13.05.1949
Efri deild: 107. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1819 í B-deild Alþingistíðinda. (2842)

141. mál, iðnfræðsla

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Hv. þm. Barð. sagði, að frv. þetta væri gamall kunningi í d. Mér er sagt, að svo sé og það hafi verið á mörgum þ. Þess vegna má mér vera vorkunn, sem eigi hef setið nema skamman tíma á þ. Þó að þetta sé e.t.v. ekki flókið mál, þá er það svo vafið, að menn þurfa að vera kunnugir þessari iðnaðarstétt til að gera sér glögga grein fyrir málinu. En það er eitt og e.t.v. tvennt, sem enginn maður þarf að hafa setið í mörg ár á þ. til að sjá, og það er 22. gr., sem að mínu áliti á ekki þarna heima. Mér skildist á hv. þm. Barð., að hann væri mjög andvígur því, að 22. gr. standi í frv. En ólikt er það honum að lýsa því yfir, að hann greiði atkv. með frv., þar sem er ákvæði, sem hann er andvígur. Ég segi, að það sé ólíkt honum. Það hefur verið svo frá öndverðu í þessari stétt, síðan reglur voru teknar upp um iðnfræðslu, að nemendur hafa ekki verið bundnir við verkföll sveinanna. og nú er gerð tilraun til, að verkfallsréttur sveinanna gangi yfir á nemendur. Þótt nemendur fái að hreinsa til og dútla á verkstæðum, þá er það engin bót fyrir þann rétt, sem af meisturunum er tekinn, þegar þeir ráða ekki yfir nemunum um leið og sveinarnir hafa gert verkfall. Ég held að þetta sé röng framkvæmd, og mun þetta hefna sín, ef að l. verður. Ég hef því á þskj. 624 borið fram till um að gr. verði felld úr l., og þykir leitt, ef hv. þm. Barð., sem hefur staðið á móti því, að kúgaður væri réttur af stéttum, en það álít ég, að sé gert með þessu ákvæði, ætlar að vera á móti henni. (HV: Það er verkfallsréttur.) Þetta er ekki verkfallsréttur. Stéttin hefur þann rétt. Hann er hér yfirfærður á nemendurna og því komið þannig fyrir, að meistarinn má eigi nota sér vinnu nemenda, meðan á verkfalli stendur. Ég gæti trúað, að þessi réttur muni víðast hvar vera talinn þannig, að eigi ekki að taka hann af meisturunum, þó að mér sé eigi kunnugt um það.

Ég get verið með 1. till. á þskj. 602, við 11. gr., að námstíminn teljist frá dagsetningu námssamnings. — Virðist eðlilegt, að svo geti orðið, en mér hefur verið sagt, að dráttur geti orðið á, að menn geti fengið staðfestingu á námssamningi. Í öðru lagi er brtt. við 13. gr., að menn megi ganga undir iðnaðarpróf, þó að þeir hafi ekki ákveðna skólagöngu að baki. Þetta er sami réttur og í flestum öðrum skólum. Iðnskólanám er almennt nám, en lítið um sérfræðinám. Þess vegna finnst mér eðlilegt, að menn megi sýna hæfni sína með því að ganga undir próf, ef þeir sýna hæfni sína, og fá síðan sitt skírteini, en eigi sé bundið við það, að menn teljist ekki hæfir, nema þeir hafi lokið ákveðinni skólagöngu. (Samgmrh.: Till. er ekki um það, heldur að menn hafi verið í iðnnámi.) Jæja þá, en ég álít þó hitt sanngjarnt. En hér vil ég vekja athygli á einu: Hér hefur nú verið útbýtt grg. til Alþ. frá 163 meisturum, sem eru á móti ýmsu í frv. Mér skilst, að meiri hl. n. mæli með, að frv. verði samþ., án þess að gætt sé óánægju hjá mörgum meisturum með frv. Ég vil benda á þá hættu, sem getur stafað frá að setja l., sem meistarar í því nær öllum iðngreinum eru mótfallnir, bæði í Reykjavík og Hafnarfirði. Þetta getur valdið því, að meistararnir kippi að sér hendinni með að taka nemendur, og hafi l. þau áhrif, sé ég eigi betur, en verr sé af stað farið, en heima setið. Ég vil, að d. gefi þessu gaum. Þetta er sannarlega ekki lítið atriði, að meistarar lýsa yfir því, að þeir séu andvígir nokkuð mörgum gr. í frv.