilræði við frv.