17.12.1948
Neðri deild: 43. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég hef flutt brtt. við frv. þetta, sem sjá má á þskj. 239, og hef hugsað mér að segja hér nú nokkur orð um mál þetta í heild, þó að atkvgr. muni bíða um brtt. mínar þar til við 3. umr.

Um þetta leyti í fyrravetur var hér á ferðinni annað hliðstætt frv. til l. um dýrtíðarráðstafanir. Eins og menn mun nú kannske reka minni til, greiddi ég atkv. gegn því frv., og ástæðan var sú, að ég hélt því fram, að ef þau l. næðu samþ., mundi það kosta ríkissjóð á árinu 1948 um eða undir 70 millj. kr. Ég taldi, að ríkinu yrði það ofvaxið að leggja þá upphæð fram, og mundi slíkt leiða af sér minnkandi verklegar framkvæmdir, sem þm. leggja annars mikla áherzlu á, að veitt sé fé til, en að öðrum kosti yrði um skuldasöfnun að ræða hjá ríkinu. Í fyrra var áætlað, að þessi l. mundu kosta ríkissjóð um 55 millj. kr., og því fór alls fjarri, að athuganir mínar væru taldar réttar. En nú hefur reynslan sýnt og sannað annað. Hæstv. fjmrh. hefur yfirlýst og hæstv. forsrh. staðfest í ræðu, að kostnaður vegna þessara l. á þessu yfirstandandi ári muni nema um 70 millj. kr., eða nákvæmlega eins og ég tók fram í fyrra. Útgjöld ríkissjóðs fóru því 15 millj. kr. fram úr áætlun. Jafnframt er reyndin sú, að verklegar framkvæmdir hafa verið skornar niður um 35%, og má jafnframt reikna með, að þær 15 milljónir, sem fóru fram úr áætlun, komi fram sem skuld ríkissjóðs á ríkisreikningnum í árslok. Er hæstv. fjmrh. flutti fjárlagaræðu sina, þá benti hann á, að halli á fjárlögum ársins 1947 hefði numið 71 millj. kr. Sú upphæð kom fram sem skuldaaukning hjá ríkissjóði, og ég hygg, að ekki fari betur en svo með afkomu þessa yfirstandandi árs, að þar verði yfir 70 millj. kr. skuldaaukning. Mér lízt ekki á, ef svona skal áfram halda. Mér sýnist, að ekki sé seinna vænna að breyta til. Samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir að verja á næsta ári 70 millj. kr. til dýrtíðarráðstafana, án þess að fé sé fyrir hendi til þess. Í fyrsta lagi virðist það vera mjög varhugavert að samþ. svo stór fjárframlög, áður en fjárlög eru afgreidd, og er því hæstv. ríkisstj. sá kostur vænstur að afgreiða nýja tolla og skatta á þjóðina til að ná þessum tekjum. Sömuleiðis er með fiskábyrgðina, sem verður víst að halda áfram sem undanfarin ár. Hér er því um tvennt að ræða í þessu frv., annars vegar viðbótargjöld á fólkið í landinu, og hins vegar — eins og segir í I. kafla frv. — fiskábyrgðina. En ef nú á að fara að afgreiða l., sem kosta munu ríkissjóð 70 milljónir á næsta ári, þá hlýtur það að kosta það, að verklegar framkvæmdir verða skornar niður, eða að öðrum kosti skuldasöfnun hjá ríkinu. Mín brtt., sem prentuð er á þskj. 239, fer fram á það, að felld verði niður 28. gr. frv., að teknar séu 22 millj. kr. tolltekjur í dýrtíðarsjóð. Einnig mótmæli ég því, að mál sem þetta sé afgr. áður en afgreiðsla fjárlaga fer fram. Það liggur ekkert á, fyrr en fjárlög hafa verið afgreidd.

Sú barátta, sem fram hefur farið á undanförnum árum við dýrtíðina, er undarleg barátta, og hefur oft ekki verið nein barátta við dýrtíðina í framkvæmdinni, en hefur leitt af sér hækkað verðlag á svo að segja öllum hlutum. Þessi draugur var vakinn fyrir 9 árum með vísitöluvitleysunni, og allar ráðstafanir, sem reyndar hafa verið til að halda vísitölunni niðri, hafa verið svipað verk og að slá í hausinn á Fróðárselnum, sem varð því magnaðri sem hann fékk fleiri högg. Það var að vísu nokkur bót í fyrra að binda vísitöluna við 300 stig, en kemur þó ekkert að gagni til þess að ráða bót á ástandinu innanlands, fyrr en hún er með öllu afnumin. En slíkt verður að gera, ef stöðva á þessa vitleysislegu skrúfu og lækna bölið, sem hún veldur atvinnuvegum og afkomu landsmanna. Um leið og vísitalan verður afnumin, á vöruverðið að lækka, og það jafnskjótt. Síðan skal aflétta hinum þungu vöru- og verðtollum og skapa heilbrigt verðlag jafnt á innfluttum vörum sem innlendri framleiðslu.

Ég skal ekki hafa mörg orð um meðferð þessa máls hér í þessari hv. þd., en verð að víkja lítillega að l. kaflanum í frv. þessu.

Það voru samþ. l. hér á Alþ. þann 15. þ.m., að láta útvegsmönnum þeim, sem hafa haft taprekstur á undanförnum síldarvertíðum, 6 millj. kr., en daginn eftir, hinn 16. des., kemur hér fram frv. til l. um að gefa eftir lánin til þessara manna og meira og minna af skuldum þeirra. Ég skal nú ekki mikið um þetta segja, en þessi vinnubrögð í setningu löggjafar hér á Alþingi eru ólík því, sem áður hefur fram undið á Alþingi, a.m.k. síðan ég tók sæti þar. Ég sé nú ekki, að svona mikið hefði legið á. Það er veitt lán í 5 mánuði, en nú hefur verið ákveðið að gefa þau eftir. Ég sé því ekki annað en að full rök séu fyrir því, að þessi kafli sé vanhugsaður. Ég vil þess vegna skjóta því til hæstv. ríkisstj. og hv. fjhn., hvort hún sjái sér ekki fært að taka þennan kafla burt úr frv. og láta þetta bíða síns tíma, hvað nauðsynlegt verður. Ég held, að það yrði sízt til tjóns. Að öðru leyti skal ég ekki tefja umr. um málið, en hér eru í frv. annars vegar gjaldahækkanir og hins vegar hækkanir á tollum og sköttum. Það er reynt að koma þessu á eyðsluna í landinu, en það þarf stórar fjárfúlgur til þess að standa sífellt undir slíkum dýrtíðarráðstöfunum sem hér er um að ræða. Að lokum skal því yfir lýst, að ég geng inn á það, að atkvgr. um brtt. mína bíði þar til við 3. umr. málsins.