23.10.1948
Sameinað þing: 4. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1921 í B-deild Alþingistíðinda. (2878)

Marshallaðstoðin

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Að heimsstyrjöldinni lokinni voru ekki aðeins mörg byggðarlög, landshlutar og fjöldi borga víðs vegar í Evrópu í rústum, heldur var einnig allt efnahagskerfi þjóðanna í upplausn, bæði innanlands hjá ýmsum þeirra og ekki síður varðandi öll samskipti þeirra á milli, enda varð víxlun á gjaldmiðli þeirra með hverjum degi örðugri. Af öllu þessu magnaðist öngþveiti svo mjög, að við lá, að eðlileg verzlunarviðskipti þjóðanna stöðvuðust og að veruleg bið yrði á, að unnt væri að græða hin ógurlegu sár, er enn stóðu opin eftir styrjöldina.

Þá var það, að Mr. Marshall, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hélt sína nafntoguðu, í bókstaflegum skilningi uppbyggilegu, ræðu í Harvard 5. júní 1947, þar sem lýsti sér meiri víðsýni, stórhugur og sannur hjálparvilji en áður hefur þekkzt þjóða í milli. Í ræðunni hét Mr. Marshall Evrópuþjóðunum stuðningi Bandaríkjanna, ef þær mynduðu samtök sín í milli í því skyni og sýndu fram á, að væntanleg fjárhagsaðstoð Bandaríkjanna yrði til þess notuð fyrst og fremst að koma iðnaði Evrópuþjóðanna og matvælaframleiðslu í það horf, að þær gætu af eigin afrakstri séð sér farborða.

Ræða þessi varð til þess, að utanrrh. Breta, Frakka og Rússa hittust skömmu síðar í París og ræddu þar um, hvort slíkri samvinnu Evrópuþjóðanna skyldi komið á. Því miður náðist ekki samkomulag milli þessara fulltrúa þriggja höfuðþjóða álfunnar. Hefur utanrrh. Breta, Bevin, hvað eftir annað skýrt frá því, að utanrrh. Rússa hafi ekki aðeins verið ófáanlegur til að taka þátt í þessari samvinnu, heldur hafi hann beinlínis haft í hótunum um, að þjóðir hinna mundu hafa verra af, ef þær, þrátt fyrir synjun Rússa, efndu til samvinnu þessarar. Utanríkisráðherrar Breta og Frakka létu þó ekki aftra sér frá að gera það, sem þeir töldu rétt vera, og boðuðu til fundar Evrópuríkjanna allra, nema Spánar, í júlí 1947, til viðræðna um, hvort slíkri efnahagssamvinnu ætti að koma á.

Íslenzka ríkisstj. taldi, með samþykki utanrmn., frá upphafi sjálfsagt að taka þátt í þvílíkri samvinnu. En því miður urðu það ekki nema 16 ríki, sem boðið þáðu. Rússland og öll ríkin fyrir austan járntjald höfnuðu boðinu. Er þó á almannavitorði, að sum þeirra, svo sem Pólland, Finnland og Júgóslavía, höfðu mikla löngun til að þiggja boðið, þó að ekki yrði af. Eitt þeirra, Tékkóslóvakía, meira að segja þáði boðið í fyrstu, en treysti sér ekki til að standa við þá afstöðu, þegar til átti að taka. Blandaðist aldrei neinum hugur um, hvernig á því fráhvarfi stóð, og ef svo hefði verið, að einhver hefði efast um orsökina, þá hlaut sá efi að hverfa við atburðina þar í landi á s. l. vetri. Sú sorgarsaga skal eigi rakin að sinni, en hitt verður seint nægilega harmað, að hin austrænu ríki skyldu snúast svo við sem þau gerðu.

Ríkin 16, sem þátt tóku í ráðstefnunni í París, eru aftur á móti einmitt þau ríki í álfunni, sem frjáls eru gerða sinna, og gátu farið eftir því einu, er hagsmunir þeirra sögðu til um. Hér á landi varð þegar í stað ljóst, að allir landsmenn, að undanteknum þeim hv. sósíalistum, Sameiningarflokksmönnum alþýðu, sem slegnir eru austrænu blindunni, voru sammála um, að sjálfsagt væri að taka frá upphafi þátt í þessu endurreisnarstarfi Evrópu.

Við Íslendingar, sem gott viljum eiga við allar þjóðir, hljótum að vísu — ekki síður en aðrir — að harma, að samtök þessi urðu eigi svo víðtæk sem ætlað var í fyrstu og til var stofnað af utanríkisráðherrum Bandaríkjanna, Breta og Frakka. En alveg án tillits til þess, að samúð okkar hlýtur að verða með lýðræðis- og menningarþjóðunum í vestri, ef í odda skerst, þá hlaut öllum óblinduðum mönnum að vera ljóst, að hagsmunir landsins krefjast náinnar samvinnu við lönd þau, sem ákváðu að taka þátt í Parísarráðstefnunni.

Allir heilskyggnir menn sjá, hver landfræðileg lega Íslands er. Að vísu eru fornar sagnir um það, að fjórir uxar, sem raunar voru að hálfu jötnaættar úr Austurvegi, hafi dregið Sjáland úr miðri Svíþjóð út í Eyrarsund. En þó að ég efist ekki um, að hér á landi séu nú ýmsir, sem vildu ganga fyrir plógi bóndans í Kreml, þá tel ég þó engar líkur til, að þeir verði uxunum hálfaustrænu þeim mun kröftugri, að þeir megni að draga Ísland úr miðju Atlantshafi alla leið inn á sléttur Svíþjóðar hinnar köldu eða Rússlands, svo sem nú er nefnt.

Á sama veg og lega landsins segir til um, að við séum vestrænt ríki og hljótum að verða háðir örlögum þess heimshluta, skipar verzlun landsins okkur í hóp þeirra ríkja, sem gerzt hafa aðilar að viðreisnaráætluninni. Athugun á verzlunarviðskiptum okkar og þessara þjóða, og tel ég þá Þýzkaland auðvitað með, leiðir þetta óumdeilanlega í ljós.

Frá og með árinu 1945 og þangað til nú, svo langt sem skýrslur ná, hefur 83,25% af útflutningi Íslands verið til þátttökuríkja viðreisnaráætlunarinnar austan hafs og vestan, en 85,27% af innflutningnum hingað til lands komið frá þeim. En fyrir heimsstyrjöldina síðari var þetta þannig, að 1936–38 var 91,7% af útflutningnum til þessara landa og 94,63% af innflutningnum frá þeim.

Hvernig sem á þetta verður lítið, verður þess vegna ekki um það deilt, að hagsmunir okkar eru svo tengdir þessum heimshluta, að alger ófarnaður mundi blasa við, ef tengslin við hann yrðu slitin.

Um fyrstu Parísarráðstefnuna get ég að öðru leyti mjög stytt hér mál mitt, því að ég skýrði frá niðurstöðum hennar hér í hv. sameinuðu þingi 19. okt. 1947. En á ráðstefnu þessari samþykktu þátttökuríkin að halda áfram samvinnu til að ná tilteknum höfuðmarkmiðum, sem öll miðuðu að stórkostlegri nýsköpun í heimalöndum þeirra. Eftir að þetta samkomulag hafði náðst, varð áframhaldið tvíþætt. Annars vegar unnu þátttökuríkin í Evrópu að því að koma upp föstum samtökum sín á milli í framangreindum tilgangi. Hins vegar vann stjórn Bandaríkjanna að því að útvega sér nauðsynlegar heimildir eftir lögum lands síns til að geta staðið við og fullnægt fyrirheiti Mr. Marshalls í Harvard-ræðunni 5. júní 1947.

Að samningi um efnahagssamvinnu Evrópu var unnið á langvarandi ráðstefnu í París. Voru þar að verki fulltrúar þátttökuríkjanna 16 og hernámshluta Vesturveldanna í Þýzkalandi. Hinn 16. apríl 1948 komu þessir aðilar sér saman um samning um efnahagssamvinnu Evrópu, og var hann fullgiltur af forseta Íslands 3. júlí 1948 og hefur verið birtur sem auglýsing nr. 61 5. júlí 1948, um aðild Íslands að samningi um efnahagssamvinnu Evrópu. Hv. þingmenn hafa hann fyrir framan sig í Stjórnartíðindahefti, sem útbýtt hefur verið.

Sjálfur aðalsamningurinn er 28 greinar, en auk þess upphafsákvæði og loks fylgiskjal með sérstöku viðbótarákvæði. Þar að auki er svo viðbótarsamkomulag nr. 1 varðandi rétthæfi, sérréttindi og forréttindi stofnunarinnar í 20 greinum og viðbótarsamkomulag nr. 2 varðandi ákvæði um fjármál stofnunarinnar, og er það í 9 greinum.

Um sjálfan samninginn er það að segja, að í innganginum og 1.–9. gr. eru aðallega viljayfirlýsingar samningsaðila um samvinnu þeirra á milli að efnahagsmálum og almennar skuldbindingar. Flestar, eru þær þó lítt ákveðnar að orðalagi og láta samningsaðilum því eftir mikið svigrúm um framkomu sína, þó að nokkur höfuðatriði séu tekin fram. Eru þau flest eða öll svo sjálfsögð, að flest ríki, eða a. m. k. Ísland, mundi hafa leitazt við að fullnægja þeim, þó að um það væri enginn samningur gerður.

