25.10.1948
Sameinað þing: 7. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2014 í B-deild Alþingistíðinda. (2894)

Marshallaðstoðin

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það var auðséð, að mikils þótti við þurfa á síðasta fundi, er mál þetta var rætt. Það töluðu hér af hálfu þeirra, sem Marshallsamþykktinni fylgja, sjö hv. þm., sex fyrrverandi og núverandi ráðh. og einn hagfræðiprófessor. Allir sungu þessir hv. þm. sömu lofgerðina um þennan samning, að telja þjóðinni trú um, hvílík gæfa hljótist af honum. Ég verð að segja það, að þessi lofgerð kom óþægilega við mig. Sá eini samningur, sem við höfum gert við Bandaríki N.-Ameríku fram að þessu, Keflavíkursamningurinn, er nú þverbrotinn, og hver sá hv. þm., sem vill hafa fyrir því að kynna sér, hvernig hann er framkvæmdur, hlýtur að sjá, hvernig búið er að taka þarna hluta af Íslandi og leggja undir erlend yfirráð, sjá þar viðgangast slík lögbrot í okkar landi, að áður hafa ekki önnur eins verið framin. Ég held, með þeirri reynslu, sem við höfum af framkvæmd Keflavíkursamningsins, og með tilliti til þess, hve ríkisstj. stendur illa í ístaðinu þar, að þá hefði átt að athuga það fyrst, áður en farið var að syngja þessa lofgerð um nýjan samning við Bandaríki N-Ameríku. Þegar verið er að skera niður skólafé Íslendinga, þá er verið að byggja skóla á Keflavíkurflugvellinum. Handa hverjum? Þegar verið er að neita Íslendingum um nauðsynjar, þá er verið að gefa Ameríkönum dollara með því að heimta hvorki skatta né tolla af þeim. Svona lofgerð minnir mann á þá tíma, þegar þm. voru svo djúpt beygðir á 17. öldinni. að þeir voru látnir samþ. lofgerð um einokunarkaupmennina. sem beittu þá mestri hörku.

Ég ætla nú að taka fyrir það, sem þessir hv. þm. og ráðh. hafa verið að segja um þessi mál, og byrja á ræðu hæstv. utanrrh., vegna þess að hann sýndi helzt viðleitni til þess að bera af sér nokkrar sakir, sem ég hafði sérstaklega á hann borið. Hæstv. utanrrh. hafði hér fyrst og fremst orð fyrir þeim, sem andmæltu þeim ásökunum af minni hálfu, að ekki væri að neinu leyti sannað, að Íslendingum væru tryggðir afkomumöguleikar með þessum samningi. Hann gerði ekki tilraun til að sanna slíkt. Hann sagði, að sendimönnum Íslands á Parísarráðstefnunni hefði verið fyrirskipað að benda á, hverjir væru hagsmunir Íslands af sjávarútvegi og fiskframleiðslu. Af því varð enginn árangur. Ekkert af því, sem ég hafði sýnt fram á, hve hættulegt væri málefnum Íslands, gat hann hrakið. Ég hafði sýnt fram á, að afkomuöryggi Íslendinga væri ekki tryggt með samningum og að markaðir fyrir fiskframleiðslu okkar væru ekki öruggari eða betri en áður, og það gat hann heldur ekki hrakið. Þegar ég benti á það, að svo illa væri nú komið, að ríkisstj. hefði gripið til þess að láta mikið af vörum okkar upp í eins konar gjafafé til þess að losna við þær og að skemmdir hefðu verið fyrir okkur markaðir, sem skapazt hefðu í tíð nýsköpunarstj., þá gat hann heldur ekki svarað fyrir það. Það stendur eftir að sanna höfuðatriðið og það, sem allt byggðist á í ræðu hæstv. utanrrh. að með þátttöku okkar í efnahagssamvinnunni séu að einhverju leyti tryggðir afkomumöguleikar Íslendinga.

Ég vil svo minnast á það, sem hæstv. utanrrh.- hélt fram og beindi til mín. Í fyrsta lagi sagði hann, að ég hefði viljað slíta verzlunarsambandið við löndin í Vestur-Evrópu, en hæstv. utanrrh. og aðrir, sem hafa haldið þessu fram, hafa ekki haft hér fram að færa nokkurn skapaðan hlut til stuðnings máli sinu. Ég hef hvað eftir annað reynt að vekja athygli hv. alþm. á því, hvers konar pólitík ég áliti heppilegast, að Íslendingar rækju, þegar um er að ræða utanríkisverzlunarviðskipti. Ég hef aldrei viljað slíta verzlunartengslin við Vestur-Evrópuríkin og enga till. gert um neitt í þá átt. Mér er það ljóst, og ég hef lagt áherzlu á það, að flest þessi lönd, og sérstaklega þau, sem liggja að Atlantshafi, séu 1önd, sem eðlilega séu í samkeppni við Íslendinga um fiskframleiðslu. Þetta eru lönd, sem öldum saman hafa stundað fiskveiðar á Íslandsmiðum. Þetta hefur enginn getað hrakið. Það, sem ég hef hins vegar sagt viðvíkjandi verzlunarsamböndum við Austur-Evrópuþjóðirnar, er þetta: Á árinu 1947 lagði ég alveg sérstaka áherzlu á það, sem ég áleit, að þyrfti að gera. Ég hafði áður, meðan nýsköpunarstj. var við völd, fengið tækifæri til að nokkru leyti að sýna, hvað hægt væri að gera í þessu efni, og sannað með staðreyndum, að hægt væri að opna Íslendingum stórkostlega markaði í Austur-Evrópu. Ég hef unnið að því sjálfur að opna markaði í Rússlandi og Tékkóslóvakíu. Þá gátum við, sem höfðum með stjórn landsins að gera, sannað það, hve gífurlega markaði var hægt að opna í þessum löndum, þá hefði verið hægt með fyrir fram samningum að tryggja sölu á 40% af útflutningi Íslands til þessara landa. Eftir að núverandi stj. tók við völdum, reyndi ég hvort tveggja, að vara við því að eyðileggja þessa markaði og í þeim greinum, sem ég hef ritað um þessi mál, hef ég orðað mínar till. á sama hátt, sem sé, að ég áliti, að mögulegt væri að útvega markaði fyrir allt að helming af útflutningsafurðum okkar í Austur-Evrópu. Þessa staðhæfingu álit ég studda með þeim samningi, sem gerður var meðan nýsköpunarstj. var við völd. Í maí 1947, þegar frv. um fjárhagsráð var til umræðu á Alþ., gerði ég brtt. við það frv. um, að fjárhagsráði yrði lagt á herðar að tryggja markaði í þessum löndum fyrir Íslendinga. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa hérna upp b-lið 3. málsgr. brtt.:

