21.10.1948
Sameinað þing: 6. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1995 í B-deild Alþingistíðinda. (2890)

Marshallaðstoðin

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mér finnst, að í sambandi við þetta mikilsverða mál, sem hér er til umr., sé um þrjú höfuðatriði að ræða. Í fyrsta lagi það, hvort Marshallaðstoðin svonefnda hafi eðlilegu og gagnlegu hlutverki að gegna í heimsmálunum yfir höfuð að tala. Í öðru lagi, hvort Íslendingar hefðu átt að gerast aðilar að Marshalláætluninni og þá á hvern hátt, og í þriðja lagi, hvað Íslendingar hefðu getað gert, ef þeir hefðu ekki gerzt aðilar að Marshalláætluninni, og hvaða úrræði þeir flokkar og þau öfl benda á til lausnar þeim vandamálum, sem Marshallaðstoðinni er ætlað að leysa, ef úr þátttöku Íslendinga hefði ekki orðið. Ég ætla að leyfa mér að fara nokkrum orðum um hvert þessara þriggja höfuðatriða.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að heimsstyrjöldin síðari gerbreytti allri fjárhagsaðstöðu Evrópuríkjanna. 1938 var verzlunarjöfnuður Evrópu að Sovétríkjunum frátöldum óhagstæður um 2.1 milljarð dollara. En þessi halli var jafnaður með duldum tekjum. Stærsti liður duldu teknanna voru vaxtatekjur, að upphæð 1,4 milljarðar dollara, og aðrar duldar tekjur námu 0.7 milljörðum dollara. Á síðasta árinu fyrir stríð og einnig á næstu árum á undan breyttist efnahagsafstaða Evrópuríkjanna því ekki gagnvart umheiminum þrátt fyrir hinn gífurlega óhagstæða verzlunarjöfnuð. Á árinu 1947, eða á s. l. ári, var aðstaðan hins vegar gerbreytt. Hinn óhagstæði verzlunarjöfnuður var þá 6.9 milljarðar dollara. Hins vegar hafa vextir af eignum Evrópulandanna í öðrum heimsálfum stórminnkað og voru á þessu ári aðeins 0.4 milljarðar dollara. Og í stað þess, að Evrópuríkin höfðu fyrir stríð ýmsar duldar tekjur auk vaxtateknanna, hafa þau nú dulin gjöld að upphæð 1 milljarður dollara. Greiðsluhalli Evrópuríkjanna varð því hvorki meira né minna en 7.5 milljarðar dollara s. l. ár. En sé litið á aðstöðu Evrópuríkjanna gagnvart Bandaríkjunum einum, þá var gjaldeyrisaðstaðan enn óhagstæðari. Hin mjög svo óhagstæða gjaldeyrisaðstaða Evrópuþjóðanna gagnvart umheiminum var jöfnuð á s. 1. ári 1947, með miklum lántökum í Bandaríkjunum og annars staðar, sérstaklega í Kanada, og enn fremur með sölu gulls og dollaraeigna. Hinn mikli greiðsluhalli, sem hafði orðið stríðsárin, hafði verið jafnaður á þennan sama hátt.

Það má segja, að höfuðorsakir þessara miklu gjaldeyriserfiðleika Evrópuríkjanna hafi einkum verið þrjár, þ. e. a. s. í fyrsta lagi hin gífurlega eyðilegging framleiðslutækja í stríðinu, í öðru lagi sú breyting á allri iðnbyggingu Evrópu, sem hlauzt af hinu algera hruni framleiðslunnar í Þýzkalandi, og í þriðja lagi sú gerbreyting, sem varð á efnahagsafstöðu Evrópuríkjanna gagnvart umheiminum. Þau höfðu verið lánveitandi lönd fyrir styrjöldina, og inneignir þeirra voru að henni lokinni ekki nema brot af því, sem þær voru fyrir hana, og mörg lönd, sem áður höfðu átt inneignir, voru nú orðin skuldunautar. Þetta á við Evrópuríkin í heild, en erfiðleikar þeirra voru þó mjög misjafnlega miklir. Gjaldeyriserfiðleikar Vestur-Evrópuríkjanna voru meiri en Austur-Evrópuríkjanna, vegna þess að þau voru meiri matarframleiðslulönd og gátu hjálpað sér sjálf að því leyti miklu fremur, en Vestur-Evrópuríkin, sem hafa verið meiri iðnaðarlönd og verða að flytja inn matvæli og greiða með iðnaðarvörum, og komu framleiðsluerfiðleikarnir í stríðinu og eftir það því að ýmsu leyti verr niður á Vestur-Evrópuríkjunum.