Í innganginum er sett fram sú meginregla, sem óumdeilanleg er, að samningsaðilar viðurkenna, að efnahagskerfi landanna séu hvert öðru háð og að velmegun hvers um sig sé undir velmegun allra komin. Með þessa staðreynd fyrir augum koma ríkin sér svo saman um þá samvinnu, sem nánar er tilgreind í samningnum.

Í 1. gr. segir, að samningsaðilarnir séu samþykkir því að hafa með sér nána samvinnu í efnahagsmálum og semja sameiginlega viðreisnaráætlun og framkvæma hana. Markmið áætlunar þessarar muni verða það að ná sem fyrst og viðhalda fullnægjandi efnahagsafköstum án óvenjulegrar utanaðkomandi aðstoðar, og mun því í áætluninni sérstaklega tekið tillit til þess, að samningsaðilar þurfi að auka sem mest útflutning til þeirra ríkja, sem ekki taka þátt í henni. Til að greiða fyrir þessu skuldbinda löndin sig svo til að koma á fót efnahagssamvinnustofnun Evrópu.

Í 2. gr. segir, að samningsaðilar muni efla sem mest má verða framleiðslu sína. Eru þar hafðar fyrir augum svipaðar framkvæmdir sem hér á landi hafa hlotið nafnið nýsköpun.

Í 3. gr. binda samningsaðilar sig til að gera almennar áætlanir um framleiðslu og skipti á vörum og þjónustu og síðan að leitast við að tryggja framkvæmd slíkra almennra áætlana.

Í 4. gr. segir, að samningsaðilar muni efla, svo sem frekast er unnt, með samvinnu sín á milli skipti á vörum og þjónustu, í þessu skyni muni ríkin sem fyrst koma á marghliða greiðslufyrirkomulagi sín á milli og hafa samvinnu um að draga úr viðskipta- og greiðsluhömlum sín á milli.

Í 5. gr. er aðalákvæðið það, að löndin muni halda áfram athugunum sínum á tollabandalögum eða svipuðum ráðstöfunum, svo sem myndun tollfrelsissvæða, er gætu orðið einn liður í því, að náð verði markmiðum þeim, sem sett eru með samningi þessum.

Rétt er að geta þess, að Ísland hefur tekið þátt í athugun á almennu tollabandalagi milli þátttökuríkjanna. Fram að þessu mun sú athugun einkum hafa verið fólgin í því, að safnað hefur verið víðtækum upplýsingum. Þá hefur Ísland einnig tekið þátt í athugun á tollabandalagi milli Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Íslands. Þær rannsóknir standa enn yfir og miðast auðvitað fyrst og fremst við samvinnu hinna þriggja fyrrtöldu landa. Ísland hefur mjög ólíka aðstöðu þessum löndum og hefur fullkominn fyrirvari um þá sérstöðu verið gerður strax í upphafi rannsóknanna.

Í 6. gr. heita samningsaðilar því, að þeir muni hafa samvinnu um að lækka tolla og draga úr öðrum höftum á auknum viðskiptum í þeim tilgangi, að komið verði á marghliða viðskiptakerfi, er sé heilbrigt og í jafnvægi og í samræmi við meginreglur Havanasáttmálans. Samkv. 7. gr. mun hver samningsaðili gera þær ráðstafanir, sem í hans valdi eru, til þess að ná eða viðhalda öryggi í gjaldeyrismálum sínum og innanlandsfjármálum, réttu gengi og trausti á peningamálum sínum yfirleitt. Með þessum skuldbindingum er ekki annað undirgengizt en það, sem hver góð stjórn hlýtur að leitast við að gera af sjálfsdáðum, enda er það algerlega á mati hennar sjálfrar, hvað unnt sé að gera á hverjum tíma í þessum efnum.

8. gr. fjallar um hagnýtingu vinnuaflsins á hinn hentugasta hátt og leitast skuli við að útvega öllum vinnu. Þá er ráðgert, að samningar muni verða teknir upp á milli landanna um flutning verkamanna þeirra á milli, ef vinnuaflsskortur er í einhverju þeirra. Eiga aðilar og að hafa almenna samvinnu um að draga úr tálmunum á ferðalagi manna.

Skv. 9. gr. munu samningsaðilar veita stofnuninni allar þær upplýsingar, sem hún kann að óska eftir, til þess að auðvelda framkvæmd starfa sinna.

10.–23. gr. fjalla um fyrirkomulag efnahagssamvinnustofnunarinnar. Aðilar stofnunarinnar eru hinir sömu og aðilar samningsins.

Í 11.–13. gr. segir nánar frá um markmið, störf og valdsvið stofnunarinnar. Tilgangur hennar er fyrst og fremst sá að greiða fyrir efnahagssamvinnu þeirri, sem hér er stofnað til, og hafa samstarf af hálfu Evrópuríkjanna við stjórn Bandaríkjanna varðandi höfuðatriði þeirrar hjálpar Bandaríkjaþjóðarinnar, sem efnahagssamvinnunni er komið á til að fá.

Um ákvarðanir stofnunarinnar segir í 14. gr., að þær skuli teknar með samkomulagi allra aðila, nema stofnunin ákveði annað í sérstökum málum. Samkv. þessu verður enginn aðili að stofnuninni, og þá heldur ekki Ísland, bundið af nokkurri ákvörðun hennar, nema sérstakt samþykki hans liggi fyrir. Stjórn stofnunarinnar er í höndum ráðs, þar sem öll þátttökuríkin eiga sæti, en auk þess er svo framkvæmdanefnd, framkvæmdastjóri og skrifstofa. Hefur öll sú starfsemi aðsetur í París samkv. ákvörðun, sem gerð var á fyrsta fundi stofnunarinnar.

Í 24.–28. gr. eru lokaákvæði, m. a. um gildistöku, en samningurinn hefur nú þegar tekið gildi, um áhrif vanefnda og uppsögn samningsins, en aðili getur horfið úr þessu samstarfi með 12 mánaða uppsagnarfresti.

Ákvæðin í fyrra viðbótarsamkomulagi varðandi rétthæfi, sérréttindi og forréttindi stofnunarinnar eru svipuð því, sem gerist um slíkar alþjóðastofnanir, og virðist ekki ástæða til að ræða það frekar.

Varðandi seinna viðbótarsamkomulagið, um fjármál stofnunarinnar, skal tekið fram, að framlög aðila verða ákveðin með samkomulagi eftir svipuðum reglum og gilda um hliðstæðar stofnanir. Enn hefur Ísland ekki verið krafið um nema rúmlega 21 þús. kr., en óákveðið til hve langs tíma það er.

Samtímis því sem fulltrúar Evrópuríkjanna unnu að því að ná þessu samkomulagi um efnahagsstofnunina, var í Bandaríkjunum unnið að því að útvega heimildirnar fyrir þeirri hjálp, sem Marshall utanríkisráðherra hafði lofað í Harvardræðu sinni. Sú heimild var veitt í lögum, sem Bandaríkjaþing samþykkti og staðfest voru 3. apríl 1948. Er það allmikill lagabálkur, og er ástæðulaust að rekja hann hér, enda fjalla þau lög að vonum að verulegu leyti um það, hvernig Bandaríkjamenn hugsa sér að láta afla hjálparinnar, vinna að framkvæmd hennar og annað slíkt.

Samkv. 115 gr. laganna er hins vegar gert ráð fyrir, að til þess að ríki geti orðið hjálparinnar aðnjótandi, þurfi það hvort tveggja: að taka þátt í samstarfi Evrópuþjóðanna sín á milli, svo sem samkomulag varð um í París 16. apríl, og að hvert ríki um sig geri samning við Bandaríkin um hjálpina til þess.

Kveðið er á um nokkur skilyrði, sem ætlazt er til, að tekin séu fram í þeim sérsamningum, sem Bandaríkin þannig eiga að gera við hvert ríki. Þessi fyrirmæli eru auðvitað almenn og eiga ekki öll við alla samningsaðila. Engu að síður varð raunin sú, þegar þessir samningar voru gerðir, að skilyrðin voru að mestu tekin upp í samningana við hvert ríki um sig. Bandaríkjastjórn gat ekki horfið frá þeim skilyrðum, er lögin höfðu sett. Eru því nokkur atriði í flestum samninganna, sem ekki eiga til hlítar við það land, sem er aðili þess samnings. Leiddi þetta og til þess, að um sumt varð að gera beinan fyrirvara við samningsundirskrift.

Að vonum var gert ráð fyrir því, að nokkurn tíma tæki að koma á öllum þessum samningum, og var frestur settur um það til júlíbyrjunar s. l. Hins vegar var heimilt að veita þátttökuríkjunum nokkra hjálp strax frá aprílbyrjun. Til þess að geta orðið hennar aðnjótandi þurfti að gefa sérstaka yfirlýsingu. um, að ætlunin væri að gera samning við Bandaríkin á grundvelli þeirra skilyrða, sem talin eru í 115. grein.