„Fjárhagsráð skal við samningu og framkvæmd útflutnings- og innflutningsáætlana sinna alveg sérstaklega stefna að því að afstýra því, að atvinnulíf landsmanna verði fyrir kreppum, markaðsvandræðum og verðhruni, en beita sér fyrir því, að afkomuöryggi landsmanna verði tryggt með útvegun öruggra framtíðarmarkaða, m. a. með því, að samið verði til nokkurra ára í senn um sölu afurða og kaup erlendra vara.“

Og í grg. fyrir brtt, í nál. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Verzlunarpólitík landsins út á við verður líka að vera slík, að kreppa eða markaðsörðugleikar geti ekki teflt atvinnulífinu í tvísýnu. Þess vegna miða brtt. við 3. gr. að því að tryggja framkvæmd áætlunarbúskapar á sviði utanríkisverzlunarinnar og föst, varanleg viðskipti við trygg markaðslönd, m. a. á grundvelli viðskiptasamninga við einstök lönd til tveggja og þriggja ára í senn. Þess verðum við Íslendingar að minnast, er vér nú ætlum að byggja upp stórrekstur í sjávarútvegi og iðnaði, að fái ægilegar viðskiptakreppur auðvaldsheimsins að koma við áhrifum sínum fullum og óskoruðum hér á landi, þá geta þær feykt þessari nýbyggingu vorri um koll. Þess vegna er það eitt skilyrði þess að glæsilegar framtíðarvonir vorar um nýbyggingu verði að veruleika, að verulegur hluti utanríkisviðskipta vorra sé við lönd, sem, sökum þess að þau hafa fullkominn áætlunarbúskap, eru ónæm fyrir viðskiptakreppum.“

Þessi till. mín, greinargerð og rökstuðningur fékk ekki náð fyrir augum hæstv. ríkisstj. og brtt. voru kolfelldar eins og aðrar till., sem ég hafði lagt fram. Það sumar fór ég út á vegum Alþingis, og á eftir til Tékkóslóvakíu, m. a.: til að kanna, hverjir möguleikar mundu vera þar fyrir sölu á íslenzkum afurðum. Ég hafði séð það í blöðum erlendis, að ríkisstjórnirnar í hinum nýju sósíalistísku löndum væru í þann veginn að gera samninga sín á milli og við aðrar þjóðir til þriggja og fjögurra ára um milliríkjaviðskipti. Þegar ég kom heim, skrifaði ég grein í Þjóðviljann og lagði sérstaka áherzlu á það í útvarpserindi, sem hæstv. utanrrh. hefur gert að umtalsefni hér, að nú yrðum við Íslendingar að grípa tækifærið, nú væri nauðsynlegt að gera samninga við þessar þjóðir, Pólland. og Tékkóslóvakía væru að taka ákvarðanir um, hvernig þau einbeittu sinni uppbyggingu, hvort þau ykju skipaflota sinn og ætluðu að afla sjálf fisksins eða tækju upp stórfelld milliríkjaviðskipti, t. d. við okkur Íslendinga. Ég lagði áherzlu á það, að það yrði að grípa tækifærið þá þegar og að það mundi verða stórtjón fyrir okkur, ef því yrði sleppt. Þau lönd, sem hafa áætlunarbúskap, taka á ákveðnum tímabilum sínar ákvarðanir um það, hvernig þau eigi að haga þjóðarbúskapnum. Þau leggja „plön“ til þriggja og fjögurra ára í höfuðdráttum, og þar með er þeirra nýbygging ákvörðuð. Þess vegna var um að gera að grípa tækifærið og gera ráðstafanir af okkar hálfu. Hæstv. ríkisstj. sinnti þessu ekki. Hún lét þetta fram hjá sér fara: Svo kemur hæstv. utanrrh. og kvartar yfir því, að Pólverjar séu farnir að byggja skipaflota og séu jafnvel farnir að fala kaup á íslenzkum togurum. Hverjum er hér um að kenna? Það er sama skeytingarleysið og kemur fram í því að draga í hálft annað ár að semja um smíði 10 togara, með þeim árangri, að hvert skip verður millj. kr. dýrara og fæst ekki fyrr en tveim árum seinna og tapa þannig gjaldeyri, sem skiptir tugum millj. kr. Það er óráðþægni og hik, sem einkennir ríkisstj. í þessum málum, þessi pólitík, að sleppa tækifærunum, þegar þau eru fyrir hendi, en vilja grípa þau, þegar það er orðið of seint. Það hefur greinilega komið fram í allri afstöðu, sem ég hef tekið um verzlunarpólitík, að okkur bæri að hafa verzlunarviðskipti bæði við Vestur- og Austur-Evrópu, bæði vestan og austan járntjaldsins, eins og hæstv. utanrrh. vill orða það. Það er algerlega rangt, að ég hafi lagt sérstaklega áherzlu á að verzla eingöngu við Austur-Evrópuþjóðirnar. En hitt hef ég ekki farið í launkofa með, að ég álít tryggara að geta náð í markaði í þeim löndum, þar sem engin markaðskreppa verður. Það má vera, að hæstv. utanrrh. eigi eftir að minnast þeirra orða betur, ef svo skyldi fara, sem ekki er ótrúlegt, þar sem auðvaldsskipulag er, að markaðskreppa skelli yfir, og það áður en mörg ár eru liðin, — og að þá fyrst sæi hann, hvað tapazt hefur með því að nota ekki tækifærið í tíma og skipta við þau lönd, þar sem engin markaðskreppa er til.