Eins og kunnugt er, var stríðskostnaður bandamannaríkjanna allra að mjög verulegu leyti greiddur af Bandaríkjum Norður-Ameríku, og eftir að stríðinu lauk, hættu Bandaríkin ekki, sem betur fer, þeim miklu vörusendingum til Evrópu, sem þau tóku upp í styrjöldinni, heldur héldu þeim áfram. Í stríðinu og fyrst eftir stríðið fóru vörusendingarnar, svo sem kunnugt er, fram í sérstöku formi, þ. e. a. s. samkvæmt hinum svonefndu láns- og leigulögum. En eftir að vörusendingar í því formi hættu, tóku við lánveitingar af hálfu Bandaríkjanna til einstakra Evrópuríkja. En þær lánveitingar voru ekki í skipulögðu formi og voru ekki gerðar samkv. neinni heildaráætlun. Það er alveg óhætt að fullyrða, að ef Bandaríkjamenn hefðu stöðvað vörusendingar sínar til Evrópu í lok stríðsins, hefði viðreisn Evrópu sótzt mjög seint. Viðreisn Evrópu hefði ekki getað gengið með þeim hraða, sem hefur þó tekizt að hafa á henni, án aðstoðar þessa ríkis, Bandaríkjanna, sem eitt allra stórveldanna var auðugra við lok styrjaldarinnar, en í upphafi hennar.

Raunverulega er það kjarni Marshalláætlunarinnar svokölluðu, að henni er ætlað að verða framhald af láns- og leiguvörusendingunum á styrjaldarárunum og lánveitingunum eftir stríðsárin. Það er óvefengjanleg staðreynd, að ef Evrópuríkin eiga að geta reist fjárhag sinn úr rústum með þeim hraða, sem æskilegt væri, geta þau ekki komizt af án áframhaldandi aðstoðar frá Bandaríkjunum. Það, sem gerist með hinni svokölluðu Marshallaðstoð, er það fyrst og fremst, að sú aðstoð, sem Bandaríkin veittu á styrjaldarárunum og hafa veitt eftir stríðið, heldur áfram, en er sett í ákveðið kerfi, til þess að það megi vera tryggt, að það fé, sem óhjákvæmilegt er, að Bandaríkin leggi fram til Evrópuríkjanna, sé notað skynsamlega og samkvæmt heildaráætlun.

Auðvitað er Marshalláætlunin ekki góðgerðarstarfsemi af hálfu Bandaríkjanna eintóm og jafnvel ekki fyrst og fremst. Það er hagsmunamál Bandaríkjanna sem eins helzta forusturíkis í heimsmálum, að efnahagur Evrópuríkjanna sé bærilegur og ekki sé þar allt í kalda koli, enda gæti það orðið til þess að efla óeðlilega vaxtarskilyrði sumra flokka, en eymd og volæði og erfiðleikar virðast vatn á myllu vissra flokka og einmitt þeirra, sem Bandaríkin telja aðallega á öndverðum meiði við sig í heimsstjórnmálum yfir höfuð að tala.

Eins og hæstv. forsrh. lýsti greinilega í ræðu áðan, hafa það verið framfaraöfl í Bandaríkjunum, sem hafa viljað stuðla að framkvæmd Marshalláætlunarinnar, en hin íhaldssamari hafa verið henni andvíg. Þau hafa einnig reynt að hafa þau áhrif, að Bandaríkin hagnýttu sér þessa áætlun þannig, að þau græddu á hinum stórfelldu vörusendingum til Evrópu, og þarf engan að undra það, en það er óhætt að fullyrða, að stjórnarvöld Bandaríkjanna hafa verið þar vel og skynsamlega á verði, þannig að það er ekki hægt að segja, að áætlunin mótist af hagsmunum bandaríska auðvaldsins og bandarískra stóriðjuhringa. Bandarísk stjórnarvöld hafa haft úrslitavaldið, sem betur fer fyrir þau ríki, sem aðstoðarinnar eiga að njóta. Sannleikurinn er sá, að hagsmunir Bandaríkjanna sem stórveldis og hagsmunir Vestur-Evrópu hafa farið saman, fyrst og fremst að því er snertir nauðsynina á aðstoðinni yfirleitt og ennfremur að því er snertir veigamikil atriði í framkvæmd hennar, og þess vegna hefur áætlunin orðið og verður Vestur-Evrópuríkjunum til góðs.

