03.05.1949
Efri deild: 95. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1812 í B-deild Alþingistíðinda. (2828)

141. mál, iðnfræðsla

Frsm. minni hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi benda hv. frsm. meiri hl. og reyndar öllum þdm. á það, að því fer svo víðs fjarri, að þetta frv. sé byggt á samkomulagi milli iðnnema og meistara, að 168 iðnmeistarar í Reykjavík, Hafnarfirði, Akranesi, Borgarnesi og fleiri stöðum hér í kring hafa sent skjal til Alþ., þar sem þeir óska eftir margháttuðum breyt. á þessari löggjöf. Þetta skjal hafa allir þm. fengið, svo að ég skal ekki þreyta þm. á að lesa það hér upp. Þeir hafa þar farið fram á það, að breytingar séu gerðar á þann veg, að lagðar séu þar skyldur á menn, að þeir skuli vera búnir að ganga gegnum iðnskólann, áður en þeir hefji verklegt nám. Þrátt fyrir þessar óskir þeirra hef ég lítið tillit tekið til þeirra í þessum brtt. mínum.

Breyt. þær, sem ég legg til, að gerðar verði, á þskj. 602, hafa allar sézt hérna áður, því að þetta er í þriðja sinnið, sem málið er hér til meðferðar. Í þessum brtt. mínum legg ég það til, að tekinn verði upp annar háttur við það, hvernig reiknaður skuli námstíminn, sem nemendurnir vinna hjá meistara, heldur en sá, sem er í frv. eins og það kom frá Nd., en þar segir í 11. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar meistari eða iðnfyrirtæki tekur nemanda til iðnnáms, skal gera um það skriflegan námssamning í samræmi við lög þessi og reglugerðir, er settar verða samkv. þeim. Iðnfulltrúar skulu staðfesta námssamninga með undirskrift sinni, og eru þeir ógildir ella.

Nú neita iðnfulltrúar að staðfesta námssamning, og má þá áfrýja því til iðnfræðsluráðs.

Námstími telst ekki hafinn, fyrr en námssamningur hefur hlotið staðfestingu iðnfulltrúa.“

Nú er mér kunnugt, seinast af atviki, sem ég heyrði um í gær, að nemandi byrjaði að vinna hjá meistara og það dróst í meira en ár, að samningurinn væri undirskrifaður. Ef það ætti nú að fara eftir þessum l. eins og þau nú hljóða, þá mundi það lengja námstíma nemandans um heilt ár. Í staðinn fyrir þetta legg ég til í minni brtt., að námstíminn byrji á þeim degi, sem nemandi byrjar að vinna hjá meistara, enda þótt samningurinn sé ekki staðfestur fyrr en síðar. Þetta er sjálfsögð réttarbót fyrir nemendur, enda er þetta ein af þeim till., sem við bárum fram og fluttum síðast er málið var hér til umr., en hefur ekki fengið náð fyrir augum þeirra, sem vilja líta á nemendurna sem eins konar vinnuvélar fyrir meistarana, en það virðist hæstv. iðnmrh. helzt gera.

Önnur brtt. á sama þskj. er líka kunn hér í d. áður. Það er svo við allt nám hér á landi, nema við iðnnám, að menn fá að ganga undir próf, þegar þeir telja sig til þess hæfa, þó að þeir séu ekki búnir að vera í skóla einhvern ákveðinn námstíma. T.d. mun nú vera að ganga undir próf í lagadeild háskólans maður, sem búinn er að vera þar aðeins 3 ár, þó að námstíminn sé þar almennt miklu lengri, allt upp í 6 ár. Það hefur ekki nokkur maður á móti því, að maðurinn sýni, hvort hann er búinn að fá þá heildarmenntun, sem þarf til að standast prófið. Ef hann hefur það, fær hann prófið, þó að hann hafi ekki verið þar við nám nema stuttan tíma eða jafnvel ekki neitt. Menn geta tekið stúdentspróf, þó að þeir hafi aldrei í menntaskóla verið. Þetta gildir alls staðar nema í iðnfræðslunni. Þar þarf að gera námssamning og vinna hjá meistara ákveðinn árafjölda. Og það er sama, hvort maðurinn þarf mörg ár til að læra iðngreinina eða getur lært hana á einu ári, hann verður að vera við námið þann ákveðna tíma. Tíminn er miðaður við það, sem meðalmaður þarf að vera, eða eitthvað fyrir neðan það. Það er sanngjarnt, en hitt er ekki sanngjarnt, að menn megi ekki ljúka náminu á skemmri tíma, ef þeir hafa dugnað til, eða fengið að sýna kunnáttu og fá þau réttindi, sem viðkomandi próf veitir, ef þeir hafa kunnáttu til að standast það. Um þetta er 2. brtt. mín. Eins og menn muna frá því, er þetta mál var til umr. áður hér á Alþingi, þá bar ég mikinn kvíðboga fyrir því, fyrst þegar þessi till. kom fram, hvort það mundi hægt að koma þannig fyrir prófum í verklegum efnum, sem menn eru prófaðir í í ýmsum iðngreinum, að það yrði eftir þeim dæmt um kunnáttu þeirra. Ég var þá, eins og ég er enn, ákveðinn í því að vilja reyna að láta menn hér fá sömu réttindi og þeir hafa við annað nám og geta sýnt kunnáttu sína og fá skírteini, þegar þeir telja sig hæfa til þess. Ég talaði þess vegna um þetta við ýmsa iðnaðarmenn, m.a. Einar Gíslason og skólastjóra iðnskólans, Helga Hermann Eiríksson, o.fl. Þeim kom saman um, að það yrði að haga nokkuð öðruvísi prófum slíkra manna, það mundi taka lengri tíma, en það væri vandalaust að koma prófunum þannig fyrir, að það mætti að fullu dæma um kunnáttu þeirra er undir þau gengju.

