21.10.1948
Sameinað þing: 6. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1984 í B-deild Alþingistíðinda. (2886)

Marshallaðstoðin

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Hér er um að ræða svo mikið og merkilegt mál, að mér finnst rétt, að stjórnarandstaðan fengi tækifæri til að hafa það málfrelsi, sem hún telur þörf, ekki sízt með tilliti til þess, að kommúnistar um allan heim hafa fengið fyrirmæli um að vera á móti Marshalláætluninni. Þeir eru hér að leika það hlutverk, sem þeim hefur verið falið, og verður að taka því með fullri ró og þeim skilningi, sem það hlutverk verðskuldar.

Ég ætla hér ekki að gera sérstaklega að umræðuefni sjálft álitið, sem hér liggur fyrir, eða samninginn, en ég vil taka undir það, sem hv. þm. S-Þ. sagði í sinni ræðu hér síðast, að aðalatriðið í þessu máli er samvinna þjóðanna, en ekki sá fjárstyrkur, sem þær fá. Það getur varla leikið á tveim tungum, að það var sjálfsagt fyrir Ísland að taka þátt í samvinnu hinna 15 Evrópuþjóða, sem Ísland hefur nú samvinnu við um endurreisnarmál. Og það hlýtur hver maður að sjá, að ef Ísland hefði skorazt undan þeirri samvinnu, þá hefði það ekki gert annað en að einangra sig, draga sig út úr og slíta sig úr öllum tengslum við þessi lönd, sem Ísland þarf að hafa mest af sínum viðskiptum við.

Það var einnig útilokað fyrir Ísland í sambandi við þessa samvinnu að skerast úr leik í sambandi við Marshalláætlunina. Ef haldið er skynsamlega á þessu máli, ætti þessi hjálp að geta orðið stórkostlega mikils virði meðan Evrópa er að rísa úr rústum eða þangað til hún getur aftur orðið góður viðskiptavinur. Ég fyrir mitt leyti er ekki sérstaklega hrifinn af gjafafé. Ég tel það nægilega aðstoð og góða aðstoð, ef Ísland í sambandi við þessa hjálp getur selt afurðir sínar fyrir yfirverð, meðan við erum að leitast við að ná jafnvægi í okkar eigin verðlagsmálum, en það er það, sem hefur gerzt nú, þegar frysti fiskurinn var seldur. En ég tel, að gjafir séu hvorki hollar né æskilegar, nema um hreint öngþveiti sé að ræða.

Ég skal þá koma að þeim hlut í þessu máli, sem ég ætlaði aðallega að ræða um, en það er fjárfestingarhlið málsins. Hæstv. viðskmrh. gaf skýrslu um stórkostlegar framkvæmdir, sem hann tók skýrt fram, að væru óskalisti. En ég verð að segja það, að þótt ræða hans gæfi ekki tilefni til að taka það á annan hátt en þann, þá virðist, að í umr., sem farið hafa fram í blöðum um málið, að það gæti talsvert mikillar bjartsýni um, að þetta geti komizt í framkvæmd. Þetta er mjög glæsilegur draumur, ef ég mætti svo segja, og ég vænti þess, að eitthvað af honum komi til framkvæmda í náinni framtíð. En mig langar til að spyrja hæstv. viðskmrh., hvort jafnframt þessu sé verið að undirbúa ráðstafanir af hendi hæstv. ríkisstj. til að hafa í fullu tré við dýrtíð og verðbólgu, til þess að möguleikar séu á því að koma svona áformum í framkvæmd. Ég ætla ekki að fara miklu nánar út í að skýra þetta atriði, það skýrir sig að mörgu leyti sjálft. Það má benda á það, að ef ætti að reisa þau mannvirki, sem hér er um að ræða, á fjórum árum, þá þyrfti að líkindum til þess meiri vinnukraft en við höfum yfir að ráða. En umfram allt álit ég, að þetta sé óframkvæmanlegt, nema breytist sá grundvöllur, sem við höfum nú til að byggja á.

