21.10.1948
Sameinað þing: 6. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1991 í B-deild Alþingistíðinda. (2888)

Marshallaðstoðin

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að bæta miklu við það, sem ráðherrar þeir, er skýrslur fluttu um þetta mál í fyrradag, tóku þá fram um Marshalláætlunina og framkvæmdir og fyrirætlanir í því efni. En þótt ekki sé mikil ástæða til þess, vil ég fara um þetta nokkrum orðum. Ég mun þó ekki svara neitt ræðu hv. 2. þm. Reykv., því að ég geri ráð fyrir, að henni verði fullkomlega svarað af þeim, er með þetta mál fara fyrst og fremst af hálfu. ríkisstj. Ég mun heldur ekki ræða um þann ómerkilega róg um Bandaríkin, sem rekinn hefur verið í þessu sambandi; get þess aðeins sem minnar skoðunar, að mér virðist Bandaríkjastjórn hafa sýnt óvenjulega mikið víðsýni, framsýni og stórhug með framkomu sinni í þessu máli, sem hefur verið furðulega laus við eiginhagsmunasjónarmið. Það skýrist nú æ betur og betur til hrellingar fyrir þá, sem hafa skipað sér til andstöðu, en hinum til ánægju, sem hafa áhuga fyrir því, að Marshallaðstoðin verði til blessunar fyrir þær þjóðir, sem hún á að gera gagn. Það hefur verið reynt að hártoga þetta. Því hefur t. d. verið haldið fram, að Marshallaðstoðin væri leið fyrir Bandaríkin til þess að koma út alls konar afgangsvörurusli, en þetta hefur verið skemmtilega kveðið niður af Bandaríkjastjórn, sem leggur einmitt höfuðáherzluna á það, að sem allra mest vöruskipti fari fram milli þjóðanna sjálfra, en sem minnst verði sótt til Bandaríkjanna. — Ég mun ekki fjölyrða meira um þetta, en eina spurningu vil ég taka til athugunar. Átti Ísland að standa utan við þessi samtök? — Ég skil ekki, að nokkur Íslendingur haldi því fram ótilneyddur, að það hefði verið æskilegt, að við útilokuðum okkur frá samstarfi hinna 16 Evrópuþjóða, sem margar eru okkar beztu viðskiptaþjóðir. Slíkt gat ekki orðið nokkurt vit. Og ef Íslendingar hefðu tekið sig út úr, hefði ekki verið hægt að líta á það nema á einn veg, að þeir vildu ekkert samstarf eiga og aðeins duga þeim málstað, sem hv. 2. þm. Reykv. hefur tekið að sér að þjóna.

Þá kemur spurningin um það, hvort einhverjir sérstakir ágallar væru á því af hálfu Íslendinga að taka þátt í þessu samstarfi, sem réttlættu það að skerast úr leik. — Engu slíku er til að dreifa. Ef Íslendingar hefðu átt að stiga slíkt skref, hefði það verið vegna þess, að í samningnum hefðu falizt einhver þjóðhættuleg skilyrði. En engin slík skilyrði felast í honum frá okkar sjónarmiði, eftir að búið er að fá hann svo úr garði gerðan sem hæstv. utanrrh. hefur skýrt frá. Ráðleggingar hv. 2. þm. Reykv. í þessu efni eru því álíka viturlegar eins og ráðleggingar hans á stríðstímunum um að hætta að senda fisk til Bretlands, þegar Bretar stóðu einir í styrjöldinni gegn nazistum.

Sá árangur, sem orðið hefur af Marshallaðstoðinni, er þegar mikill og verulegur fyrir Ísland, og þarf ég ekki að endurtaka það, sem um það hefur komið fram; en gerðir hafa verið stórir samningar, sem ekki hefðu orðið okkur jafnhagstæðir með öðru móti. Beinn ávinningur er alveg stórkostlegur. Hitt er svo annað mál, að réttindi þau og hlunnindi, sem við verðum aðnjótandi, fela í sér áminningu til okkar um það, að við verðum að halda vel á málum okkar heima fyrir og verðum alltaf illa staddir, ef atvinnuvegir okkar geta ekki borið sig. Óbreytt stendur það, að stórfelldur hagur hefur orðið af þessu samstarfi nú þegar.