Það mun því óhætt að svara þeirri spurningu, sem ég varpaði fram í upphafi, þ. e. hvort Marshalláætlunin hefði gagnlegu hlutverki að gegna í heimsmálunum yfirleitt, þannig, að óhætt sé að fullyrða, að það sé fagnaðarefni fyrir Vestur-Evrópuþjóðirnar, að til hennar hefur verið stofnað.

Þá kem ég að öðru höfuðatriðinu, sem ég nefndi í upphafi, þ. e. hvort Íslendingar hefðu átt að gerast aðilar að þessu samstarfi og á hvern hátt. Fjárhagsvandamál okkar Íslendinga eru að ýmsu leyti önnur en flestra hinna ríkjanna 15, sem að þessu samstarfi standa. Meginverkefnin hér eru ekki viðreisn atvinnuveganna eftir styrjöldina. Sem betur fer varð hér nær engin eyðilegging af völdum styrjaldarinnar. Meginfjárhagsvandamál okkar er fólgið í því, að þótt íslenzka þjóðin hafi við lok styrjaldarinnar verið miklum mun ríkari, en við upphaf hennar, og ríkari en nokkru sinni áður í sögu sinni, þá fór fjárhagskerfi hennar allt úr skorðum í styrjöldinni og vegna áhrifa, sem beinlínis má rekja til styrjaldarinnar. Fjárhagskerfið fór þannig úr skorðum, að gífurlegt misræmi hefur skapazt milli verðlags og framleiðslukostnaðar innanlands og verðlags í viðskiptalöndunum, miðað við gengisskráninguna hér. Af þessu mikla misræmi milli verðs og framleiðslukostnaðar innanlands annars vegar og erlendis hins vegar hefur leitt almennan gjaldeyrisskort, þannig að eftirspurn eftir gjaldeyri er miklu meiri, en fyrir styrjöldina og miklu meiri en hægt er að fullnægja með afrakstri útflutningsins. En það er ekki einungis um almennan gjaldeyrisskort að ræða, heldur einnig tilfinnanlegan skort á sérstökum gjaldeyri, þ. e. dollurum. Og jafnvel þótt við hefðum gnægð annars gjaldeyris, þá minnkaði ekki þar með skorturinn á þessum sérstaka gjaldeyri, dollurunum. Því er þannig háttað, að mikið af þeim vörum, sem flytja þarf inn og bráðnauðsynlegar mega teljast, svo sem kornvörum, áburði og vélum, verður bókstaflega ekki keypt nema fyrir dollara. Það má segja, að almenni gjaldeyrisskorturinn sé mál, sem Íslendingar geti ráðið einir við. Það eru skilyrði til að leysa það vandamál, ef vilji er fyrir hendi og ef menn geta orðið sammála um að gera þær ráðstafanir, sem til þess væru nauðsynlegar, og gæti þar margt komið til greina, þótt ég ræði það ekki frekar nú. En hitt er víst, að dollaraskorturinn er þess konar vandamál, að það getur ekki verið á valdi okkar Íslendinga einna að leysa það mál. Jafnvel þótt okkur tækist að bæta úr hinum almenna gjaldeyrisskorti og þótt við kæmum fjárhagskerfi okkar og utanríkisviðskiptum á heilbrigðan grundvöll þannig, að ekki væri um almennan gjaldeyrisskort að ræða, þá gæti samt sem áður verið um hinn sérstaka gjaldeyrisskort að ræða, dollaraskortinn. Hér er um að ræða þátt í alþjóðlegu vandamáli, sem er ekki á okkar valdi að leysa með innanlandsaðgerðum einum. En einmitt með Marshalláætluninni er verið að leitast við að leysa þetta mikla vandamál, dollaravandamálið, og þess vegna er alveg sérstök ástæða fyrir okkur að fagna henni. Við getum ekki vænzt þess, að nokkur utanaðkomandi aðstoð geti verið einhlít til þess að leysa hin almennu fjárhagsvandamál okkar, enda ættum við ekki að þurfa á slíkri aðstoð að halda. En það er engin minnkun að því að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi til að leysa þann vanda, sem er ekki á valdi okkar einna að leysa og er hluti af alþjóðlegu vandamáli, er ekki steðjar að okkur Íslendingum einum, heldur flestum þjóðum í Vestur-Evrópu og víðar. En hins vegar þurfum við auðvitað að athuga vel og rækilega, hvort nokkur þau skilyrði fylgi, sem geti ekki talizt aðgengileg.