Það stendur nú yfir landsfundur útvegsmanna í landinu. Fyrsti fundurinn var haldinn í gær, og formaður þessa sambands hélt ræðu á þeim fundi, og það er lítið eitt frá henni sagt í einu blaðinu í dag. Ég ætla með leyfi hæstv. forseta áð lesa eina klausu úr ræðu hans. Hún hljóðar svo: ,,ástandið, eins og það blasir við í dag, sem er í stuttu máli þannig, að rekstrargrundvöllur er ekki fyrir hendi hjá íslenzka fiskiskipaflotanum og hefur ekki verið undanfarin fjögur ár“. — Þetta er ástandið, og við vitum allir, hvernig það er. Á svona ástandi er ekki hægt að byggja stórkostlegar fyrirætlanir. Ef við látum okkur dreyma um slíkt, sem við viljum allir, þá verðum við að líta niður fyrir fæturna á okkur og sjá, á hvaða jarðvegi við stöndum. Öll fjárfesting rennur meira og minna út í sandinn, meðan verðbólgan og dýrtíðin hangir eins og brugðinn brandur yfir öllu atvinnulífi þjóðarinnar. Við getum keypt prýðileg skip. Öllum kemur saman um, að nýi flotinn sé prýðileg skip og það bezta, sem við höfum fengið út úr nýsköpuninni. En þessi tæki verða að sandi og ösku í höndunum á okkur, ef ekki er til í landinu rekstrargrundvöllur fyrir þau. Það er ekkert leyndarmál, að meginhlutinn og jafnvel allur íslenzki togaranýsköpunarflotinn hefði legið í höfn undanfarandi sumarmánuði, ef ekki hefðu fengizt samningarnir við Þýzkaland. Og ástæðan fyrir því, að hann hefði orðið að liggja í höfn, er sú, að þrátt fyrir þann sparnað, sem þessi skip veita í rekstri, þá geta þau ekki tekið við áföllum svo að neinu nemur, vegna þess, hve kostnaðurinn við útgerðina er mikill. Við getum reist áburðarverksmiðju. Það vilja vafalaust allir og óska allir, að áburðarverksmiðja verði reist í landinu, en hvernig mundum við standa, ef útlendur áburður yrði seldur helmingi lægra verði, en íslenzkar verksmiðjur gætu framleitt? Sama má segja, um sementsverksmiðju, sem við höfum stórkostlega þörf fyrir. Þetta verður allt óarðberandi, nema við getum tekið til í húsinu hjá okkur og látið þessar verksmiðjur bera sig á heilbrigðan hátt. Ég er ekki á móti fjárfestingu, síður en svo. En ég vil ekki, að þjóðin reisi sér hurðarás um öxl í þessu efni. Það er líka hægt að sligast undir of mikilli fjárfestingu, þó að það heiti framfarir, þegar við erum að koma því á laggirnar. Og ég er þeirrar skoðunar, að ef ekki verður breytt um stefnu, svo að annað verði til að byggja á, þá munum við lenda í feni hríðversnandi verðbólgu, ef við förum út í aðra eins fjárfestingu og hér er gert ráð fyrir. Það er gert ráð fyrir 300 millj. kr., sem megi fá út úr Marshallaðstoðinni og 200–300 millj. frá sjálfum okkur til að koma þessu í framkvæmd. Ég er ekki í vafa um, að þjóðin er í dag komin út í meiri fjárfestingu en hún ræður við. Fjárfestingin er komin út í svo miklar öfgar,að það er alvarleg þurrð á nauðsynjavörum í landinu. Fyrir fáum dögum voru hér engar birgðir af hveiti, engar af rúgmjöli, engar af kaffi, litlar af sykri. Nú er komið skip hingað á höfnina með birgðir af þessum vörum, en til tiltölulega skamms tíma. Ég segi: Ef við þurfum vegna fjárfestingar að hafa landið birgðalaust af nauðsynjavörum, þá er fjárfestingin komin út í öfgar Hér er skortur á nauðsynlegum klæðum, nauðsynlegum skófatnaði. Það gengur svo langt, að fólk fær ekki vissar stærðir af skóm á börn sin. Hér er í raun og veru þurrð og skortur á hverjum hlut nema áfengi. Ég vil ekki segja, þegar svona er komið, að það eigi að hætta við öll áform og ráðagerðir fyrir framtíðina. En ég segi, að þegar svona er komið, þá er nauðsynlegt að breyta svo til, að þjóðin hafi í sig og á og að ástandið í landinu, verði lagfært á þann veg, að einhver áætlun geti staðizt, en ekki að við þurfum að byggja allt okkar líf á fúafeni kínverskrar verðbólgu.

Ég vildi að síðustu mega óska þess, að Marshallhjálpin verði bæði Íslandi og öðrum löndum Evrópu til blessunar. En við megum ekki gleyma því nokkra stund, að þetta verður engin hjálp fyrir okkur, nema við hjálpum okkur sjálfir og breytum þannig ástandinu í okkar eigin þjóðarbúskap, að við getum tekið við hjálpinni og hún orðið að notum.