13.05.1949
Efri deild: 107. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1821 í B-deild Alþingistíðinda. (2844)

141. mál, iðnfræðsla

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst víkja nokkrum orðum að ræðu þm. N-M. og till. hans um nánari samræmingu á þessu frv. og frv. um iðnskóla. Eftir því sem ég veit bezt, þá hefur milliþn. í skólamálum, sem undirbýr frv. um iðnskóla, sniðið það eftir þessu frv. Hins vegar get ég ekki sagt um, hvernig það hefur tekizt, en þannig hefur mér verið skýrt frá. Af þeim ástæðum held ég, að málið muni ekki græða á frávísun nú, þar sem sömu menn mundu um það fjalla eins og hingað til, þ.e.a.s. milliþn.

Þá vil ég víkja nokkuð að brtt. Till. um það að leyfa hverjum sem er að ganga undir próf í þeirri iðngrein, sem hann óskar að verða fagmaður í, er að mínum dómi nokkuð hæpin. Það er í fyrsta lagi nokkuð vafasamt, að hægt sé að búa til verkefni, sem sýnt geti hæfni manna og kunnáttu, nema því fylgi mikill kostnaður og langur próftími. Í öðru lagi er ekki líklegt, að menn, sem slík próf stæðust, hefðu eins mikla leikni og æfingu í greininni og hinir, sem 4 ára námstíma hafa að baki sér. Auk þess er svo það, sem ég raunverulega tel aðalatriðið, að með slíku fyrirkomulagi er kippt grunninum undan því iðnfræðslukerfi, sem við höfum búið við og reynzt hefur að mörgu leyti vel. Það má telja alveg víst, að mjög fáir eða engir iðnnemar fari að vista sig hjá meistara í 4 ár fyrir mjög lágt kaup, ef þeir eiga kost á að ganga undir próf hvenær sem þeir óska og fá með því sömu réttindi og 4 ára námstíminn veitir. Slíkt fyrirkomulag mundi ekki verða gróði fyrir iðnaðarmannastéttina, því að í flestum tilfellum verða þeir, sem starfa við iðnina í 4 ár undir leiðbeiningu og kennslu góðra meistara, færari og betri iðnaðarmenn en hinir, sem stæðust próf í iðninni með litla æfingu að baki. Reynslan mundi því kenna mönnum, að þetta fyrirkomulag væri ekki nothæft, og afleiðingin verða sú, að ríkið yrði að setja upp verknámsskóla í hinum ýmsu, iðngreinum. Sú leið hefur að vísu komið til athugunar fyrr og gæti að sjálfsögðu verið góð, en það væri bara allt of kostnaðarsamt fyrir ríkissjóð. Þess vegna tel ég, að það iðnfræðslukerfi, sem við notum nú, sé það heppilegasta, sem við eigum völ á, eins og nú standa sakir, enda eru l. um það gerð eftir till. fulltrúa þeirra aðila, sem hlut eiga að máli og fjallað hafa um það á iðnþingi. Það hefur verið leitazt við að samræma sjónarmið beggja aðila, og enda þótt meistararnir teldu sig í fyrstu ekki geta staðið undir þeim kröfum, sem l. gerðu til þeirra, þá hefur það þó ekki reynzt þeim ofvaxið, hvernig sem það verður í framtíðinni. En varðandi þessa till. á þskj. 602, þá er það, sem sker úr, að æfingin er ekki fyrir hendi, jafnvel þó að menn geti staðizt próf, og ég er viss um, að Helgi H. Eiríksson skólastjóri iðnskólans mælir ekki með því fyrirkomulagi, enda þótt þm. N-M. hefði eftir honum, að þessi próf væru möguleg.