Ég ætla ekki að rekja ákvæði þess samnings, sem gerður var á sínum tíma við Bandaríkin af íslenzku ríkisstj., en einungis taka fram, að ég tel engin þeirra skilyrða, sem sett voru, eins og endanlega var gengið frá samningnum, geta talizt óaðgengileg fyrir Íslendinga eða hafa í för með sér nokkra hættu fyrir fjárhagslegt og stjórnmálalegt sjálfstæði landsins. En um einstök atriði má segja, að þau séu ekki alls kostar heppilega orðuð og íslenzk ríkisstjórnarvöld hefðu vafalaust orðað þau öðruvísi, ef þau hefðu átt þess kost að orða samninginn, en ekkert af þeim atriðum getur talizt höfuðatriði.

Þá kem ég að því atriði, hvernig þátttöku Íslendinga er ætlað að verða. Það er hægt að gerast aðili að þessu samstarfi á fleiri en einn hátt. Ég tel tvímælalaust, að með tilliti til aðstöðu okkar sé eðlilegast, að þátttöku okkar verði hagað á þann veg, að landið reyni að afla sér aðstöðu til þess að selja afurðir sínar gegn dollurum. Aðstaða Íslendinga meðan á stríðinu stóð og eftir það hefur ekki verið með þeim hætti, að nauðsynlegt ætti að vera fyrir þá að verða aðnjótandi beinnar fjárhagslegrar aðstoðar. En af ástæðum, sem eru Íslendingum alveg óviðráðanlegar, er hér um að ræða sérstakt vandamál, dollaraskortinn, sem mjög er æskilegt, að hægt væri að nota þessa framkvæmd til að bæta úr, og það gæti orðið, ef Íslendingar öðluðust aðstöðu til þess að selja afurðir sínar með aðstoð þessa kerfis og fá dollaragreiðslu fyrir. Þá væri ráðið fram úr þessu sérstaka vandamáli, dollaraskortinum, án þess að Íslendingar yrðu nokkurrar beinnar aðstoðar aðnjótandi. En það má fullyrða, að flestar þjóðir, sem taka þátt í þessu samstarfi, hafa þörf fyrir meiri aðstoð, en Íslendingar.

Þá tel ég einnig vel geta komið til greina að taka lán til kaupa á æskilegum og nauðsynlegum framleiðslutækjum. Hins vegar get ég tekið undir þau ummæli hv. 1. þm. Reykv., að ég er ekki sérstaklega hrifinn af því, að Íslendingar þiggi beinlínis gjafir, af því að ég tel, að aðrar þjóðir, sem þátt taka í þessum framkvæmdum, séu betur að slíku gjafafé komnar. En þó sýnist mér geta komið til greina að veita viðtöku tækjum, sem væru notuð til þess að auka framleiðslu þjóðarinnar, þannig að það heildarmarkmið, sem samstarfinu er sett, gæti náðst betur, en ella. En ég tel undir engum kringumstæðum geta komið til greina að taka lán til kaupa á neyzluvörum, og það ætti helzt ekki að taka við neyzluvörum sem gjöf, því að slíkt er ekki lausn á neinu fjárhagsvandamáli, hvorki fyrir okkur Íslendinga eina né heldur fyrir þær þjóðir í heild, sem að þessu samstarfi standa. Í því sambandi vil ég algerlega taka undir orð hæstv. menntmrh. áðan, að það er rétt að vera vel á verði gegn því að þátttaka okkar í Marshalláætluninni verði ekki til þess, að við sláum lausn fjárhagsvandamála okkar á frest, en mér sýnist alveg sérstaklega, að lántaka til nauðsynjavörukaupa gæti orðið til þess og jafnvel líka það, að þiggja nauðsynjavörur að gjöf.