Eftir að hafa fengið þessar upplýsingar, og ég tek þær trúanlegar, því að þetta voru menn, sem ég tel fullkomlega dómbæra um þessa hluti, hef ég ákveðið haldið þessari till. fram. Ég flyt hana því aftur nú. Hún var samþ. í þessari d. fyrir tveimur árum, þegar málið var hér til meðferðar. Frv. strandaði í Nd., kannske að einhverju leyti fyrir þetta ákvæði, því að þótt undarlegt megi virðast, þá virtist hæstv. viðskmrh. aldrei vilja viðurkenna rétt iðnnemanna til að sýna kunnáttu sína, fyrr en meistararnir væru búnir að hafa þá hæfilega lengi að hans dómi, en hæfilega lengi að hans dómi er allan þann tíma, sem ákveðið er í reglugerð, að iðnnám skuli standa, nám, sem miðað er eitthvað fyrir neðan meðallag námshæfileika.

Þessi grein er orðuð eins og síðast, þegar málið lá hér fyrir, en síðan eru 2 ár. Hv. frsm. meiri hl. taldi, að þessa till. mætti ekki samþ. inn í frv. hér, því að þá væri hætta á, að það mundi verða svæft eða breytt aftur í Nd., því að þar hefur ekki fengizt meiri hluti fyrir henni. Till. hafi verið flutt þar af tveimur þm., hv. þm. A-Sk. og hv. 2. þm. Rang., en felld. Þetta er rétt, till. var felld í Nd., en hún var felld með litlum atkvæðamun og ekki nema liðlega helmingur deildarmanna á fundi. Hún var felld með 12 atkv. á móti 9 eða 10. Þó fullyrði ég ekki alveg þær tölur, en það var eitthvað því líkt. Þessi atkvgr. sýnir því ekkert, hvernig Nd. mundi nú verða við till., ef hún væri fullskipuð og menn væru þar mættir til að taka þátt í atkvæðagreiðslu.

Hinar brtt., 3., 4. og 5., eru afleiðing af tveimur þeim fyrstu, og þarf ég ekkert sérstakt um þær að segja.

Ég hafði upphaflega ekki hugsað mér að flytja aðrar brtt. en þær, sem eru á þskj. 602, en ég hef einnig flutt brtt. á þskj. 617, og geri ég það eftir ósk manna, ekki allra, heldur margra af þeim 164 iðnmeisturum, sem hafa sent Alþingi þetta skjal, sem hv. þm. hafa fengið, þar sem þeir vilja breyta ýmsu í þessum l. C-liðurinn í þessari till. er settur af misgáningi, og er hann, herra forseti, tekinn aftur. Hinar brtt., sem ég ber þar fram, eru við 22. gr., í tveimur liðum, a og b. Í 22. gr., eins og hún er nú, er gert ráð fyrir, að ef kemur verkfall hjá iðnsveinum, svo að stöðva verður vinnu hjá þeim, sem veita þessum nemum kennslu, þá séu meistarar skyldir til að borga nemum fullt kaup allan tímann, sem verkfallið kann að standa. Þetta er ekki réttmætt. Þetta er kennaranum alveg óviðkomandi. Hann hefur ekki getað gert ráðstafanir til að aftra því, að þetta verkfall yrði, og hann getur ekki, meðan á því stendur, látið nemana vinna, fær það ekki. Nú er það að vísu svo, að ósk þeirra er helzt sú, að þeir fái, þótt verkfall sé, að láta nemana vinna, en það vil ég ekki taka upp, en þetta fannst mér fullkomlega sanngirniskrafa, að meistarar þyrftu ekki, meðan verkfall stæði, að borga nemum kaup, og það er a-liðurinn, sem að því beinist.