Af Íslands hálfu var slík yfirlýsing gefin með bréfi 28. apríl 1948, sem Thor Thors sendiherra Íslands í Washington undirritaði af hálfu íslenzku stj. í sambandi við þessa yfirlýsingu var, vegna sérstaks ákvæðis í 115. gr. laganna varðandi atvinnuréttindi, sem varhugavert þótti geta orðið, gerður svo hljóðandi fyrirvari, í íslenzkri þýðingu: „Stjórn mín óskar að leggja áherzlu á, að hún getur ekki breytt fiskveiðilöggjöf Íslands né atvinnuréttindalöggjöfinni, þar sem hvort tveggja veitir íslenzkum hagsmunum lífsnauðsynlega vernd.“ Var þess vegna þegar frá upphafi gerður um það skýlaus fyrirvari af Íslands hálfu, að þegar til samninga kæmi samkv. 115. gr., væri ekki hægt að veita svo ótakmörkuð atvinnuréttindi sem þar eru ráðgerð. Og sætti Bandaríkjastjórn sig að fullu við þennan fyrirvara íslenzku stj.

Um sjálfa samningsgerðina fór svo, að Bandaríkjastjórn afhenti þátttökuríkjunum frumdrög að samningum fyrir hvert og eitt þeirra. Varð þá raunin sú, að frumdrög þessi voru í öllum verulegum atriðum eins fyrir öll ríkin. Auk þess sem hver stjórn fyrir sig athugaði frumdrögin út frá sínu sjónarmiði, varð því að samkomulagi, að fulltrúar þeirra skyldu, bæði í París og Washington, hafa nána samvinnu um athugun á þessum samningsfrumdrögum. Komu löndin sér saman um nokkrar æskilegar breytingar, og varð niðurstaðan sú, að Bretlandi, Frakklandi, Danmörku og Svíþjóð skyldi falið að hafa forustu um samningsgerðina af hálfu allra ríkjanna. Þær breytingar, sem óskað var eftir af löndunum í sameiningu, náðust fram að mestu leyti vegna forgöngu fulltrúa þessara fjögurra landa og þá sjálfsagt ekki sízt fulltrúa brezku stjórnarinnar, að ógleymdri samningslipurð Bandaríkjastjórnar. En þessi aðferð varð hins vegar til þess, að hvert hinna landanna um sig fékk skemmri tíma en ella til ákvörðunar um, hvort það vildi ganga að samningunum í endanlegu formi eða ekki, en orðið hefði, ef hvert land um sig hefði að öllu haft með samningsgerð fyrir sjálfs sín hönd að gera. Þetta kom þó ekki að sök varðandi Ísland, því að það fékk engu að síður komið fram sínum sérstaka fyrirvara, þeim er mest á reið.

Hinn skammi frestur torveldaði hins vegar að kalla saman Alþingi til að taka afstöðu til samningsins. Þessa var þó ekki þörf af stjórnskipulegum ástæðum, þar sem það var algerlega innan valdssviðs stj. með atbeina forseta að gera slíkan samning. Og eftir að ríkisstj. hafði kynnt sér vilja þeirra stuðningsmanna sinna, sem til náðist, og heyrt álit utanrmn., hikaði hún ekki við að fallast á samninginn. Var hann undirritaður hinn 3. júlí s. l. hér í Reykjavík af mér sem utanríkisráðherra, eftir að ég hafði fengið til þess umboð forseta Íslands, og sendiherra Bandaríkjanna í umboði stjórnar hans.

Síðan var samningurinn birtur með auglýsingu, dags. 5. júlí, nr. 62, um samning milli Íslands og Bandaríkja Ameríku um efnahagssamvinnu. Hv. þm. geta lesið hann í hinu sama Stjórnartíðindahefti og samninginn, sem ég rakti hér áður.

Samningur þessi er í tólf greinum, og auk þess fylgir honum fylgiskjal með athugasemdum til skýringa, og hafa þær athugasemdir sama gildi sem samningurinn sjálfur.

Í sambandi við samningsgerðina áttu sér einnig stað nótuskipti milli Íslands og Bandaríkja Ameríku varðandi beztu kjara ákvæði og eru þau einnig birt 5. júlí og eru nr. 63.

Í inngangi samningsins er stuttlega gerð grein fyrir ástæðum samningsgerðarinnar og tilganginum með samningnum, þeim, að greiða fyrir efnahagssamvinnu þátttökuríkjanna í Evrópu með aðstoð Bandaríkjaþjóðarinnar til að efla og viðhalda grundvallarreglum einstaklingsfrelsis í frjálsu stjórnskipulagi og sönnu sjálfstæði í ríkjum Evrópu.

Með 1. gr. samningsins, 1. tölulið, tekst ríkisstj. Bandaríkjanna á hendur að gefa ríkisstj. Íslands eða þeim, er hún tilnefnir, kost á þeirri aðstoð, sem samkomulag kann að verða um milli ríkisstj. beggja. Er síðan að sjálfsögðu tekið fram, að Bandaríkjastjórn veiti þessa hjálp aðeins samkv. 1ögum um efnahagssamvinnu, sem í gildi eru í Bandaríkjunum á hverjum tíma, og því aðeins, að fjárveitingar til hjálparinnar séu fyrir hendi,

Í 2. tölulið heitir ríkisstj. Íslands því að starfa að viðreisnaráætluninni fyrir Evrópu eftir því, sem ráðgert er í Parísarsamningnum frá 16. apríl s. l.

Í 3. tölulið er ráð fyrir gert, að sumt af þeirri aðstoð, sem Íslandi verði veitt, kunni að vera upprunnið utan Bandaríkjanna. Þær vörur, sem þannig eru tilkomnar, en eru engu að síður greiddar með aðstoðarfé frá Bandaríkjunum, lofar Ísland að kaupa með sanngjörnu verði, sanngjörnum skilyrðum og á þann veg, að ekki verði brotið á móti samningum Bandaríkjastjórnar og hlutaðeigandi ríkis um ráðstöfun þeirra dollara, sem þannig eru til komnir.

Almennar skuldbindingar eru taldar allýtarlega upp í 2. gr. samningsins.

Um þær skuldbindingar ber að minna á það, sem ég áður sagði, að þær eru byggðar á efnahagssamvinnulögunum bandarísku og að Bandaríkjastjórn treysti sér ekki gagnvart neinu einstöku ríki að hverfa berum orðum frá þeim skilyrðum, sem lögin settu, þó að hitt væri ljóst, að þau skilyrði ættu ekki öll við nema sum landanna og alls ekki á hinn sama veg um öll þeirra.

Rétt er og að vekja athygli á því, að um öll skilyrðin, sem talin eru í 1. tölulið 2. gr., er tekið fram, að ríkisstj. Íslands muni gera sitt ýtrasta til þess að ná því, sem þar er sagt. Skuldbindingin er sem sagt ekki skilyrðislaus, heldur einungis á þann veg, að stj. muni gera sitt ýtrasta um nánar tiltekna viðleitni, og auðvitað er það íslenzka stj. sjálf, sem metur, hvenær hún hafi gert sitt ýtrasta í þessum efnum. Um fyrir fram ákveðnar skuldbindingar til alveg tiltekinna athafna er ekki að ræða.

Með þessum fyrirvara skuldbindur íslenzka stj. sig í (a)-undirlið 1. tl. 2. gr. til að gera þær ráðstafanir, eða halda áfram slíkum ráðstöfunum, sem nauðsynlegar eru til þess að tryggja hagkvæma og hagsýna notkun allra auðlinda landsins. Þetta er eðlilegt ákvæði, því að efnahagshjálpin er fyrst og fremst veitt til að greiða fyrir og efla fullkomna hagnýtingu auðlinda landsins. Kemur þetta berlega fram í (i)-undirskilorðinu í (a)-lið, þar sem íslenzka stj. skuldbindur sig til að nota þær vörur, sem hún fær samkv. samningnum, bæði í samræmi við ákvæði samningsins sjálfs og þær ráðagerðir, sem átt hafa sér stað milli stjórnanna áður en tilteknar vörur voru útvegaðar. Um þetta fyrirmæli eru nánari skýringar 1. tl. fylgiskjalsins.

Þá er ætlazt til þess samkv. (ii)-undirskilorðinu í (a), að rannsókn eigi sér stað á auðlindum landsins, eftir því sem samkomulag verður um við efnahagssamvinnustofnun Evrópu, þ. e. a. s. Parísarstofnunina.

Loks segir í (iii)-undirlið, að íslenzka stj. muni að því leyti sem við verður komið gera ráðstafanir til að hafa upp á, finna eigendur að og nota á viðeigandi hátt til eflingar sameiginlegri áætlun um viðreisn Evrópu eignir og tekjur, sem tilheyra íslenzkum ríkisborgurum og eru innan Bandaríkja Ameríku. Með ákvæði þessu er þó engin skylda lögð á ríkisstj. Bandaríkja Ameríku til þess að aðstoða við framkvæmd slíkra ráðstafana né á ríkisstj. Íslands til að ráðstafa slíkum eignum.

Um þetta ákvæði er það að segja, að íslenzka ríkisstj. hafði þegar á árinu 1947 gert ráðstafanir til þess, að reynt yrði að hafa upp á eignum Íslendinga erlendis, þeim sem hér hafa ekki verið taldar fram. Að athuguðu máli taldi ríkisstj. þá helzt líklegt, að Landsbankanum yrði ágengt í þessum efnum, og var honum falið að taka þetta upp við viðeigandi aðila í þeim löndum, er helzt voru talin geta komið hér til greina.

Árangurinn af þessum umleitunum varð því miður enginn. Íslenzka stj. taldi hins vegar sjálfsagt að taka málið upp að nýju við stjórn Bandaríkjanna, þegar hún sá þessi ákvæði í frumdrögum samningsins, enda var um svipað leyti í opinberum skýrslum þar vestra sagt frá nokkrum inneignum Íslendinga þar, að vísu miklum mun lægri heldur en sagnir gengu um austur í Hornafirði, en þó svo miklum, að sjálfsagt var og er að gera það, sem unnt er, til að ná þeim.