Þá sagði hæstv. utanrrh., að með því að neita að taka þátt í efnahagssamvinnunni væri verið að neita viðskiptum við þessi lönd, sem eru þátttakendur í henni. Þetta er alveg ósannað mál. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki reynt að færa sannanir fyrir því, að það að neita að taka þátt í efnahagssamvinnunni mundi þýða, að við værum útilokaðir frá verzlunarviðskiptum við þessar þjóðir. Ég skora á hæstv. ríkisstj. að gefa upplýsingar um það, hvort það hafi legið fyrir, þegar Íslandi var boðin þátttaka í þessu samstarfi, að svo framarlega sem við hefðum neitað, þá hefði verið sett á okkur viðskiptabann af hálfu þessara landa, svo framarlega sem við hefðum ekki tekið þátt í því, þá hefðum við verið útilokuð frá viðskiptum við þessi lönd. Ef um slíkt er að ræða, þá er þar um nýtt atriði að ræða, viðskiptakúgun. Ég skora á hæstv. ríkisstj. að svara því skýrt og skorinort, hvort um einhverja slíka úrslitakosti af hálfu Bandaríkjanna hafi verið að ræða. Ég trúi því ekki, að þau hafi sett slíka úrslitakosti en ef þau hafa gert það, er það mál, sem á að koma fram fyrir Alþingi Íslendinga. Þegar okkur var boðið að taka þátt í efnahagssamvinnu Norðurálfuþjóðanna; gátum við svarað því kurteislega og sagt þessum þjóðum, að við vildum hafa við þær verzlunarviðskipti og vera þeim hjálplegir með afhendingu á vörum, eins og við höfðum verið áður. Það þurfti engan veginn að svara slíkum tilmælum með því að kalla sendiherra okkar í London heim. Þvert á móti. Við gátum sagt við þessar þjóðir, að við vildum hafa við þær samvinnu og halda verzlunarsamböndunum við þær. Og ég er viss um, að ef þarna væri vel haldið á spilunum, mundu Bandaríkin og þessar þjóðir halda áfram sínum miklu viðskiptum við Ísland, eins og við höfum nú samkv. Marshallsamningnum, þó að við hefðum ekki gert þennan samning, því að þessi ríki vilja hafa vináttu við Íslendinga. Það er engum vafa bundið, að hvaða ríkisstj. sem á Íslandi situr getur fengið Bandaríki Ameríku til að taka tillit til óska Íslendinga án þess að ganga þeim á hönd. Ég veit, að menn skilja, hvað það er, sem rekur þessar ríkisstj. til þess að sýna Íslendingum ekki neina óvináttu. Þess vegna liggur ekkert fyrir um það, að við þurfum að neita verzlunarviðskiptum við þessar þjóðir, þó að við hefðum neitað að taka þátt í þessari samvinnu: Og ég veit ekki betur en að fjöldamargar þjóðir haldi viðskiptum við þessar þjóðir, þó að þær séu ekki sjálfar þátttakendur í þessum samningi. Og ég veit ekki betur, en að þessar þjóðir, sem utan við þessi samtök standa njóti stundum betri kjara af hálfu Bandaríkjanna en lönd, sem eru í þeim. Þess vegna er það, sem hæstv. utanrrh. segir, að einhver hafi viljað neita Bretum um að fá fisk, sagt út í loftið. Þetta eru viðbárur, sagðar út í loftið, varnir, sem eru örþrifaráð þess, er finnur, að hann er að verja vondan málstað og getur ekki varið hann.

Þá minntist hæstv. utanrrh. á það, að ég hefði verið að lesa upp blaðaskrif viðvíkjandi því, hvernig líta muni út með fisksölu í Englandi, þegar fram í sækir. Ég gerði það ekki hvað aðalatriðið snertir. Ég las aðeins úr skýrslu frá efnahagssamvinnustofnun Norðurálfuþjóðanna, þann hluta úr skýrslu hennar, sem fjallar um fiskveiðar. Hvernig stendur á því, að þm. er ekki veittur aðgangur að slíkum skjölum? Hvers vegna sér hæstv. utanrrh. ekki um, að þýtt sé fyrir þm. og lagt fyrir þá allt það, sem varðar okkar hagsmunamál allra mest? Hvers vegna leyfir hæstv. ríkisstj. sér að reyna að dylja þetta, og hvers vegna leyfir hæstv. utanrrh. sér að segja, að það séu blaðaskrif, sem þarna sé um að ræða? Ég las líka upp úr norskum fiskveiðiblöðum, en aðalatriðið, sem ég byggði á til þess að sýna, í hvert öngþveiti Marshalláætlunin stefnir efnahagsmálum Íslendinga, er skýrsla frá þessari ráðstefnu. Hvers vegna hefur stj. leynt þm. þessu? Stj. veit vel, að þm. hafa ekki aðgang að þessum skjölum, þ. e. engir aðrir en þeir, sem sæti eiga í utanrmn. Og mér finnst, ef utanrrh. vill sjá til þess, að þessi mál séu rædd af þekkingu og viti í þinginu, að hann eigi þá að sjá um, að þessi skýrsla liggi á borðum manna, svo að þm. geti fengið að vita, hvað sjálf alþjóðastofnunin segir, en hæstv. utanrrh. reynir að breiða yfir þetta, hvað þarna er í húfi. Hann huggar sig við það, að kannske verði ekki framkvæmt fyrr, en eftir næstu kosningar það, sem stendur í þessari áætlun. En þannig dugir ekki að hugsa fyrir Alþingi, sem á að ráða fyrir íslenzku þjóðina nú og sjá við þeim hættum, sem augljósar eru fram undan, eins og staðfest er í skýrslu frá sjálfri efnahagsstofnuninni. Og það er hart, að utanrrh., sem er þjónn þingsins, skuli ekki sjá um, að þm. fái þekkingu á þeim málum, sem eru hans sérmál, og skuli svo, þegar aðrir koma með það, reyna að dylja þingið þess, hvernig ástandið er. Þegar opinber nefnd, sem Ísland tekur þátt í, lýsir málinu svona, er tilefni til þess, að Alþingi Íslendinga fái að vita það og geri sínar ráðstafanir. — Því fer svo fjarri, að hæstv. utanrrh. hafi með einu orði reynt að hrekja það, sem ég hef sagt í sambandi við þessa merku skýrslu frá efnahagssamvinnustofnuninni. Hann veit sem er, að í þessu felst sá dómur, sem ekki verður hrundið.