B-liðurinn orðar síðan 2. málsgr. um. Eins og hún er nú, er gert ráð fyrir því, að iðnráð fái leyfi til þess að lengja vinnutíma hjá iðnnemum fram yfir umsaminn samningsbundinn tíma, sem nemur því, sem það telur, að nemar hafi misst úr vegna vinnustöðvunar hjá meistara. Í minni brtt. er gert ráð fyrir því, að þetta sé nokkuð öðruvísi. Það er gert ráð fyrir, ef vinnustöðvun er mjög lengi, þá geti samningurinn rofnað af sjálfum sér og þá sé nema heimilt að fara á annan stað og halda sínu námi áfram. T.d. ef vinnustöðvun er í Reykjavík hjá bókbandsmeisturum, þá geti nemar í þeirri grein, þegar verkfallið er búið að standa nokkurn tíma, farið til meistara í Hafnarfirði og haldið þar áfram námi sínu, svo að hann tefjist ekki á sínum námsferli og verði kannske ókleift að halda námi sínu áfram.

Þetta eru þær brtt., sem ég hef flutt við þetta frv.

Ég skal að endingu endurtaka það, sem ég hef áður sagt, að ég tel, að það væri langbezta afgreiðsla, sem þetta mál gæti fengið nú, að það yrði ekki að l. á þessu þingi, heldur yrði athugað, að hve miklu leyti hægt væri að koma á móti meisturum og óskum þeirra og þeim brtt., sem tiltölulega nýlega eru fram komnar og hafa ekki verið athugaðar af n., því að þær voru ekki fram komnar, þegar n. var að athuga málið. Jafnframt hefur það skeð, að nú er fram komið í Nd. frv. um iðnskóla, þar sem ætlazt er til, að menn fái í iðnskóla ekki aðeins bóklega kennslu, heldur og verklega, og komi hún þá í staðinn fyrir iðnmeistara og verkstæðin, sem nú veita þessa fræðslu. Er ætlazt til, að iðnskólinn geti prófað menn frá meisturum og þar með létt mjög mikið framkvæmd 2. brtt. minnar á þskj. 602, því að það er dálítið erfitt og tekur dálítinn tíma að koma því prófi fyrir, eins og nú hagar til. En eftir að kominn væri þessi iðnskóli, sem hefði möguleika til að kenna verklegt iðnaðarnám og prófa menn í því, væri þetta allt annað. Ég teldi því þetta beztu lausnina, þó að ég geri ekki till. um það, að bæði þessi mál, iðnfræðsluna og iðnskólana, dagaði uppi á þessu þingi, en yrðu samræmd og lögð fram bæði í nýrri og breyttri mynd á næsta þingi og að þau hefðu þá verið borin undir meistarana, svo að þeir þyrftu ekki 164 að senda þessi skjöl og mótmæli gegn samþykkt frv. eins og það er nú eða óska eftir breyt. á því. Ég hef þó ekki viljað leggja þetta til, heldur flytja þessar brtt., sem ég tel mikið til bóta og ég veit frá því fyrir 2 árum, að hafa meiri hl. d. með sér, því að ég geri ekki ráð fyrir, að menn séu hér eitt í dag og annað á morgun. Till. voru samþ. með nafnakalli fyrir 2 árum síðan, og eins vona ég að fari nú, hvað sem kann að verða í Nd. En þótt spádómur hv. 1. landsk. rættist, að frv. dagaði uppi, þá teldi ég, að þar væri enginn skaði skeður, því að frv. liggur ekki á meira en svo, að heppilegast væri, að það væri látið fylgjast með frv. um iðnskóla, sem nú hefur verið lagt fram í fyrsta sinn. Gæfist þá tækifæri til að samræma þessi tvö frv. og sniða af þessu frv. ýmsa þá annmarka, sem meistarar eru nú óánægðir með.

Ég vil geta þess, að einn nm., hv. 1. þm. Reykv., gat ekki verið á tveimur fundum þar sem þetta mál var til meðferðar, en ég veit, að þótt hann sé ekki kominn fram með brtt., þá er hann með till., sem fara meira í þá átt, sem iðnmeistarar óska eftir í sínu bréfi til þm., og vil ég mælast til þess, þar sem hann er nú ekki á fundi, að málinu. verði ekki hraðað það, að honum gefist ekki tími til að koma fram með sínar brtt., því að ég veit, að hann ætlar sér það.

Ég skal svo ekki eyða fleiri orðum um þetta, en ég vænti þess, að eins og þessi d. á sínum tíma var með 1. og 2. brtt. minni, sem nú eru fram bornar á þskj. 602, eins verði sömu menn með því nú og eins að till. á þskj. 617 verði samþ.