Íslenzka stj. leitaðist því við að fá þessu samningsákvæði við Bandaríkin breytt á þann veg, að Bandaríkjastjórn skyldaði sig til að láta Íslendingum í té þær upplýsingar um þessi efni, er hún kynni að geta aflað. Tókst það ekki, heldur varð Ísland að sætta sig, með sama hætti og öll önnur þátttökulöndin, við, að Bandaríkin taka berum orðum fram, að í ákvæði þessu sé engin skylda lögð á ríkisstj. Bandaríkja Ameríku til að aðstoða við framkvæmd slíkra ráðstafana. Ef Bandaríkin fást eigi til að aðstoða við framkvæmdina á þessu, er hætt við, að samningsákvæðið — því miður — nái ekki tilætluðum árangri.

Íslenzka ríkisstj. hefur þó ekki látið sitja við synjunina á því, að samningsákvæðinu væri breytt í samræmi við óskir Íslendinga, heldur hefur hún síðar borið fram beina ósk til Bandaríkjastjórnar um, að hún veiti þessa umræddu aðstoð. Bandaríkjastjórn hefur þó svarað, að hún treysti sér ekki til þess, þar sem hún hafi ekki fullnægjandi gögn með höndum til að segja til um þessi efni. Þrátt fyrir þá yfirlýsingu Bandaríkjastjórnar hefur íslenzka stj. nú nýlega falið sendiráðinu í Washington að taka málið enn að nýju upp við Bandaríkjastjórn. Get ég ekki sagt, hvernig þeirri síðustu málaleitun muni lykta, en hitt er víst, að íslenzka stj. mun einskis láta ófreistað til að fá óskum sínum í þessum efnum framgengt.

Í þessu sambandi er einnig rétt að geta þess, að á s. l. sumri var sendiráðum víðs vegar í Norðurálfu falið að taka það upp við stjórnirnar þar, að þær veittu atbeina sinn til að hafa upp á inneignum Íslendinga í löndum þeirra, en enn hefur harla lítill árangur orðið af þessu, hvað sem síðar kann að verða.

Undirliður (b) í 1. tl. 2. gr. ræðir um framleiðsluaukningu, að reynt skuli að ná þeim framleiðslumarkmiðum, sem sett kunna að verða fyrir atbeina efnahagssamvinnustofnunar Evrópu. Kemur og fram, að ef Ísland ætlar að ráðast í einhverja ákveðna framkvæmd og fá til hennar fé samkv. samningi þessum, svo að hún verði að verulegu leyti gerð fyrir þá aðstoð, þá er íslenzku ríkisstj. að eðlilegum hætti skylt að láta Bandaríkjastjórn í té nákvæmar tillögur um slíkar framkvæmdir, sem ætlazt er til, að fram verði komið fyrir atbeina Bandaríkjamanna.

Samkv. undirlið (c) 1. tl. 2. gr. mun ríkisstj. Íslands gera sitt ýtrasta til að koma gjaldmiðli sínum í öruggt horf og koma á eða viðhalda réttu gengi, afnema halla á fjárlögum svo skjótt sem því verður við komið, koma á eða viðhalda öryggi í innanlands fjármálum og yfirleitt að endurreisa eða viðhalda trausti á peningamálum sínum.

Reynt hefur verið að gera þessi ákvæði sérstaklega tortryggileg, og er þó ljóst, að ekkert felst í þeim annað en það, sem hvert þjóðfélag verður að gera, ef ekki á að leiða til öngþveitis á skömmum tíma.

Um halla á fjárlögum er sú viðbótarskýring í 2. tölulið fylgiskjalsins, að samkomulag er um, að skuldbindingin um að afnema slíkan halla svo fljótt sem verða má mundi eigi koma í veg fyrir halla um stundarsakir, heldur að átt sé við fjármálastefnu, er mundi leiða til hallalausra fjárlaga, er fram líða stundir. Gerir þetta skuldbindinguna auðvitað enn óákveðnari, en áður var.

Um gengið er rétt að taka það fram, að þrátt fyrir þennan samning er ótvírætt, að það eru íslenzk stjórnarvöld, sem endanlega kveða á um, hvað skuli vera rétt gengi. Hitt er annað mál, að í samningnum um alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefur Ísland tekið á sig vissar skuldbindingar í þessu sambandi, og fer skuldbindingin samkv. þessum samningi hvergi fram úr því, sem þar var áður búið að binda sig til óumdeilt af öllum.

(d) undirliður 1. tl. 2. gr. fjallar um vaxandi viðskipti milli þátttökuríkjanna og við önnur ríki og að draga skuli úr hömlum fyrir slíkum viðskiptum.

Í 2. tölulið 2. gr. segir, að ríkisstj. Íslands muni taka til velviljaðrar athugunar tillögur, sem gerðar eru í samráði við alþjóðaflóttamannastofnunina og miða að sem fullkomnastri hagnýtingu mannafla. Þarna sem ella kemur glöggt fram, að úrslitavaldið um það, að hve miklu leyti skuli orðið við þessum tillögum, er hjá íslenzkum stjórnarvöldum, enda er um þennan tölulið að segja, að hann er einn þeirra, sem frekar á við önnur og stærri lönd en Ísland, þó að orðið hafi að taka hann einnig upp í samninginn við okkur af ástæðum, sem áður eru raktar.

3. töluliður 2. gr. segir, að ríkisstj. Íslands muni gera þær ráðstafanir, sem hún telur viðeigandi til að koma í veg fyrir nánar tiltekna óheimila verzlunarhætti, og er frekari upptalning á þeim í 3. tölulið fylgiskjalsins, og í 4. tl. þess er tiltekið nánar, hvenær til afskipta íslenzku ríkisstj. komi. Skuldbindingin til að koma í veg fyrir þvílíka verzlunarhætti er þó takmörkuð við, að slíkar aðferðir eða ráðstafanir verði til þess að hefta framgang hinnar sameiginlegu áætlunar um viðreisn Evrópu. Er það auðvitað eðlilegt, að jafnframt því sem gerðar eru virkar ráðstafanir til viðreisnar í Evrópu; þá sé ekki með annarri hendinni rifið niður það, sem byggt hefur verið upp með hinni.

3. gr. samningsins fjallar um ábyrgðir ríkisstjórnar Bandaríkjanna á gjaldeyrisyfirfærslu, ef Bandaríkjamenn ráðast í framkvæmdir hér á landi. Um rétt þeirra til slíkra framkvæmda er fjallað nánar í 5. gr. Þar sem sá réttur hefur mjög verið takmarkaður í sérákvæði varðandi Íslandi í 6. tölulið fylgiskjalsins, geri ég ráð fyrir, að þessi ábyrgðarheimild út af fyrir sig hafi litla þýðingu. Að svo miklu leyti sem framkvæmdir Bandaríkjamanna hér kæmu til greina, sem harla ólíklegt er samkv. framansögðu, virðist hins vegar ábyrgðarheimildin út af fyrir sig ekki óeðlileg.

Áður en ég vík að 4. gr., þykir mér gleggst til yfirlits að gera grein fyrir, með hverjum hætti aðstoð samkv. þessum ráðagerðum hefur verið fyrirhuguð.

Í fyrsta lagi er þátttökuríkjunum ætlaður forgangsréttur að ýmsum mikilvægum vörum í Bandaríkjunum. Í öðru lagi er ætlazt til, að greitt verði fyrir lántökum þeirra þar. Er beinlínis ráðgert, að nokkur hluti aðstoðarinnar verði veittur að láni, enda verði lánsféð þá endurgreitt með venjulegum hætti, eftir því sem nánar semst um hverju sinni. Í þriðja lagi er ráðgert, að greitt verði fyrir sölu á vörum þátttökuríkjanna á þann veg, að þau fái frekar dollara eða jafnvirði þeirra fyrir vörur sínar eða nokkurn hluta þeirra, en ella hefði orðið. Hafa víðtækar ráðstafanir átt sér stað um þetta og hvernig helzt verði dregið úr vörukaupum þátttökulandanna frá Bandaríkjunum, en innbyrðis viðskipti þeirra efld, og hafa í því sambandi verið settar reglur um óbeina aðstoð.

Loks er í fjórða lagi ætlazt til, að veittar verði beinar gjafir, eða eins og í 4. gr. segir, að veitt verði aðstoð af hálfu ríkisstjórnar Bandaríkjanna, án þess að endurgjald komi fyrir.

Mest af því fé, sem ákveðið hefur verið í Bandaríkjunum að veita samkvæmt þessum ráðagerðum, á að veita á þennan hátt, þó að hitt sé ekki endanlega ákveðið um öll löndin, á hvern veg hjálpin til hvers einstaks lands verði látin í té, og óskir einstakra landa í þessu efni séu nokkuð mismunandi. En þar sem mestum hluta fjárins í heild á að verja til gjafa, er eðlilegt, að gefandi setji nokkur skilyrði um það, hvernig þessu gjafafé skuli varið, og þau fyrirmæli eru í 4. gr. samningsins.

Framlög þessi eru af Bandaríkjastjórn innt af höndum í dollurum eða jafngildi þeirra. Að því litla leyti sem endurgreiðsla kann að koma til greina, fer hún þó aldrei fram í dollurum, heldur eingöngu svo, að íslenzka stj. þarf að inna mjög takmarkaðar greiðslur af hendi í íslenzkum krónum.