Þá kom hæstv. utanrrh. að starfi sinu viðvíkjandi verzlunar- og viðskiptasamningum við önnur ríki, og skal ég taka þá fyrir, lið fyrir lið. Hann reyndi að verja sig og sagðist hafa gert ósköp mikið og hefðu orðið framfarir frá því, sem áður hefði verið í þessum málum. Fyrst ætla ég að minnast á það, að nýsköpunarstj. var búin að sanna, hve miklir viðskiptamöguleikar voru við lönd í Austur-Evrópu. Ég lagði á það áherzlu 1947, að teknir yrðu upp samningar til 3–4 ára við stjórnirnar í þessum löndum, vegna þess að þessar stjórnir hafa allar áætlunarbúskap. Ríkisstj. bar þess vegna að halda áfram þeirri nýbreytni, sem nýsköpunarstj. hafði byrjað á, en gera það í stærri stíl. Það lá fyrir hæstv. ríkisstj., á grundvelli þeirrar byrjunar sem nýsköpunarstj. hafði hafið, að taka upp samninga við þessi lönd, auka þessi viðskipti mikið og gera þau tryggari fyrir Íslendinga en áður, því að flest þessi lönd voru að byrja að semja sínar áætlanir. Ríkisstj. lét þetta undir höfuð leggjast. Við skulum nú hins vegar athuga hvað hún hefur gert, í stað þess að semja strax til lengri tíma. Hún gerði ekkert í þá átt. Hæstv. utanrrh. talaði um Pólland, sagði, að þar hefði orðið framför. Það er rétt, að selt var meira á síðasta ári til Póllands, en áður. Hæstv. utanrrh. er kunnugt um ástæðuna til þess, að ekki var selt til Póllands meðan nýsköpunarstjórnin sat að völdum, en hæstv. utanrrh. reyndi að koma þessu á fyrrv. atvmrh. og sagði, að hann hefði farið með sölumálin og ekki dugað til þess frekar en annars. Það var utanrrh. í þeirri stj., eins og núv. hæstv. utanrrh., sem fór með þessi sölumál, og ástandið var þannig þá, að vegna þess að England og Bandaríkin litu Póllandsstjórn heldur illu auga, var viðskiptabann við Pólland af þeirra hálfu, og það bann virtist hafa það mikil áhrif hér heima, að aldrei fengust teknir upp hagstæðir samningar við Pólland á þeim tíma. — Hrossamarkaðurinn í Póllandi hefur rekið á eftir því, að eitthvað yrði reynt að gera, en ég er mjög tortrygginn gagnvart skýrslu þeirri, sem hæstv. utanrrh. hefur gefið um samninginn við Pólland. Ég sé ekki ástæðu til að ætla, að reynt hafi verið að koma þessum viðskiptum á af heilum hug. Ég hef á utanríkismálanefndarfundi árangurslaust beðið um skýrslu sendiherrans í Varsjá um samninginn, sem fram fór í fyrra sumar. En svo mikið veit ég, að þegar við vorum að gera þá samninga um miðjan júlí 1947, leið upp undir það heill mánuður áður en svarað var skeytum, sem send voru frá sendinefndinni í Varsjá, þannig að í millitíðinni eyðilagðist mikið af þeim möguleikum, sem hefðu verið fyrir hendi, ef samið hefði verið í júlí. Ég veit, að það hefur verið unnið af ríkisstj. með hangandi hendi að þessum samningum, og ríkisstj. reynir að dylja, hvernig þetta hefur verið gert. — Í samninganefnd utanríkisviðskipta var enginn fulltrúi frá stjórnarandstöðunni. Það lítið, sem selt hefur verið til Póllands fram að þessu, er það minnsta, sem hægt hefur verið að komast af með. Og ég er hræddur um, að áður en hæstv. utanrrh. getur ætlazt til þess, að Alþingi trúi staðhæfingu hans, hans góða vilja að verzla við Pólland, verði hann að leggja skýrsluna frá þessari sendinefnd fyrir Alþingi, og skora ég á hann að gera það.

Þá vík ég að Tékkóslóvakíu. Hæstv. utanrrh. sýndi líka með tölum, hvernig viðskipti hefðu aukizt við Tékkóslóvakíu. Það er rétt. Hvers eðlis eru þau viðskipti? Viðskiptin við Tékkóslóvakíu hafa aukizt fyrst og fremst vegna þess, að Tékkóslóvakía hefur reynzt vera sá markaður, sem borgar bezt fyrir þá vöru, sem við eigum erfiðast með að losna við, þ. e. hraðfrysta fiskinn. Hefur hún borgað ábyrgðarverð fyrir hann og keypt mikið af honum, svo að það hefði orðið erfitt fyrir ríkisstj. að slíta verzlunarviðskiptum við Tékkóslóvakíu. Hins vegar er því ekki að neita, að það virðist hafa verið úlfúð ríkjandi hjá hæstv. ráðh. til þessa lands, og ekki gagnvart neinu stóru viðskiptalandi okkar öðru, en Sovét-Rússlandi hefur sú illgirni komið jafnberlega fram, að vilja slíta verzlunarviðskiptunum. Hvernig er það með síldarmjölið? Á sama tíma og Tékkóslóvakía vildi kaupa síldarmjölið fyrir 45 £ tonnið, seldi hæstv. utanrrh. síldarmjöl til Englands fyrir 31 £ tonnið. Þetta er viljinn til þess að selja til Tékkóslóvakíu þá vöru, sem hæstv. utanrrh. er í vandræðum með að losna við, en Tékkóslóvakía leggur mjög mikla áherzlu á að fá. Þannig er viðskiptum við þetta land haldið niðri. En vegna þess, hve viðskiptamöguleikarnir eru miklir, kemst ekki hæstv. utanrrh. hjá því að láta viðskiptin við þetta land aukast. Það, að viðskiptin hafa aukizt, sýnir okkur bezt, hve gífurlega hefði verið hægt að selja til þessa lands; ef vilji hefði þá verið fyrir hendi hjá ríkisstj. Meira að segja svo langt hefur gengið þessi andúð ríkisstj. að selja til þessa lands, að Tékkóslóvakía hefur orðið að kaupa íslenzka síldarolíu gegnum Svía og Hollendinga. Þetta er viljinn að verzla við þessi lönd. Það er allt í lagi með það að láta sænska og hollenzka braskara hrifsa til sín mikinn milliliðagróða á kostnað íslenzkra útgerðarmanna og Tékkóslóvakíu til mikillar óþægðar og óhagræðis!