Um brtt., sem fer fram á, að námstími sé talinn hefjast, þegar samningurinn er gerður, þ.e.a.s., að ekki sé nauðsynlegt, að iðnfræðsluráð hafi staðfest hann, eins og frv. gerir ráð fyrir, vil ég segja það, að þetta ætti ekki að vera stórt atriði, ef tryggt væri, að samningurinn væri staðfestur af iðnfræðsluráðinu fljótlega eftir að hann er gerður, en aftur á móti gæti þessi breyting haft þær afleiðingar, að nemendur freistuðu að fá samninginn dagsettan áður en raunverulegur námstími er hafinn, og slíkt væri óheppilegt.

Í sambandi við brtt. þm. N–M. við 22. gr., þess efnis, að meistarar þurfi ekki að greiða nemendum kaup, á meðan á verkfalli stendur, held ég, að það skipti ekki miklu máli, því að slík vinnustöðvun ætti ekki að geta varað lengi, en aftur á móti mjög erfitt fyrir iðnnemana að missa það litla kaup, sem þeim er ætlað, þótt ekki sé nema stuttan tíma.

Út af till. 1. þm. Reykv. um að fella 22. gr. alveg niður, vegna þess að með samþykkt hennar sé verið að kúga rétt af einni stétt, þá vil ég segja það, að þetta er alger misskilningur. Það er ekki verið að kúga rétt af neinum. Það er orðin föst venja, að menn fara ekki inn á verksvið hver annars, ef um verkfall er að ræða, og það er eðlilegt, að eins fyrirkomulag sé í sambandi við iðnnemana, þ.e.a.s., að þeir fái ekki að fara inn á verksvið sveinanna, þegar þeir eru í verkfalli. Það væri því verið að gera iðnnemana að verkfallsbrjótum, ef þeir mættu vinna sveinaverk, þegar vinnustöðvun væri hjá stéttinni. Hv. 1. þm. N-M. vill með sinni brtt. opna þann möguleika, að samningum verði sagt upp í verkfalli. Í 25. gr. frv. eru ákvæði um, að heimilt sé að slíta samningum, ef báðir aðilar koma sér saman um það. Og það vildi ég í raun og veru gera að skilyrði fyrir því, að hægt yrði að segja upp samningum undir þessum kringumstæðum, en að ekki geti annar aðilinn notað sér verkfall að aðstöðu til þess að segja upp samningum, kannske gagnstætt vilja sínum, vegna þess að verkfall hefur skollið á, sem kannske hvorugur þessara aðila, sem hér er um að ræða, á sök á. Og þá virðist mér eðlilegt, að um þetta yrði samkomulag, ef til samningsslita kæmi, þannig að samningsuppsögnin yrði með samkomulagi, samkv. 5. tölul. 25. gr. frv. Svo að ég tel, að þessu þyrfti nú ekki að breyta í þá átt, sem hv. þm. vildi nú vera láta.

Við hv. þm. Barð. þarf ég ekki að segja mikið. Ég tel hans sjónarmið, eftir því sem það kom fram, vera í meginatriðum nokkuð líkt því, sem hefur komið fram hjá öðrum hv. þm. og hjá honum sjálfum áður. Það þykir mér ekki óeðlilegt. Og mér þykir vænt um, að hann vill greiða götu málsins á þessu stigi. Hins vegar vil ég ekki fallast á, að ég hafi í öðru máli, sem líkt stendur á um og þetta mál, sem hér liggur fyrir, komið fram á mjög annan hátt en ég geri í þessu máli, eða eins og hv. 1. þm. N-M. orðaði það, að ég vildi veita mönnum með sex mánaða námi sama rétt og mönnum með sjö ára námi, því að þar er ekki um neitt sjö ára nám að ræða. (PZ: Ekki alveg, en það er hátt upp í það.) Ætli það sé ekki rétt að bæta því við? En það mál kemur til umr. hér í d. síðar. Og ég skal gjarna ræða um það mál við hv. þm., þegar þar að kemur. Hins vegar vil ég þakka hv. þm. Barð. fyrir það, að hann, þrátt fyrir sína skoðun á málinu, sem hér liggur fyrir, vill greiða fyrir því, að það nái fram að ganga. Og þó að hann beri síðar fram brtt. í þá átt, sem hann boðaði, þá hef ég ekkert um það að segja. Hann getur borið þá brtt. fram, hvenær sem hann vill, og hefði getað það, þó að ekkert frv. hefði komið fram um það mál. En ég er jafnsannfærður um, að sú brtt., sem hv. 1. þm. N-M. ber fram nú og hv. þm. Barð. tjáði sig e.t.v. mundu geta fylgt síðar, mundi ekki bæta löggjöfina, og heldur ekki standa lengi, heldur mundi sú breyt. verða numin úr lögum siðar, vegna þess að ég veit, að með því móti yrðu það ekki neinir menn, sem færu til náms á þann hátt í þessum efnum eins og nú er gert.