Samkvæmt meginákvæðinu í 2. tölulið 4. gr. þarf íslenzka stj. þó að greiða að fullu jafnvirði þeirra framlaga, sem hún á þennan veg fær frá Bandaríkjastjórn, í íslenzkum krónum inn á sérstakan reikning í Landsbankanum. Af þessum reikningi á að leggja til hliðar til ráðstöfunar ríkisstj. Bandaríkjanna samkv. 4. tölulið, vegna útgjalda hennar á Íslandi, fimm af hundraði, eða einn tuttugasta hluta.

Af þessu fé á fyrst og fremst að greiða þann sérstaka kostnað, sem Bandaríkjastj. verður fyrir við framkvæmd efnahagssamvinnulaganna frá 1948 hér á landi, og mundi þar einkum koma til greina kostnaður af sérstökum sendimönnum Bandaríkjanna hér á landi í því skyni, sbr. 3. tl. 4. gr. En af þessum 5% mundi og væntanlega, að svo miklu leyti sem þau endast, mega taka greiðslu á vörum til birgðasöfnunar skv. 5. gr. samningsins.

Þá er og ráðgert, að af hinum sérstaka reikningi eigi að greiða flutningskostnað hér innanlands á gjafasendingum og bögglum, sem Bandaríkjamenn kynnu að senda til einstaklinga eða stofnana hér á landi, sbr. 5. tl. 4. gr.

Það er því ekki ráðgert að endurgreiða Bandaríkjunum nema örlítinn hluta af þeirri fjárhæð, sem greidd verður inn á hinn sérstaka reikning. Rétt er að taka það fram, að inn á hinn sérstaka reikning verður ekki greitt nema sem svarar dollaraandvirði varanna og einungis sem nemur þeim útgjöldum Bandaríkjastj. Vel má vera, að vörurnar verði seldar eitthvað, stundum mun hærra hér innanlands, en þann mismun er ekki ætlazt til að binda á þennan veg, heldur verður hann til frjálsrar ráðstöfunar íslenzkum stjórnarvöldum.

En þau h. u. b. 95% á hinum sérstaka reikningi, sem ekki þarf að endurgreiða Bandaríkjunum, verða þó háð nokkurri bindingu, sbr. 6. tl. 4. gr. Þessu fé má ekki ráðstafa nema með samþ. ríkisstj. Bandaríkjanna. Í greininni kemur hins vegar glögglega fram, að peningunum á fyrst og fremst að verja til að efla framleiðslu og atvinnulíf Íslendinga og auka öryggi í fjármálum okkar. Kemur þar m. a. fram, að ef Íslendingar geta fyrir aðstoð, sem veitt verður samkv. þessum samningum, ráðizt í einhver stórfyrirtæki, þá er mögulegt að afla fjár til þeirra innanlands með því að verja til þess peningum af þessum sérstaka reikningi, og verða þá slík mannvirki engu að síður að öllu kvaðalaus eign Íslendinga.

Þá er einnig ráðgert, að þessu fé megi verja til niðurgreiðslna, sem um muni, á þjóðarskuldunum, einkum á skuldum Landsbanka Íslands eða annarra bankastofnana. Enn er og á það drepið, að ef að ráði verður að gera hér á landi leit að efnivörum, sem skortur er á í Bandaríkjunum eða líklegt er að skortur verði þar á, þá er heimilt að verja af þessu fé kostnaðinum við slíka leit.

Langlíklegast er, að öllu þessu fé verði ráðstafað nokkuð jafnóðum með samkomulagi beggja ríkisstjórnanna Íslandi til hags. En ef eitthvað verður óeytt af þessum peningum hinn 30. júní 1952, er fram tekið í 7. tölulið 4. gr., að þeim skuli ráðstafað á Íslandi í þeim tilgangi, sem þá verður samkomulag um milli ríkisstjórna Íslands og Bandaríkja Ameríku, enda er vakin athygli á, að til slíks samkomulags kunni þá að þurfa samþykki Bandaríkjaþings.

Í 5. gr. ræðir um öflun efnivara á Íslandi; sem líklegt er, að Bandaríki Ameríku þarfnist vegna skorts, sem er eða líklegt er, að verði á þeirra eigin auðlindum. Í 1. tl. lofar ríkisstj. Íslands að greiða fyrir, að Bandaríkin fái slíkar vörur hér á landi með sanngjörnum söluskilmálum, eftir því sem samkomulag kann að nást um á hverjum tíma, eftir að hæfilegt tillit hefur verið tekið til sanngjarnra þarfa Íslands til eigin notkunar og venjulegs útflutnings slíkra efnivara, sbr. og skýringuna í 5. tl. fylgiskjalsins.

Hér er um að ræða venjuleg verzlunarviðskipti, og væri ekki nema gott um þau að segja, ef líklegt væri, að til þeirra kæmi, því að þarna kynni þá að vera séð fyrir markaði á íslenzkum vörum. En til þessa eru ekki miklar líkur, vegna þess að því miður mun vandfundin sú efnivara, sem hér er framleidd og Bandaríkin þarfnast vegna skorts, sem er eða líklegt er, að verði á þeirra eigin auðlindum. Ákvæði 5. gr. eru miðuð við önnur lönd en Ísland og einkum lítt hagnýttar nýlendur, en fyrirmælin varð einnig að taka upp um Ísland vegna ákvæðanna í efnahagssamvinnulögum Bandaríkjanna, sem Bandaríkjastj. með eðlilegum hætti taldi sig bundna við í samningsgerðinni.

Svipað er að segja um ákvæðið í 2. tölulið 5. gr., en þar segir, að ríkisstj. Íslands muni, þegar ríkisstj. Bandaríkja Ameríku fer þess á leit, taka þátt í samningaumleitunum um viðeigandi ákvæði til þess að framkvæma fyrirmæli 115. gr. (b) (9) laga frá 1948, um efnahagssamvinnu, er varðar framleiðslu og afhendingu á efnivörum, sem Bandaríki Ameríku þarfnast.

Með þessu fyrirmæli áskilja Bandaríkjamenn sér, að samningar séu, teknir upp um heimild þeirra til nýtingar vissra efnivara í öðrum löndum á sama grundvelli og borgarar þar. Þessar efnivörur eru þó þær einar, sem skortur er á í Bandaríkjunum eða líklegt er, að skortur verði á þar.

Eins og menn heyra, er samningsákvæði þetta bundið tveim þýðingarmiklum skilyrðum. Hið fyrra er, að hér er alls ekki um að ræða skyldu hinna einstöku ríkja til að veita Bandaríkjamönnum slík réttindi sem þar um ræðir. Um það eitt er samið, að taka þátt í samningaumleitunum varðandi þetta atriði. Í þeim samningum getur Ísland sett Bandaríkjunum þau skilyrði, sem okkur hentar, og ef ekki gengur saman um þau skilyrði, verður ekkert úr samningum.

Annað höfuðskilyrðið er það, að hér er einungis um að ræða efnivörur, sem skortur er á eða líklegt er, að skortur verði á í Bandaríkjunum. Þegar meta skal ákvæðið, verður þess vegna að gera sér grein fyrir, hvort líklegt sé, að á Íslandi séu efnivörur, sem Bandaríkin skorti nú eða á allra næstu árum. Bandaríkin eru sem kunnugt er eitt ríkasta land í heimi, og Ísland á því miður fáar eða engar auðlindir, sem Bandaríkin séu ekki miklu auðugri af.

Að þessu athuguðu er ljóst, að ákvæðið er sýnu varhugaminna, en það virðist í upphafi. Íslenzku ríkisstj. þótti þó ekki fært að una því að minnsta hætta væri á, að Bandaríkjastj. gæti notað þetta ákvæði samningsins Íslandi til óhags. Þess vegna var fyrirvari um það gerður strax í bréfinu 28. apríl, svo sem ég áður hef getið um, þar sem tekið var fram, að íslenzka stj. gæti ekki breytt fiskveiðilöggjöf landsins né atvinnulöggjöfinni, þar sem hvort tveggja er íslenzkum hagsmunum lífsnauðsynleg vernd. Við sjálfa samningsgerðina fengum við síðan samþ. ákvæði, sem segir í 6. tölulið fylgiskjalsins, og hljóðar það svo:

„Samkomulag er um, að ákvæði 5. gr. 2. mgr. samningsins skuli eigi skýrð þannig, að af þeim leiði samningaumleitanir um breytingu á fiskveiðalöggjöf Íslands. Þá er og samkomulag um að ákvæði, sem 5. gr. kynni að gefa tilefni til og háð eru samkomulagi beggja ríkisstjórnanna, muni verða í samræmi við ákvæði íslenzkra laga.“

Með þessu segir berum orðum, að engar samningaumleitanir komi til greina varðandi fiskveiðalöggjöfina, en það eru þau atvinnuréttindi, sem okkur eru dýrmætust. Því til viðbótar er tekið fram, að ef samningaumleitanir verði teknar upp um rétt Bandaríkjanna til að afla hér annarra efnivara með þeim takmörkunum, sem í sjálfum samningnum segir, þá verði ákvæði slíkra samninga að vera í samræmi við ákvæði íslenzkra laga. En sennilega ætlast enginn, sem ekki er sleginn blindunni austrænu, til þess, að sett séu sérstök ákvæði um, að Bandaríkjamenn megi ekki njóta ákvæða íslenzkra laga, sem aðrir útlendingar geta notið góðs af.