Hvernig er svo með þau lönd, þar sem nýsköpunarstj. hafði ekki unnizt tími til að opna nýja markaði fyrir Íslendinga, svo sem Rúmeníu og Balkanlöndin? Þar hefur ríksstj. ekki gert nokkurn skapaðan hlut, en hefur látið ganga úr höndum sér alla markaðsmöguleika á þeim slóðum.

Og svo kemur röðin að Rússlandi, sem Íslendingar höfðu gert stærsta viðskiptasamninginn við af þessum löndum árið 1947, sem, ef hann hefði verið samþykktur, hefði þýtt það, að við hefðum selt Rússum 1/3 af framleiðslu okkar. Hvernig hefur hæstv. utanrrh. reynt að halda þessum miklu viðskiptum? Ég veit ekki, hvort hæstv. utanrrh. er ljóst, hvað hann er að gera, þegar hann segist vera að koma á viðskiptum við önnur lönd, eða hvort hann vegna flokksofstækis hér heima gáir ekki að sér, hvað hann segir og gerir í utanríkismálum Íslands. Hæstv. utanrrh. er mjög dugandi bardagamaður í flokksdeilum hér heima á Íslandi, en það verður að minna hann á, að hann er ekki í flokksdeilum við okkur sósíalista, þegar hann er að hefja viðskipti við stórþjóðir, og hann verður að gera svo vel, ef hann vill hafa utanríkismálin í höndum sem venjulegur utanrrh., að haga sér öðruvísi, en hann hefur gert í þessu máli. Hæstv. ráðh. reyndi að telja okkur trú um, að hann hefði reynt það, sem hann hefði getað, til þess að hafa viðskipti við Sovét-Rússland. En hvað gerir hæstv. ráðh., þegar hann segist vilja koma viðskiptum á? Hann kallar sendiherra sinn burt frá Moskva. Í öllum milliríkjaviðskiptum þýðir það að kalla sendiherra heim tilkynningu viðkomandi ríkisstj. um það, að hún sé óánægð með hina ríkisstj. og vilji sem minnst við hana tala, þó að hún slíti ekki stjórnmálasambandi við hana og láti einhvern ábyrgðarlausan mann sendiherrans koma í hans stað. Það, sem því hæstv. utanrrh. hefur gert með því að kalla sendiherra sinn burt frá Moskva, er að tilkynna rússnesku stjórninni, að hann vilji ekki hafa með hana að gera. Ég veit ekki, hvort hæstv. utanrrh. hefur gert sér þetta ljóst. — Ég hef heyrt, að rússneski sendiherrann sé farinn héðan úr Reykjavík, en hann mun hafa verið hér alllengi eftir að sendiherrann í Moskvu var látinn fara þaðan. Hvort það er svona viðeigandi svar, veit ég ekki. Ég veit, að hæstv. utanrrh. er ákaflega kænn og slóttugur lögfræðingur, og veit, að honum er manna bezt trúandi til þess að finna upp svona ráð, eins og að kalla sendiherrann í Moskva burt, til þess að hindra viðskipti við Sovét-Rússland og segja svo við íslenzku þjóðina: Við erum alltaf að skrifa Rússlandsstjórn, en þeir vilja ekki sinna því. — Hæstv. utanrrh. hefur þarna tilkynnt, að hann vilji sem minnst við þessa stjórn tala. Ég veit ekki til þess, að hæstv. utanrrh. hafi kvatt sendiherra Íslands burt úr Washington, eða yfirleitt sendiherra nokkurra annarra ríkja. Þess hefur verið gætt að sýna þessum stjórnarvöldum fullkomna virðingu að þessu leyti. Og ég veit ekki betur en í Noregi sitji sendiherra, sem aldrei hreyfir sig þaðan, þó að hann hafi ekkert að gera. En í sambandi við það ríki, þar sem um er að ræða þá stærstu viðskiptasamninga, sem Ísland hefur nokkru sinni gert, þá er farið svona að. Það er þetta, sem mundi vera kallað ögrun til þess að framkvæma verzlunarsamvinnuslit á þann hátt, að þjóðin hérna heima tæki sem minnst eftir. Hæstv. utanrrh. ætti því síður að gera annað eins og þetta, þar sem hann líklega veit, að Sovétstjórnin er einmitt ákaflega viðkvæm fyrir öllu svona löguðu. Hún heldur ákaflega sterkt við allt, sem við kemur diplomatískum viðskiptum. Hæstv. utanrrh. veit til dæmis, hvað menn eins og Churchill og Lloyd George lögðu mikið upp úr því, þegar Chamberlainstjórnin sendi til viðræðna við Rússa árið 1939 aðeins einn skrifstofustjóra sinn, í stað þess að senda einhvern af sínum ráðherrum. Svona hlutir, sem okkur Íslendingum finnast kannske smávægilegir, af því að við erum óvanir öllum þvílíkum diplomatískum reglum, hafa mikla þýðingu í alþjóðavíðskiptum, og Sovétstjórnin er alveg sérstaklega viðkvæm fyrir slíku. Það er ef til vill af því, að hún er gömul byltingarstjórn, sem var lengi að vinna sér viðurkenningu hinna ýmsu ríkja, - um það veit ég raunar ekki, en hitt veit ég, að hæstv. utanrrh. kann þá siði, sem gilda í viðskiptum þjóða í milli, og hagar sér samkvæmt þeim gagnvart Bretum og Bandaríkjamönnum. Og hæstv. utanrrh. verður að muna það, að sem utanríkisráðherra er hann ráðherra Íslands og verður fyrst og fremst að gæta hagsmuna þess, og hann verður að gera sér ljóst, að með glópsku sinni getur hann valdið þjóðinni stórtjóni, og hann verður að vera minnugur þess, að það er ekki pólitískt ofstæki, heldur hagsmunir þjóðarinnar, sem eiga að ráða úrslitum mála. Ég álít, að hæstv. utanrrh. hafi eyðilagt samninga við Rússa og að hann hafi með aðgerðum sínum, sem ég hef lýst, raunverulega lýst yfir því, að hann vilji ekki við þá tala. Hins vegar álit ég, að enn séu möguleikar til þess að skapa viðskipti við Sovétríkin, þó að þeim möguleikum hafi stórlega verið spillt fyrir tilstilli hæstv. utanrrh.