En eftir hverju eiga þá Íslendingar að sækjast í sambandi við Marshallaðstoðina? — Fyrst og fremst hagstæðum verzlunarsamningum. Það hefur líka verið meginstefna ríkisstj., eins og nú þegar hefur komið glöggt í ljós. En á svo að sækjast eftir meiru? Í því sambandi þarf að gera sér þess grein, hverjar þarfir Íslendinga muni verða á næstu árum. Þar mun verða mikil nauðsyn á margháttuðum stórframkvæmdum, og þótt við náum fullum greiðslujöfnuði við útlönd, þá kunnum við, ef ráðizt verður í stórar framkvæmdir, að þurfa á meira fé að halda, en fást kann fyrir útflutning okkar, og er þá hugsanlegt að leysa þetta í sambandi við Marshallaðstoðina. Mundi þá verða um tvennt að ræða: lán eða óafturkræft framlag. Varðandi lántöku þarf að athuga möguleikana til þess að greiða lánin, sem væru aðeins tekin til arðgæfra framkvæmda, en þar sem bezt er að komast sem mest hjá lánum, hef ég verið fylgjandi þeirri stefnu innan ríkisstj. að leita fyrir sér um það, hvort Íslendingar gætu orðið aðnjótandi óafturkræfs framlags.

Nú má segja vitanlega, að það væri æskilegt, að Íslendingar væru svo á vegi staddir fjárhagslega, að þeir þyrftu ekki að hugleiða lántöku til þess að koma upp raforkuverum, verksmiðjum o. s. frv., en því er nú engan veginn þannig farið; innstæður eigum við nú engar, og því aðeins um þetta að velja: eitthvert erlent lánsfé eða óafturkræft framlag, ef fengizt gæti.

Um áætlunina, sem viðskmrh. gerði skil í skýrslu sinni, er þess að geta, að ráðgert er, að allar þjóðir, sem þátt taka í þessu samstarfi, geri 4 ára áætlanir um innflutning sinn og, útflutning og geri í sambandi við þær grein fyrir fyrirætlunum sínum í framtíðinni, þar sem innflutningurinn hlýtur að takmarkast af framkvæmdunum í landinu. Því lét ríkisstj. gera drög að áætlun eða óskalista, eins og tekið hefur verið fram. Vitanlegt er, að inn í þessa áætlun er ekki allt tekið, smátt og stórt sem til greina gæti komið, t. d. kaup á ýmsum tækjum öðrum, en nefnd eru í áætluninni og margs konar byggingarframkvæmdir. Það eru aðeins stærstu liðirnir, sem teknir eru í þessi drög að áætlun. Hins vegar er óhætt að segja, að þessi áætlun er sett upp frá því sjónarmiði, að Íslendingar frá byrjun tapi engu tækifæri til þess að fá fjármagn inn í landið. Það hefur komið fram hér í umræðum, að áætlun þessi væri ekki hnitmiðuð þannig, að hún geti fallið inn í fjárfestingaráætlun þessa tímabils frá ári til árs. En að hnitmiða hana þannig er verkefni, sem ekki verður unnið fyrir fram, áætlunina verður að endurskoða frá ári til árs til þess að raða þannig niður, að fjárfestingin verði viðráðanleg og skynsamleg og hafi ekki truflandi áhrif.

Að lokum ber þess að minnast, sem er hvað þýðingarmest, að því aðeins snýst þetta okkur til góðs, að við höfum þroska og skilning til að skapa heilbrigt atvinnulíf innan lands og meira jafnvægi og samræmi í fjármálalífið en nú er, og undir því er kominn árangur þessarar efnahagssamvinnu. Ef um hættu er að ræða í sambandi við hana, þá býr sú hætta í okkur sjálfum, og hún er sú, að þessi aðstoð verði til þess að svæfa okkur á verðinum heima fyrir og við förum að byggja óeðlilega mikið á utanaðkomandi aðstoð og gleymum því, að við verðum að standa á eigin fótum. Við verðum að hafa vit á að nota alla möguleika til að bæta hag þjóðarinnar án þess að missa sjónar á þessu stóra atriði.