Þá er ég kominn að þriðja og síðasta atriðinu, sem ég ætla að gera að umtalsefni, þ. e. a. s. því, hvað Íslendingar hefðu getað gert, ef þeir hefðu hafnað þátttöku í Marshalláætluninni. Hér vaknar m. ö. o. sú spurning, hvaða ráð það séu, sem andstæðingar þess, að við Íslendingar tökum þátt í Marshalláætluninni, benda á til úrlausnar þeim vanda, sem þátttökunni er ætlað að leysa. Þær staðreyndir, sem við blasa, eru að hér er nú almennur gjaldeyrisskortur og enn fremur sérstakur skortur á dollurum. Fulltrúar hv. Sósfl. hafa ekki heyrzt benda á nein úrræði, sem alvarlega verði tekin, í dollaravandamálinu. Aftur á móti hafa þeir bent á úrræði, sem ætlað mun að vera lausn á hinum almenna gjaldeyrisskorti þjóðarinnar, og úrræðið er ofur einfalt. Þeir segja sem svo. Það er nógur markaður fyrir útflutningsvörur okkar, t. d. freðfiskinn. Það er nógur markaður í Austur-Evrópu fyrir allar þær útflutningsvörur okkar, sem er ekki hægt að selja með góðu móti í Vestur-Evrópu. Við getum selt meginhlutann af vörum okkar í vöruskiptum fyrir ágætt verð. Við eigum því ekki að vera að heimta dollara eða pund fyrir þær. En hér er því fyrst til að svara, að það er algerlega út í bláinn, þegar haldið er fram, að við getum fengið allar þær vörur, sem við þurfum á að halda, í vöruskiptalöndunum. Margar vörur eru ófáanlegar nema gegn dollurum, ófáanlegar nema í Bandaríkjunum, og jafnvel mjög þýðingarmiklar vörur, t. d. áburður og vélar. Það er því alveg óhætt að fullyrða, að vöruskiptaverzlunin, sem forustumenn hv. Sósfl. eru alltaf að benda á, getur ekki talizt neitt alls herjar úrræði, því að hún gæti ekki tryggt okkur allar þær vörur, sem við þurfum. Auk þess held ég, að það sé óhætt að fullyrða, eða það er a. m. k. mjög vafasamt, að það geti tekizt að fá markaði í þessum löndum fyrir allar útflutningsafurðir okkar, sérstaklega hraðfrysta fiskinn, en jafnvel þó að það væri hægt, er rétt að athuga, hvað það þýddi fyrir þjóðarbúskap Íslendinga, ef þessi leið væri farin til úrbóta. Það jafngilti nefnilega gengislækkun. Það er vitanlegt, að það veldur útflutningi íslenzkra afurða erfiðleikum, sérstaklega hvað snertir hraðfrysta fiskinn, að skipta við ýmsar gömlu viðskiptaþjóðirnar. Verðlagið er ekki nógu hátt. Það má hins vegar vel vera, að verð í clearing-löndunum reyndist hærra. En með því er ekki nema hálfsögð sagan, að bera saman útflutning til t. d. Bretlands annars vegar og clearing-landanna hins vegar. Við verðum að bera saman kaupmátt andvirðis útflutningsvörunnar, þ. e. a. s. verð þeirrar vöru, sem við mundum ráðstafa gjaldeyristekjunum til kaupa á. Ef við athugum þá hlið málsins, þá er það kunnugt, að verðlagið á þeim vörum, sem við þurfum að flytja inn, er miklu hærra í clearing-löndunum, en í löndum, sem hafa dollara- eða pundagjaldeyri. Þetta er staðreynd, sem er alkunn, en oft skortir nákvæman rökstuðning fyrir. Ég hef því athugað nokkrar vörutegundir og borið saman verðlag á þeim í dollara- eða pundagjaldeyri og í clearing-gjaldeyri. Ég valdi tvær vörutegundir, sem fluttar eru inn bæði frá Englandi og Tékkóslóvakíu. Hér er um nákvæmlega sömu vöru að ræða og gæðin eru jöfn. Annað eru galvaniseruð rör af ýmsum stærðum. Frá Englandi kostuðu hálftommu rör kr. 2.43 pr. metra, en frá Tékkóslóvakíu kostuðu þau kr. 3.88 pr. metra í heildsölu hér. Verðið var m. ö. o. 50% hærra frá Tékkóslóvakíu. Heiltommu rör kostuðu frá Englandi kr. 4,08 pr. metra, en frá Tékkóslóvakíu. kr. 6,60. Tveggja tommu rör kostuðu frá Englandi kr. 9,70 pr. metra, en frá Tékkóslóvakíu kr. 15,57 pr. metra. Verðlagið á þessari þýðingarmiklu vöru er þannig um 50% hærra frá