Þannig var það þá um viðskiptin við Austur-Evrópu, að hæstv. utanrrh. hefur ýmist ekki getað komið í veg fyrir austurviðskipti, eins og við Pólland og Tékkóslóvakíu, en þó séð fyrir, að þau yrðu ekki nægilega mikil, eða þá að hann hefur alveg stoppað viðskiptin, eins og við Sovét-Rússland, eða hann hefur svikizt um að leita nýrra markaða, eins og til dæmis í Ungverjalandi, Rúmeníu og Balkanlöndunum. Allt, sem hann vildi halda fram um frammistöðu sína í þessum efnum, er því rangt, og aðgerðir hans hafa þegar bakað þjóðinni stórtjón, sem verður því tilfinnanlegra sem lengra líður og skapar blátt áfram ægilegt ástand, ef markaðskreppur skella yfir auðvaldsheiminn.

Hæstv. utanrrh. minntist á, að Rússar ætluðu sér að auka fiskiflotann. Ég er ekki hræddur við þá aukningu meðan hún er ekki meiri en hæstv. utanrrh. lýsti, því að 150 togara aukning hjá stórri þjóð er ekki mikil, til dæmis borið saman við þá aukningu, sem orðið hefur á okkar togaraflota. Það er því alveg ástæðulaust að óttast þetta.

Þá minntist hæstv. utanrrh. á fyrirtæki, sem við þekkjum báðir og höfum gaman af að tala um og þetta fyrirtæki var Unilever, og það má mikið vera, ef nafn þessa fyrirtækis stendur ekki eftir svona 2 ár í sama ljóma hér á Íslandi og nafn hörmangarafélagsins í gamla daga. Hæstv. utanrrh. sagði, að Unilever væri „general agent“ fyrir ríkisstjórn Tékka, og skal ég upplýsa þetta og rekja það, hvernig á því stendur. Þegar við Pétur Benediktsson vorum í Prag á vegum nýsköpunarstj., þá töluðum við við ríkisstj. Tékkóslóvakíu um þær vörur, sem hún mundi vilja kaupa, og alveg sérstaklega síldarolíu. Ástandið var þá þannig í Tékkóslóvakíu, að stj. hafði þjóðnýtt allar herzluverksmiðjur í landinu, en þær höfðu áður verið í eign Georgs Schiehts, þýzk-tékknesks hrings, sem var hluti úr Unilecer. Stj. hafði sem sagt þjóðnýtt verksmiðjurnar, og strax að stríðinu loknu komu fulltrúar Unilever frá Englandi til Prag og sögðu ríkisstj. Tékkóslóvakíu, að ef hún gengi ekki að öllum skilyrðum þeirra varðandi skaðabótagreiðslur fyrir verksmiðjurnar, þá mundi fyrirtækið beita sér fyrir banni á sölu feiti til Tékkóslóvakíu. En við lofuðum að selja Tékkum síldarolíu, og þeir urðu því mjög fegnir. Við spurðum um verð, og þeir svöruðu: Nefnið þið verðið, við borgum. Við nefndum mjög hátt verð, og þeir féllust umsvifalaust á það. Þeir vildu fá olíuna, hvað sem hún kostaði. Feitiskorturinn var tilfinnanlegur, og þeir vissu, að Unilever ætlaði að setja bann á þá. Þetta dæmi nægir til að sýna ykkur það, að við sem feitiframleiðendur, því að við erum miklir feitiframleiðendur, jafnvel á heimsmælikvarða, ættum að selja feitina beint til viðskiptalanda okkar og taka sjálfir gróðann af þeim viðskiptum, en láta ekki auðhringa vera milliliði fyrir okkur og hirða gróðann eins og fyrir stríðið, þegar Unilever átti allar herzluverksmiðjur í Evrópu. Því lögðum við Pétur Benediktsson til að selja Tékkum síldarolíu og fengum það fram. En hver var afleiðingin af því, að við gátum selt Tékkum síldarolíu með stórhækkuðu verði? Hver var afleiðingin af því, að við seldum olíuna beint til Tékkóslóvakíu fram hjá Unilever? Afleiðingin var sú, að Unilever beitti sér fyrir því, að bannað yrði að selja, smjörlíkisolíu til Íslands. Ef hæstv. utanrrh. vill lesa upp skjöl stjórnarráðsins fyrir þingheimi, þá mun það heyrast, að Combined foodboard, sem er matvælaúthlutunarnefnd Breta og Bandaríkjanna, lagði bann við því að selja smjörlíkisolíu til Íslands, og í bréfi frá Thor Thors sendiherra í Washington segir, að það sé vegna þess, að Íslendingar selji síldarolíu til Tékkóslóvakíu. Þetta var ástæðan til þess, að smjörlíkisolía fékkst ekki til landsins á fyrra hluta ársins 1946. Vegna þess, að við reyndum að losna úr klóm þessa auðhrings, vorum við beittir refsiaðgerðum. Ég hafði afrit af þessum bréfum, og haustið 1946, þegar Keflavíkursamningurinn var á dagskrá, hafði ég hugsað mér að lesa þetta upp til þess að sýna, hvers við mættum vænta af Bandaríkjunum, en tveim dögum áður en það yrði, þá barst skeyti frá Washington, þar sem sagði, að þessu banni væri aflétt. Bandaríkin hafa víst séð sitt óvænna í þessu, efni, þegar þeim lá á að fá hér þýðingarmikil ítök. Meðan nýsköpunarstj. sat að völdum, seldum við síldarolíuna beint til viðskiptalandanna og verðið margfaldaðist. Í tíð núverandi hæstv. ríkisstj. erum við aftur komnir undir ok þessara hörmangara nútímans fyrir aðgerðir hæstv. utanrrh., sem lætur Unilever fá alla olíuna, svo að hann geti þrýst verðinu niður og stórgrætt á henni. Ég veit ekki af hverju þessi þjónusta hæstv. utanrrh. við Unilever stafar. Ef hann þorir, ætti hann að upplýsa það fyrir þingheimi. Og það er staðreynd, að allan tímann, sem við vorum hernumin, þá hirðir Unilever alla okkar síldarolíu og ákveður verðið 38 sterlingspund pr. tonn. Hv. þm. mun þó ljóst, að ekki hefur síður legið á að fá feitina meðan á stríðinu stóð heldur en eftir stríðið. En á þessu verði urðum við að láta olíuna. Hún var tekin af okkúr með hervaldi. Svo þegar við urðum frjálsir gerða okkar, þá gátum við selt olíuna fyrir hvorki meira né minna en 148 sterlingspund tonnið. Hækkunin er 2.700 kr. á hvert tonn. Það er því ekkert smáræði, sem Unilever hefur rænt af okkur og rænir okkur og það fyrir þjónustu sjálfrar ríkisstj. Það eru einmitt slíkar leppstjórnir, sem valda því, að okkur blæðir. Og nú selur hæstv. utanrrh. Unilever olíuna á 95 sterlingspund pr. tonn. Lengra hefur hann ekki komizt enn, en við sjáum, hvað verður. Þetta er sama ástand eins og þegar danskir kaupmenn héldu hér uppi einokun, svo að landsmenn voru neyddir til að láta þá hafa vörur sínar fyrir miklu lægra verð en þeir gátu fengið í frjálsum viðskiptum.