Eins og ég hef tekið fram áður, er harla ólíklegt og nærri óhugsandi, að til samningaumleitana samkv. þessari grein geti nokkru sinni komið, þar sem við eigum engar auðlindir, sem um er vitað og Bandaríkjamenn fái rétt til samninga um, samkv. téðum samningsákvæðum. En jafnvel þó að til samningaumleitana kæmi, er sá fyrirvari umsaminn, að ákvæði hugsanlegs samnings yrðu að vera í samræmi við ákvæði íslenzkra laga.

Nú er það vitað, að íslenzk atvinnulöggjöf er strangari, en flestra annarra ríkja, þ. e. veitir útlendingum minni rétt en flest önnur ríki gera. Á þetta var samningamönnum Bandaríkjanna rækilega bent og það, að Íslendingar teldu sér lífsskilyrði að slaka ekki á þessum fyrirmælum. Er erfitt að hugsa sér, að betur hefði verið hægt að búa hér um Íslandi til hags heldur en gert hefur verið, og er allt tal um, að með þessu sé skapað hættulegt jafnréttisákvæði fyrir Ísland, hliðstætt því, sem var í sambandslögunum, gersamlega ástæðulaust sem betur fer.

Ákvæðið í 3. lið 5. gr. skiptir ekki miklu máli til eða frá.

Í 6. gr. ræðir um, að greiða skuli fyrir ferðalögum Bandaríkjaþegna hér og í öðrum þátttökuríkjum, og er það eðlilegt frá sjónarmiði þeirra, sem telja, að núverandi hömlur á ferðalögum manna á heiminum séu ekki æskilegar og geti ekki staðizt til lengdar, auk þess sem dollaratekjur munu fást af slíkum ferðalögum.

Upphafsákvæði.. 7. gr. er eðlilegt og í samræmi við það, sem tíðkanlegt er í slíkum samningum, þar sem segir, að báðar ríkisstjórnirnar muni, þegar önnur þeirra óskar þess, ráðgast um hvers konar atriði, er snerta framkvæmd samnings þessa, svo og framkvæmdir eða ráðstafanir, sem gerðar eru í framhaldi samningsins. Samkv. ákvæðum greinarinnar að öðru leyti, sbr. og 7. tl. fylgiskjalsins, er gert ráð fyrir, að Íslendingar láti stjórn Bandaríkjanna í té gögn, svo að séð verði, hvort Íslendingar standi við samninginn af sinni hálfu, hvernig þeir framkvæmi hann og verji fé samkv. honum og til undirbúnings þess, að við getum fengið áframhaldandi aðstoð samkv. samningnum frá Bandaríkjastj. Allt þetta er eðlilegt og óhjákvæmilegt frá sjónarmiði þeirra, sem á annað borð eru samningnum fylgjandi og telja hann horfa til góðs.

Í 8. gr. kemur fram viðurkenning þess, að nauðsynlegt er, að almenningur fylgist sem allra bezt með framkvæmd samnings þessa í heild og einstökum atriðum og áhrifum hans á efnahagslíf þjóðarinnar og þátttökuríkjanna yfirleitt.

Að sjálfsögðu er ráðgert, að Bandaríkjamenn þurfi að hafa sérstaka sendimenn til þess að sjá um framkvæmd og fullnæging samningsins af sinni hálfu, og ræðir um þá og réttindi þeirra í 9. gr. Þau réttindi eru með sama eða svipuðum hætti og venjulegra diplomatískra sendimanna, svo sem sjálfsagt er. Þessar sendinefndir Bandaríkjamanna eru í sumum löndum allfjölmennar, einkanlega í París, þar sem efnahagssamvinnustofnun Evrópu á heima, og hugsanlegt er, að slík sendinefnd eða nefndir komi einnig hingað til landsins, en enn þá hefur ekki svo orðið, heldur hefur sendiráð Bandaríkjanna hér eitt farið með þetta mál, og er íslenzka ríkisstj. mjög ánægð með þá skipan.

Í 10. gr., sbr. 9. tölulið fylgiskjalsins, ræðir um rétt til að leggja nánar tilteknar kröfur, er ríkisstjórnir beggja landanna taka að sér, fyrir gerðardóm, þ. e. a. s. alþjóðadóminn eða annan dóm, sem samkomulag verður um. Þetta er gagnkvæmt og skiptir væntanlega ekki miklu máli fyrir Ísland, en berum orðum er fram tekið í 3. tölulið, að hvorug ríkisstj. muni taka að sér kröfu samkv. þessari grein fyrr en hlutaðeigandi þegn hefur leitað réttar síns fyrir öllum þeim stofnunum og dómstólum, sem eru í því landi, er krafan varð til í.

11. gr. samningsins fjallar um orðaskýringar, og þarf ekki frekar um hana að ræða. Samkv. 12. gr. öðlaðist samningurinn gildi með undirskrift og á að vera í gildi til 30. júní 1953. Frá þeim tíma er hægt að segja honum upp með 6 mánaða fyrirvara. Fyrir þennan tíma er hægt að segja samningnum upp samkv. ákvæðum 12. gr., og kemur það til álita, ef önnur hvor ríkisstj. telur, meðan á samningstímabilinu stendur, að grundvallarbreyting hafi orðið á höfuðsjónarmiðum þeim, sem samningurinn byggist á. Getur hún þá tilkynnt það skriflega hinni ríkisstj., og ráðgast þær síðan við um málið. Ef samkomulag næst ekki innan þriggja mánaða frá því, að slík tilkynning kom fram, getur hvor ríkisstj. tilkynnt hinni skriflega, að hún vilji, að samningur þessi falli úr gildi. Fellur hann þá úr gildi 6 mánuðum eftir, að slík tilkynning um uppsögn hefur farið fram, og með styttri fyrirvara, ef samkomulag verður um.

5. gr. og 3. mgr. 7. gr. skulu þó halda gildi sínu þar til tvö ár eru liðin frá slíkri tilkynningu um uppsögn, þó eigi lengur en til 30. júní 1953, en samkv. framansögðu mun 5. gr. hafa litla eða enga þýðingu varðandi Ísland.

Ákvæði 4. gr. haldast auðvitað þangað til búið er að ráðstafa fé því, sem lagt hefur verið til hliðar skv. gr. Samsvarandi ákvæði eru um 2. mgr. 3. gr.

Ríkisstjórnirnar geta og hvenær sem er breytt samningi þessum með samkomulagi sín á milli, svo sem sjálfsagt er.

Ég hef talið rétt að rekja samningsgerð þessa allýtarlega fyrir hv. þingmönnum, svo að þeir gætu til hlítar áttað sig á henni, því að þó að ríkisstj. hafi haft fulla heimild til samningsgerðarinnar og hafi áður en henni var lokið kynnt sér, að hún hafði öruggan stuðning meiri hl. alþingismanna til hennar, þá hefur þessi samningur svo mikla grundvallarþýðingu til góðs fyrir Íslendinga, að nauðsynlegt er, að hv. alþm. séu bæði sjálfum samningsatriðunum og aðdraganda þeirra svo kunnugir sem föng eru til.

Að öðru leyti er rétt að taka fram, að samningur þessi veitir Íslandi engan rétt til neinnar tiltekinnar eða ákveðinnar aðstoðar, heldur verður um það að semja hverju sinni. Sumri af þeirri aðstoð er og svo varið, að ekki er heimilt við henni að taka, nema samþykki Alþingis sé fyrir hendi. Þannig er það t. d. með lántöku. Hana er auðvitað óheimilt að gera, nema skýlaus lántökuheimild sé fyrir hendi. Svo sem kunnugt er, veitti síðasta Alþingi heimild til þess af sinni hálfu, að tekið væri að láni í dollurum allt að 15 millj. kr., einkum til eflingar síldariðnaðarins. Ríkisstj. hafði þá von um að geta útvegað þetta lán eftir venjulegum viðskiptaleiðum. En þegar til átti að taka, brást sú von, og virtust horfur á, að þær nauðsynlegu framkvæmdir, sem gera átti fyrir þetta fé, færu út um þúfur. Stj. taldi því sjálfsagt, þegar í ljós kom, að féð var ekki hægt að fá að láni í Bandaríkjunum nema fyrir milligöngu viðreisnarstjórnvaldanna þar í landi, að nota sér þá milligöngu, og var lánssamningur samkv. því undirritaður 22. júlí 1948.

Þau síldarvinnslutæki, sem undanfarið hafa verið að koma til landsins og eru að koma þessa dagana, eru því fengin fyrir fé, sem veitt er samkv. þeim samningi, sem hér er um að ræða, þó að það sé að öllu leyti lánsfé, sem Íslendingar eiga að endurgreiða með venjulegum hætti á 10 árum. En vegna þess, að hér er um hluta af Marshallaðstoðinni að ræða, urðu vextirnir óvenjulega hægstæðir.

Um afgreiðslu þessara vara hefur Ísland og að sjálfsögðu notið forréttindaaðstöðu þeirrar, sem þátttökuríkjunum er ætluð, og má búast við, að vörurnar hefðu ekki fengizt svo fljótt afgreiddar sem raun ber vitni um, ef Ísland hefði ekki verið þátttakandi í viðreisnaráformunum, jafnvel þótt ráðgert sé, að lánið hefði fengizt, ef svo illa hefði farið að Ísland hefði ekki gerzt aðili að þessari stórfenglegu áætlun.