Ég held, að ég hafi þá minnzt á flest þau atriði, sem hér hefur borið á góma. Vegna þess, að nú er svo mjög áliðið þingsins og erfitt er að vera öruggur um framgang mála, ef þau þurfa að hrekjast á milli deilda, vildi ég leyfa mér að mælast til þess, að þeir, sem á annað borð vilja veita þessu máli brautargengi í þetta sinn — kannske sumir að meira eða minna á móti því, sem þeir hefðu helzt óskað eftir, eins og hér hefur komið fram, en ætla sér að gera það samt, — ég vildi mælast til þess, að þeir fallist á að samþ. þetta frv. eins og það liggur hér fyrir, til þess að við þurfum ekki að fara með það til hv. Nd. á ný. Ég stend í þeirri meiningu, að það felist í þessu frv. ýmislegt, sem horfir til stórra bóta. Og þó að einhverjir meistarar telji, að sínum hag sé svo illa borgið með samþykkt þessa frv., að þeir ekki treysti sér til að taka nemendur þess vegna. þá er ég ekki svo sérlega hræddur um það. Ef þannig skipast málum, þá má á það benda, að kaup og kjör iðnnema hafa alltaf verið samningsatriði á milli meistara og nemenda, þó að ég hins vegar viti, að iðnfulltrúar hafa nú yfirleitt beitt sér fyrir því að samræma þessi kaup og kjör í iðngreinum, eins og hægt er. En ef það skyldi sýna sig, að eitthvað það kæmi fram, að iðnmeistarar vildu ekki út í þetta fara undir þessum kringumstæðum, þá er ég viss um, að það eru svo færanleg ýmis atriði í kjaramálum þeirra, sem ekki eru lögbundin, að það er vel hægt á þann hátt að tryggja það, að framkvæmd laga þessara komi ekki til með að stöðvast á því atriði. Ég er reyndar ekki hræddur um, að ,til þess komi, því að það er yfirleitt ekki mikið í þessu frv. þannig, að með því sé hlutur meistaranna þrengdur frá því, sem hann nú er. Það eru nú liðin tæp 60 ár síðan fyrst voru sett iðnnámslög hér á landi. Og það merkilega er, að þau iðnnámslög, sem sett voru árið 1892 eða 1893, voru í þá daga merkilega frjálsleg að sumu leyti. En það hefur alltaf verið verið að breyta þeim, með ýmsum millibilum, og alltaf hefur þeim þannig verið þokað til samræmis við þá yfirstandandi tíma, sem þau skyldu gilda fyrir. Og ég tel, að með þessu frv., ef samþ. verður, sé einmitt verið að þoka iðnfræðslulöggjöfinni til samræmis við sína tíð með ýmsum ákvæðum, sem eru nýmæli í þessu frv., eins og t.d. ákvæðum viðvíkjandi stöðuvali og prófun í þá átt og ýmislegu fleiru. Og ég vænti því, að þetta frv. verði að l., sem verða að góðu gagni og verði í þá átt einmitt það, sem hv. flm. frv. um sama efni árið 1944 óskaði, að yrði að l. þá, þó að frv. þetta sé ekki komið fram fyrr en nú, þannig að þetta frv. verði heldur til þess að greiða fyrir þessum málum, en að tefja fyrir þeim.