13.05.1949
Efri deild: 107. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1820 í B-deild Alþingistíðinda. (2843)

141. mál, iðnfræðsla

Frsm. minni hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég hef áður gert grein fyrir till. mínum og skal ekki endurtaka það. Ég vil benda á hið sama og hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. Barð., að með frv. er óánægja, sem m.a. speglast í undirskriftum 163 meistara og nokkrum atriðum, sem koma fram á fjórum vélrituðum síðum, sem Ólafur Hvanndal og fleiri undirrita. Nefnd manna hefur einnig verið send á okkur til að stöðva málið. En ég hef eigi lagt til þess. Breytingatill. á þskj. 602 er gamall kunningi, sem eigi er hægt að deila um. Svo jafnsjálfsögð er hún. En ég er sjálfur sannfærður um, að hæstv. viðskmrh. dytti aldrei í hug að lagfæra þetta. Hitt er jafnsjálfsagt, að menn, er til hafa að bera næga kunnáttu., fái að taka próf. Laganemar geta t.d. tekið lögfræðipróf eftir 3 ár, en venjulegt er, að þeir taki það eftir 5–6 ár. Hvaða gagn hefur þjóðfélagið af að kúska menn niður í meðalmennskuna? Því má eigi maður, sem er meira en meðalmaður, koma fram og sýna þekkingu sína? Þó er mér eins farið og hv. 6. landsk., að ég ber aðeins kvíðboga fyrir, að unnt verði að prófa þá almennilega. En þar eð Einar Gíslason, Helgi H. Eiríksson o.fl. hafa sagt, að það sé vandalaust og muni þó taka lengri tíma og verða dýrara að prófa þessa menn, svo að fullkomlega megi takast að dæma um hæfni þeirra, þá er ég því samþykkur, en þó með því skilyrði, að menn geti eigi hlaupið til og heimtað próf út á loftið án allrar kunnáttu. Gegn þessu til varúðar eru tvö atriði í viðkomandi gr.: próf hafi verið tekin í iðnskóla og menn geti fært sönnur á kunnáttu sína með vottorði frá meistara um, að þeir hafi verið í iðninni. Ætlazt er til, að hann hafi unnið hjá honum, en ekki undirskrifað námssamning, en meistarinn telji hann hæfan til að ganga undir próf. Þarna er því gert ráð fyrir, að hann hafi lagt stund á iðnnám, svo að hann verði fær um að ganga undir próf. Ég tel fráleitt, að nemendur, sem eru á undan öðrum, þurfi að stunda eins lengi bóklegt nám og þeir. Ég trúi Helga Hermanni vel. Ég tel því till. sjálfsagða. Ég skil eigi í því ósamræmi hjá hæstv. viðskmrh., að hann þorir ekki að láta menn fá leyfi til að ganga undir próf, fyrr en þeir eru búnir að uppfylla námssamning sinn, en á hinn bóginn vill hann láta aðra vera óprófaða og hlaupa til að gæta véla. Vélamennirnir eiga ekki að hafa meiri rétt en hinir. En ætlazt er til, að duglegir menn kunni að koma fram, sem þurfa eigi eins langan námstíma og aðrir, og þá eiga þeir að fá að taka próf, þegar þeir telja sig til þess búna. Ég hef áður rætt um þetta atriði og hirði ekki um að endurtaka það nú.

Þá ætla ég að koma ofur lítið að brtt. við 22. gr. Ég gat ekki fallizt á að fella greinina með öllu niður, en flyt hins vegar brtt. við hana. Þessi brtt. hefur áður verið flutt af þm. Barð., og vona ég, að hann fari ekki að drepa sitt eigið fóstur, þó að því sé haldið undir skírn af mér. Hæstv. iðnmrh. var eitthvað að malda í móinn við till. mínum. En ég vil leyfa mér að spyrja, hvað nemandinn á að vinna, þegar alger vinnustöðvun er. Meistararnir mega enga vinnu taka, og þá er ekki um annað að ræða, en að halda verkfærunum í lagi, þ.e. að pússa og smyrja vélar, og mér finnst ekki rétt að skylda meistarana til að greiða nemandanum kaup undir þeim aðstæðum. Auk þess munu reglur um það, að meistarar mega ekki hafa fleiri nema en sveina; en með hverjum eiga nemendurnir að vinna, þegar allir sveinar eru í verkfalli? Hins vegar tel ég rétt og sjálfsagt að heimila aðilum að segja upp námssamningi, ef vinnudeila stendur svo lengi, að nemandi missi verulega í verklegu námi, og fjallar b-liður brtt. minnar á þskj. 617 um það atriði. Það er að vísu tæplega, að slíkt komi fyrir hér í Rvík, en hins vegar gæti það vel hent úti á landi, þar sem um lítil verkstæði er að ræða. Sömuleiðis tel ég rétt að heimila iðnfræðsluráði að lengja námstíma iðnnema, ef hann missir verulega úr námi vegna vinnustöðvunar, svo að fullt nám náist. Þessar breytingar tel ég eðlilegar og réttar, ef það er vilji d., að málið verði afgr. nú. Annars hefði ég talið heppilegra að fresta afgreiðslu málsins og reyna að samræma óskir allra aðila og þó alveg sérstaklega með hliðsjón af því, að nú er í undirbúningi frv. til l. um iðnskóla, sem óneitanlega á mikla samstöðu með þessu máli. Þá gæfist líka tími til að athuga nánar möguleikana á því að gefa mönnum, sem þess óska, tækifæri til að ganga undir hæfnispróf, án þess að þeir hafi verið fleiri ár hjá sérstökum meistara. Af þessum ástæðum hef ég litið svo á, að heppilegast væri að vísa þessu máli til ríkisstj. með þeim fyrirvara, að hún láti samræma og endurbæta frv. um iðnfræðslu og iðnskóla og leggi málið síðan fyrir næsta Alþingi. Ég flyt þó ekki till. um þetta, en vildi gjarna heyra álit d. og hvort vilji væri fyrir slíkri lausn. Hins vegar flyt ég brtt., sem allar hafa sézt áður, þó að aðrir hafi verið flm., og vænti ég, að hinir sömu bregðist nú ekki guðföðurskyldunni.