Fram að þessu hefur íslenzka stj. þó lagt á það megináherzlu í sambandi við viðreisnaráformin, að þau greiddu fyrir sölu á íslenzkum afurðum.

Er þá fyrst að geta, að samningurinn um sölu á ísfiski til Vestur-Þýzkalands, sem gerður var á s. l. ári, var gerður í beinu sambandi við undirbúning viðreisnaráformanna, þó að það yrði að formi til um sjálfstæða samningagerð að ræða og fiskurinn sé greiddur í pundum, en ekki dollurum. Öllum kunnugum eru þó ljós þau tengsl, sem hér eru á milli, enda var ísfisksamningurinn kallaður „inngangur Marshallsamvinnunnar“ af þeim viðsemjanda okkar, sem gerst mátti um þetta vita og mest greiddi fyrir samningsgerðinni. Nú í septemberlok var skv. þessum samningi búið að flytja til Þýzkalands rúm 50.000 tonn af fiski, auk þess sem rúm 40.000 tonn höfðu verið flutt til Englands. Til samanburðar má geta þess, að allur ísfiskútflutningurinn var árið 1946 aðeins 72.000 tonn og enn minni 1947, eða aðeins 61.000 tonn. Á tímabilinu frá 1. marz til 31, ágúst nam ísfiskútflutningurinn til Bretlands og Þýzkalands samanlagt rúmum 67.000 tonnum.

Ísfiskkvóti okkar í Bretlandi á þessu tímabili var aðeins rúm 52.000 tonn. Heildarútflutningur Íslands á ísfiski á þessu tímabili hefur þess vegna verið rúmum 14.000 tonnum meiri heldur, en við hefðum mátt selja til Bretlands samkv. gerðum samningum. Togurunum hefði ekki verið haldið út til að afla þess fisks, ef Þýzkalandsmarkaðarins hefði ekki notið við. Er og rétt að hafa í huga, að ef íslenzkir togarar hefðu ekki getað selt ísfiskinn til Þýzkalands á þessu tímabili, hefði þó að öllum líkindum ekki verið hægt að fylla upp í brezka kvótann, vegna þess að Bretlandsmarkaðurinn krefst allt annars fisks en Þýzkalandsmarkaðurinn. Auk þess er ekki nokkur vafi á, að verðlagið á brezka markaðinum hefur verið miklu tryggara en ella frá því í vor, vegna þess að hann hefur ekki yfirfyllst af fiski, svo sem yfirvofandi hætta hefði verið á, ef Þýzkalandsmarkaðurinn hefði ekki verið. En í Þýzkalandi hefur sem kunnugt er fengizt tryggt viðunandi verð fyrir fiskinn, svo að sölur þangað hafa verið miklu öruggari, en tíðkanlegt er með ísfisksölur.

Af öllu þessu er ljóst, hvílíka úrslitaþýðingu fyrir afkomu okkar þessi samningur um ísfisksölur til vesturhluta Þýzkalands hefur. Eru ekki ýkjur, að hér á landi væri nú allt annað og miklu verra ástand, ekki aðeins hjá togaraútgerðarmönnum og sjómönnum, heldur hjá þjóðinni allri; ef ekki hefði tekizt að koma þessum samningi á. En eins og ég áður sagði, var sú samningsgerð í mjög nánu sambandi við undirbúninginn að viðreisnaráformunum. Við þetta hefur þó engan veginn verið látið sitja. Mikilsverðar sölur á afurðum landsmanna hafa átt sér stað fyrir beina milligöngu og fyrirgreiðslu viðreisnarstofnunarinnar í Washington. Hefði þó verið mun hægara að eiga við þau mál en raun ber vitni um, ef síldarvertíðin síðasta hefði ekki brugðizt svo gersamlega sem nógsamlega er kunnugt. Missir þeirra síldarafurða, sem varlega hafa að andvirði verið taldar nema 80 millj. kr., hefur auðvitað komið fram með mörgu og tilfinnanlegu móti, en ekki sízt í því, að erfiðara varð að afla dollara fyrir útflutningsvörurnar, en vonir manna höfðu staðið til. Engu að síður var fyrir milligöngu viðreisnarstofnunarinnar í Washington hægt að selja 1.000 tonn af síldarmjöli til Austurríkis og 4.000 tonn af síldarlýsi til Þýzkalands, hvort tveggja fyrir dollara. Þarna var um að ræða eftirstöðvar frá vetrarsíldarvertíðinni.

Loks kem ég að þeirri sölu, sem mest er um vert, en frá henni var skýrt í fréttatilkynningu 14. okt. s. l. á þessa leið:

„Undanfarna mánuði hefur ríkisstj. verið að leita fyrir sér um sölu á því magni af hraðfrystum fiski, sem enn þá er óselt af þessa árs framleiðslu.

Nú hafa tekizt samningar við efnahagssamvinnustofnunina í Washington (ECA) um sölu á meginhluta þessa fisks til ríkja, er taka þátt í endurreisnaráætlun Evrópu., á eftirfarandi grundvelli :

Efnahagssamvinnustofnunin veitir Íslandi 3.500.000 dollara gegn því, að samsvarandi upphæð í íslenzkum krónum verði greidd inn á sérstakan reikning í Landsbanka Íslands, er notist til greiðslu á fiskinum. Þessi upphæð dregst frá 11.000.000 dollara framlagi því, sem Íslandi hefur verið úthlutað fyrir tímabilið 1. júlí 1948 til jafnlengdar 1949.

Nú er óselt í landinu um 9.000 smálestir af hraðfrystum fiski, en láta mun nærri, að 8.000 smálestir af hraðfrystum fiski séu að verðmæti 3½ millj. dollara, þegar miðað er við það verð, sem ríkissjóður ábyrgist framleiðendum.“

Þess hefur orðið vart, að sumum hefur virzt einkennilegt formið á þessum viðskiptum. Þess er t. d. getið í blaði einu, að þetta væri líkast því, er vínsali einn hefði sagt: „Ég skal gefa þér flöskuna, ef þú gefur mér peningana.“ Með þessu hugðist sá góði maður firra sig ábyrgðinni af vínsölunni. Blaðið, sem minnti á þessa sögu, gleymdi að geta þess, að þrátt fyrir þetta taldi hæstiréttur að hér hefði verið um ótvíræða sölu að ræða. Á sama veg um um þessi viðskipti. Formið er að vísu óvenjulegt, en þó er um ótvíræða sölu að ræða efnislega.

Ástæðan til þess, að þetta form var valið, er sú, að á fundi þátttökuríkjanna í París á s. l. sumri varð ofan á, að slík skilorðsbundin framlög, svo sem þau eru kölluð, mundu greiða meira fyrir viðskiptunum, en reglulegar formbundnar sölur. Hvorttveggja sýnist koma í einn stað fyrir Ísland. En úr því að þau Evrópuríkin, sem mest áttu í húfi, óskuðu eindregið eftir þessu formi, taldi íslenzka stj. ástæðulaust að hafa á móti samkomulagi milli þátttökuríkjanna um þetta form.

Þess ber að minnast, að hér er ekki um að ræða sérstakt form, sem haft sé á milli Bandaríkjanna og Íslands eins í þessum skiptum, heldur það form, sem haft er til að greiða fyrir sölu afurða innbyrðis milli þátttökuríkjanna og leggja Bandaríkin fram dollara til að greiða fyrir slíkum viðskiptum. Þannig kemur dollaraframlag Bandaríkjanna að tvöföldu gagni, annars vegar fyrir seljanda, sem skortir dollara til kaupa á nauðsynlegum innflutningsvörum, og hins vegar móttakanda, sem fær vörurnar sem óbeina hjálp, enda er þessi háttur ekki tekinn upp eftir tillögu Bandaríkjastj., því að í sjálfum Marshalllögunum er gert ráð fyrir venjulegri aðferð og reglulegri sölu, heldur voru það Evrópuríkin, sem töldu sér þetta form hentara, og úr því að allt kom í einn stað niður fyrir Ísland, gat það sér að meinalausu samþykkt þennan hátt á málunum.

Þá hefur einnig komið fram sá misskilningur, að vegna fyrirmælanna í 4. gr. samningsins milli Íslands og Bandaríkjanna þurfi að leggja til hliðar 5% af andvirði þessarar sölu og Bandaríkin eigi rétt á þeim. Þarna er um algeran misskilning að ræða. Í 4. gr. ræðir um framlag án endurgjalds, og þá á að leggja umgetin 5% til hliðar. En hér er alls ekki um að ræða framlag án endurgjalds, því að fullt endurgjald eða sem því svarar er einmitt látið í staðinn. Þess vegna eiga 5%-ákvæðin hér alls ekki við, og hefur Bandaríkjastj. auðvitað alls ekki farið þess á leit, að þau yrðu greidd. Þrátt fyrir sérstakt form er hér því um reglulega sölu á afurðum okkar að ræða, sölu, sem allir góðviljaðir menn hljóta vissulega að fagna. Hitt verða menn að hafa í huga, að þessi sala hefði ekki átt sér stað, ef sérstök fyrirgreiðsla hefði ekki komið til greina, og verður að skoða einstaka skilmála í því ljósi.