Ég hef þá skýrt frá því, hvers vegna Unilever er í dag „general agent“ fyrir Tékkóslóvakíustjórn. Það er vegna þess, að hæstv. utanrrh. vill ekki selja síldarolíuna til Tékkóslóvakíu, heldur afhenda Unilever hana til að græða á. Það er skiljanlegt, að þeir menn, sem þykjast vera hlynntir frjálsri verzlun, vilji sem minnst um hana tala, þegar svona er á málunum haldið. Aðferðir hæstv. utanrrh. miða að því að halda okkur undir því oki, sem við þurftum nauðsynlega að losna undan. Kaupmannahöfn arðrændi okkur í gamla daga. Unilever sér um það núna.

Þá talaði hæstv. utanrrh. um lánið til síldariðnaðarins. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki enn fengizt til að svara því, hvort hún hafi reynt það, sem hægt var, til þess að fá það lán í alþjóðabankanum eða alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þar sem við þó eigum 2 milljónir dollara, og meðan hæstv. ríkisstj. þorir ekki að gera grein fyrir þessu, þá lít ég svo á, að hún hafi svikizt um að gera það, sem Alþingi fól henni, sem sé að reyna að fá þetta lán á öðrum hvorum þessum stað. Og ég skora enn á hæstv. ríkisstj. að skýra frá því, ef hún hefur reynt að fá lánið einhvern veginn öðruvísi, en í gegnum Marshallaðstoðina. Hæstv. ríkisstj. minntist heldur ekki á, hvers vegna hún hafði fallizt á 3% vexti. Henni finnst víst, að hún sé hafin yfir að gefa þingmönnum skýrslu um það, en skýrsluna semur hún á ensku og sendir síðan til Parísar. — Hæstv. utanrrh. sagði, að ef mér fyndist þjóðhættulegt að taka Marshalllán, þá gæti ég ekki staðið við að eiga sæti í stjórn Örfiriseyjarverksmiðjunnar. Um þetta mál er það að segja, að við sósíalistar samþ. heimildina handa ríkisstj. til að taka lán til byggingar síldarverksmiðju og kaupa á síldarbræðsluskipi, því að við vissum, að hægt var að fá slíkt lán með góðum kjörum utan við Marshallaðstoðina. Við vildum gera allt, sem í okkar valdi stóð, til þess að fyrirtæki þetta kæmist upp og yrði rekið þjóðinni til hagsældar. Áttum við svo að láta það bitna á fyrirtækinu, þegar hæstv. ríkisstj. gerir að þarflausu smánarsamning við erlend ríki? Við sósíalistar styðjum sem sagt þetta fyrirtæki, og því tók ég sæti í stjórn þess, að ég vildi beita áhrifum mínum í þá átt, að fyrirtækið yrði ekki erlendu auðvaldi að bráð, því að mér er kunnugt um, hvernig auðhringarnir reyna að arðræna svona fyrirtæki. Eitt mitt fyrsta verk í stjórn þess var að leggja til, að fyrirtækið reyndi að birgja sig upp af sojabaunum og kókoshnetum, svo að vélarnar gætu unnið feiti úr því hráefni þann tíma, sem engin síld barst, því að það eru sams konar vélar sem vinna feitina úr þessum efnum og síldinni. Þannig gætum við komið upp stórkostlegri feitiframleiðslu, eins og t. d. Danir, sem komið hafa upp hjá sér Aarhus Oliefabrik, sem framleiðir geysimikið magn af olíukökum og öðru slíku. Og þótt hæstv. ríkisstj. geri vitlausan samning, þá verður það ekki til þess, að við sósíalistar hættum stuðningi okkar við íslenzkt atvinnulíf, því að það gerum við aldrei. Ég mótmæli því algerlega, sem fram hefur komið hjá hæstv. utanrrh. og fleirum, að það sé Bandaríkjamönnum að þakka, að þetta fyrirtæki er að komast upp. Það er okkur Íslendingum einum að þakka. Við þurfum að borga þeim lánið og vextina, og á vélarnar, sem við kaupum af þeim, leggja þeir um 50%. Þeir eru því ekkert að gefa okkur, og við höfum þeim ekkert að þakka. Það er vægast sagt óviðfelldið að vera að ala upp þakklætiskennd og þýlyndi í garð Bandaríkjanna fyrir það að láta okkur hafa fé og vörur, sem við greiðum dýru verði. Það eru Íslendingar, sem eru að skapa Örfiriseyjarverksmiðjuna, og hún er þeim einum að þakka. Ég tók eftir því hjá hæstv. utanrrh. og hv. þm. S-Þ., að þessi þakklætistónn til Bandaríkjanna kvað við. Hv. þm. S-Þ. var sérstaklega með það, að Bandaríkjamenn hefðu hreint og beint haldið í okkur lífinu, meðan á stríðinu stóð, þeir hefðu gefið okkur bæði mat og peninga, og