Tékkóslóvakíu en frá Englandi. Hér er svo önnur vörutegund, líka fullkomlega sambærileg. Það er gaddavír í 50 kg rúllum. Frá Englandi kostar hann í heildsölu hér kr. 85,12 50 kg rúlla, en frá Tékkóslóvakíu. í heildsölu hér kr. 110.12 nákvæmlega eins rúlla. Enn þá eitt dæmi, um þvottaduft. Frá Englandi er verðið á rinso-þvottadufti hér í heildsölu kr. 1,86 pakkinn, en jafnmikið af ítölsku persil-þvottadufti kostar í heildsölu hér kr. 4,78. Hér er ekki um sömu gæði að ræða. Hið enska er betra, því að í því er sápa, en klór í hinu ítalska. Um þetta mætti nefna fjöldamörg fleiri dæmi, en ég læt þetta nægja til þess að renna skýrum rökum undir þá staðreynd, að verðlagið í clearing-löndunum, þ. e. verðlagið á innflutningi þaðan, er miklu hærra, en verðlagið á innflutningi frá löndum, er hafa dollara- eða pundagjaldmiðil. Með öðrum orðum, það sem skeður í clearing-viðskiptunum er það, að við seljum útflutningsvöruna við hærra verði gegn því að kaupa innflutningsvöruna hærra verði. Gjaldeyrisskortur útvegsins og útflutningsverzlunarinnar er leystur með því að láta innflutninginn, neytendurna, greiða hærra verð fyrir hina innfluttu vöru. Gjaldeyrisskorturinn er leystur með því einfalda móti, að verðlagið innanlands er látið hækka, neytendurnir látnir borga brúsann til styrktar útflutningnum. Þetta er leið, sem er þekkt undir öðru nafni. Hún er venjulega kölluð gengislækkunarleiðin. Í hverju er hún fólgin? Í því að hækka skráð verð erlendrar myntar og auka þannig tekjur útflutningsverzlunarinnar í krónum, en láta innflutninginn greiða tilsvarandi hærra verð fyrir innflutningsvöruna og selja hana svo almenningi með tilsvarandi hærra verði: Clearing-viðskiptin valda almennri verðhækkun innanlands, um leið og þau auka tekjur útflutningsatvinnuveganna, og eru því nákvæmlega hliðstæð gengislækkunarleiðinni, enda getur hver maður séð það í hendi sér, að það er enginn vandi að gera útflutningsverzlunina til þeirra landa, sem hafa dollara- eða pundgjaldmiðil, arðbæra með því að breyta gengisskráningu dollarans eða pundsins, en það mundi þýða, að innflutningsverzlunin og að lokum almenningur yrði að borga vörur frá þessum löndum þeim mun hærra verði. Á þessi atriði hefur ekki verið bent nógu rækilega í umræðunum. Þetta eru úrræðin, sem Sósfl. bendir á sem helzta ráðið í stað þátttöku okkar í Marshalláætluninni, og þau ráð jafngilda raunverulega gengislækkun. Sósfl. hefur ekki bent á neitt ráð gegn hinum sérstaka gjaldeyrisskorti, dollaraskortinum, og til úrbóta hinum almennu erfiðleikum útflutningsatvinnuveganna og útflutningsverzlunarinnar ekki annað en ráð, sem jafngildir gengislækkun. Það eru hörmuleg örlög, að það skuli reynast meginstefna Sósfl. í utanríkismálum að mæla með ráðstöfunum, sem eru í rauninni ekki annað en gengislækkun.

Sannleikurinn er sá, og með því vil ég ljúka máli mínu, að Sósfl. tekur á sig mjög þunga ábyrgð til þess að taka undir herópið, sem hljómar frá Moskvu. Það eru augljósir hagsmunir fyrir Íslendinga að gerast aðilar að Marshallsamningnum. Þar er um að ræða samstarf vestrænna þjóða. Afskiptaleysi Íslendinga af því samstarfi væri hið sama og að stofna mjög þýðingarmiklum viðskiptahagsmunum okkar í augljósa hættu. Þess vegna er það vissulega mikill ábyrgðarhluti, sem hv. Sósfl. tekur á sig með því að beita sér gegn svo augljósum hagsmunum íslenzku þjóðarinnar. En þó má vera, að það geti orðið Íslendingum til nokkurrar gæfu, að hv. Sósfl. skuli taka undir það austræna lag, sem nú er kveðið um allan heim, þ. e. ef þessi söngur hans hjálpar einhverjum Íslendingi til þess að átta sig á eðli og tilgangi þessa flokks.