Um allar þessar afurðasölur er það að segja, að dollararnir, sem fyrir þær fást, verða dregnir frá dollaraúthlutun þeirri, sem okkur hafði verið ákveðin í viðreisnaráformunum fyrir þetta ár. Hins vegar koma þessir dollarar okkur auðvitað að gagni til kaupa á nauðsynjum okkar. Að því er upphæð þeirra nemur, dregur aftur á móti úr möguleikum okkar til þess að fá lán eða beinar gjafir af viðreisnarfénu.

Í þessu sambandi er rétt að taka fram, að það er algerlega rangt, sem mjög hefur verið haldið fram í áróðri á móti þessum aðgerðum og sumir góðviljaðir menn einnig hafa trúað, að Bandaríkjastj. mundi skammta okkur vörur eftir sinu höfði fyrir það viðreisnarfé, sem okkur væri ætlað. Að vísu er það svo, að Bandaríkjastjórnarvöld þurfa að samþykkja, hvernig viðreisnarfénu skuli varið, og svarar það t. d. til þess, að útflutningsleyfi þarf fyrir vörum frá Íslandi, en hins vegar þvingar Bandaríkjastj. ekkert þátttökulandið til að taka við vörum, sem það óskar ekki eftir. Eitt aðaleinkenni þessarar starfsemi er þvert á móti það, hver áherzla er lögð á að efla samskipti Evrópuþjóðanna sjálfra og hvetja þær eða nærri knýja til að kaupa hver hjá annarri allt, sem þær geta látið í té. Ekki er ætlazt til, að frá Bandaríkjunum verði flutt annað en það, sem ófáanlegt er meðal þátttökulandanna í Evrópu.

Ýmsir hafa haldið, að listar þeir, sem fyrr á þessu ári voru birtir um hugsanlegar vöruúthlutanir til ýmissa landa, væru bindandi, þar með væru löndin orðin skyldug til að taka við þessum vörum, ef þau vildu njóta hjálparinnar. Þetta er alger misskilningur. Þarna var einungis nefnt, hverjar vörur hugsanlegt væri, að Bandaríkin gætu látið í té, og þá nokkuð, en þó ekki til hlítar, stuðzt við þær skýrslur, sem komið höfðu frá hlutaðeigandi landi um þarfir þess. Það var strax tekið fram, að þessar áætlanir væru engan veginn bindandi. Þegar viss öfl voru t. d. í vor að hræða Íslendinga með, að okkur ætti að neyða til að taka á móti mörg hundruð vörubílum, þá var þar aðeins um að ræða slíkt ímyndað dæmi fjarskylt veruleikanum.

Framkvæmdin hefur orðið sú, að Bandaríkin láta hverju landi í té þær nauðsynjar, sem það land þarf á að halda, þ. e. a. s. ef Bandaríkin eiga þá vöru eða geta útvegað hana. Það eru óskir viðtakandans, sem þarna eru látnar skera úr.

Af því, sem ég þegar hef sagt, skilst, að Ísland hefur þegar fengið aðstoð samkv. viðreisnaráformunum með þrennum hætti. Í fyrsta lagi höfum við fengið lán. Í öðru lagi höfum við notið forgangs um kaup á vörum í Bandaríkjunum. Í þriðja lagi höfum við hlotið mikilsverða fyrirgreiðslu um sölu á afurðum okkar og fengið fyrir þær dollara, sem ella hefði verið torvelt að útvega.

Enn sem komið er höfum við ekki notið fjórðu aðstoðarinnar, þ. e. a. s. framlags án endurgjalds. Er þó ætlazt til, að langmestur hluti aðstoðarinnar verði einmitt veittur í þessu formi. En hvort tveggja er, að hingað til hefur okkur ekki verið gefinn kostur á slíkum framlögum og íslenzka stj. ekki haft heimild til að taka á móti þeim, þó að í boði hefðu verið, því að þó að þessi framlög séu í framkvæmd að mestu leyti hrein gjöf, hvíla þó á þeim þær kvaðir, að samkv. stjórnskipulögum ríkisins er öruggast að hafa lagaheimild til að taka á móti þeim.

Er það að vísu svo, að fljótt á litið ætti Ísland ekki að þurfa á gjöfum eða framlögum án endurgjalds að halda. Eyðileggingar styrjaldarinnar léku flest þátttökuríkin svo hörmulega, að ætla mætti, að ekki væri sambærilegt, hversu þau væru verr stödd en Ísland, sem óneitanlega hagnaðist fjárhagslega á styrjöldinni og bjó á meðan á henni stóð við betri kjör, en nokkur önnur þjóð í Evrópu.

En þetta er ekki nema hálfsögð saga. Íslendingar byggja eflaust það land í Evrópu, sem erfiðast er og fátækast af náttúrunnar gæðum, og þó að mörg stríðslöndin væru illa útleikin, megum við ekki gleyma því, að um síðustu aldamót var Ísland örsnautt land og nærri allt, sem gert hefur verið til uppbyggingar í landi okkar, hefur verið gert á þeim fáu áratugum, sem síðan eru, liðnir. Þrátt, fyrir það, að Ísland hafi að mestu leyti komizt hjá eyðileggingu á stríðsárunum, og var þó verulegur hluti skipastóls okkar skotinn í kaf, þá er uppbygging hér nú, jafnvel eftir hina miklu nýsköpun síðustu ára, mun skemmra á veg komin en jafnvel þeirra Evrópuþjóða, sem harðast urðu úti á stríðsárunum, er við hafa að styðjast óslitna uppbyggingu margra undanfarinna alda á því tímabili, þegar allt steini léttara var flutt burt frá Íslandi. Þá verður og að líta á þá sérstöku örðugleika, er við eigum við að etja út af verðbólgunni, sem að verulegu leyti á rætur að rekja til ófriðaráranna og þess sérstaka ástands, sem skapaðist víð dvöl setuliðsins hér.

Þessu til viðbótar kemur svo það, að atvinnuvegir Íslendinga, svo frumstæðir sem þeir eru — landbúnaður og fiskveiðar, — eru miklu ótryggari en flestra annarra landa, og er þess skemmst að minnast, hvílíkt afhroð við hlutum við síldarbrestinn s. l. sumar. Ég tel þess vegna hiklaust, að Íslendingar eigi að reyna að afla sér framlaga án endurgjalds samkv. þessum mikilfenglegu viðreisnaráformum, ef slík framlög eru fáanleg, svo sem ástæða er nú til að ætla.

Greinilegt er, að ef ekki á að draga mjög verulega úr framkvæmdum hér á næstu árum og nýsköpunin að stöðvast að mestu eða öllu, eru aðeins þrír möguleikar fyrir hendi.

Fyrsti er sá að draga mjög verulega úr innflutningi neyzluvara. Þetta hefur verið gert svo rösklega undanfarið, að erfitt er þar nokkru á að auka, sem þýðingu hafi, enda mun sanni nær, að óhjákvæmilegt sé að auka innflutning á ýmiss konar neyzluvörum frá því, sem verið hefur.

Annar möguleikinn er sá að taka erlend lán til framkvæmdanna, svo sem gert hefur verið með fullri lagaheimild um síldariðnaðinn á þessu ári. Um lántökur gegnir að vísu mjög ólíku máli eftir því, til hvers þær eru ætlaðar. En lántökur til hreinnar eyðslu tel ég að komi ekki til greina. Allt öðru máli gegnir um lántökur til uppbyggingar, — lán til framkvæmda eins og Sogsvirkjunarinnar, hitaveitunnar og annars slíks hafa fært okkur ómetanlega blessun, og slík lán þarf ekki frekar að óttast í framtíðinni en hingað til. Gjaldgetu okkar fátæka lands eru, þó sett mikil takmörk. Við getum seint gert allt það, sem hér þarf að gera, ef við þurfum að taka til þess erlend lán.

Þriðji möguleikinn er að ganga úr skugga um, hvort við eigum kost á framlögum án endurgjalds. Svo sem hæstv. viðskmrh. mun sýna fram á, munum við, ef við fáum slík framlög, geta ráðizt í ýmsar æskilegar framkvæmdir, sem menn hafa lengi haft í huga, en ella eru litlar líkur til, að ráðizt verði í, í náinni framtíð.

Ég geri ráð fyrir, að bráðlega muni verða lagt fram á Alþingi frv. um heimild ríkisstj. til að taka við slíkum framlögum án endurgjalds.

Auðvitað eigum við ekki að taka á móti slíkum framlögum, ef það er óvirðing fyrir Ísland. En við skulum ekki eitt augnablik ætla okkur svo stóra, að við séum í raun og veru ríkari þjóð en t. d. Danir eða Norðmenn. Þessar þjóðir telja framfarir sínar og góðan efnahag algerlega háðan þeirri aðstoð, sem þær fá samkv. viðreisnaráformunum. Þær óttast ekki frekar en aðrar frjálsar Evrópuþjóðir þann hug, sem stendur á bak við aðstoðina. Allir frjálshuga menn skilja, að þar ræður skilningur á því, að atvinna og velsæld geti ekki ríkt í einu landi til lengdar, ef það er umkringt af atvinnuleysi, fátækt og eymd. Þennan skilning á því, að ef manni á sjálfum að vegna vel, þá verði meðbræðrum hans einnig að gera það, hefur allt of lengi skort í samskiptum þjóðanna. Þeim mun meiri ástæða er til þess að fagna því, þegar hann birtist á jafnáþreifanlegan hátt og nú í framkvæmdum voldugustu þjóðar í heimi.

Íslandi jafnt og öðrum þjóðum ber að gera sitt til þess, að þessar hugsjónir um viðreisn, framfarir og velmegun megi rætast.