hæstv. utanrrh. talaði um sölu sína á hraðfrysta fiskinum núna eins og um samsvarandi sölu væri að ræða og þegar við seldum þeim skv. láns- og leigulögunum. En það er eitthvað annað, en við Íslendingar höfum Vesturveldunum eitthvað að þakka fyrir viðskiptin á stríðsárunum. Það er a. m. k. undarlegt, ef við eigum að þakka þeim fyrir að taka allar okkar vörur lágu verði, láta sjómenn okkar færa þeim vöruna, drepa 200 þeirra og skjóta niður skipin. Við biðum hlutfallslega meira manntjón í stríðinu en t. d. Bandaríkin, og Bandaríkjamenn voru eina þjóðin, sem græddi á stríðinu, og svo koma hv. þm. og jafnvel ráðh. og segja, að við eigum að knékrjúpa Bandaríkjamönnum og þakka þeim fyrir að hafa haldið í okkur lífinu. Það væri nær að halda því fram, að við hefðum haldið lífinu í Englendingum, þegar við stöðugt lögðum líf sjómanna okkar í hættu við að færa þeim matvæli, og Bandaríkjamönnum lánuðum við landið, en það stytti að þeirra dómi stríðið um 1/10 og sparaði þeim þannig 30 þúsund milljónir dollara í herkostnaði, og svo talar hæstv. utanrrh. um, að við eigum að vera þakklátir. Þetta þýlyndi er óþolandi og getur ekki gengið. Með því að ala betlilúkuhugsunarháttinn upp í þjóðinni er verið að eyðileggja hana. Þjóðin gat ekki þolað einokunarkaupmennina, en til voru þó menn, sem gátu það. Enn í dag eru þeir til, sem þola það að láta aðra ræna arðinum af framleiðslu þjóðarinnar. Við borgum Bandaríkjamönnum lánin, vextina og vörurnar, sem við kaupum af þeim, og því er óþarfi að gefa þeim frumburðarréttinn fyrir einn baunadisk. Og það er alveg óþarfi að vera þeim svo þakklátur, að við framlengjum Keflavíkursamninginn, eins og margt bendir nú til, að hæstv. ríkisstj. ætli að gera, eða göngum jafnvel enn þá lengra. Það er verið að reyna að telja þjóðinni trú um, að við Íslendingar séum ekki neitt. Bandaríkin geri hér allt og við séum einskis megnugir, þetta er sama hugsunin og fram kom hjá einstökum mönnum við stofnun lýðveldisins. Nú skjóta þessar hugsanir upp kollinum á ný, og það er sannarlega kominn tími til að kveða þær niður fyrir fullt og allt. Og þetta tal um, að þetta sé frá Marshall og hitt frá Moskva, en við sjálfir getum ekkert, er alveg óþolandi. Hæstv. utanrrh. sagði, að allt, sem ég segði, væri samkvæmt fyrirmælum frá Moskva. Ég segi það, að ég hef mikla samúð með hinu sósíalistíska skipulagi í Rússlandi og með leiðtogum þess, en ég frábið mér alveg að láta taka hugmyndir og verk okkar íslenzkra sósíalista og gefa þau Rússum. Hæstv. utanrrh. sagði ég fyrstum utan minna flokksmanna frá hugmyndum mínum varðandi þá nýsköpun atvinnulífsins, sem fyrrv. ríkisstj. vann að, og hæstv. utanrrh. kunni það vel að meta. En mér mundi þykja hart, ef hugmyndir okkar íslenzkra sósíalista varðandi nýsköpun atvinnulífsins verða teknar og eignaðar Moskva, og eins þykir mér hart, þegar Marshall og Bandaríkjunum er eignað það, sem þau eiga alls ekki skilið. Sannleikurinn er sá, að við erum sjálfir færir um að byggja upp okkar atvinnulíf. Ennþá hefur hæstv. utanrrh. ekki gefið skýringu á því, hvernig á því stóð, að ríkisstj. var búin að ákveða að gera þennan samning 8. apríl, áður en hún vissi, hvernig Marshalllögin voru. Ef til vill var það til að koma þeirri hugsun inn hjá Íslendingum, að án Bandaríkjanna gætu þeir ekki neitt, en ég vil minna á í því sambandi, að einu sinni voru líka til menn á Íslandi, sem sögðu, að án Dana gætu Íslendingar ekki neitt. Og ef það á að fara að endurskapa þann hugsunarhátt gagnvart Ameríku, þá er það nýsköpun, sem ég að minnsta kosti vil ekki taka þátt í.

Þá kom hæstv. ráðh. inn á síðustu afurðasöluna eða gjöfina, það er að segja hraðfrysta fiskinn, og sneri hreinlega út úr orðum mínum. Ég skýrði mína afstöðu fullkomlega og míns flokks og skal nú reyna að gera það aftur, þó að það hafi eflaust ekkert að segja gagnvart hæstv. ráðh. Ég reyndi í fyrri hluta ræðu, minnar að skírskota til hans sem sjálfstæðismanns, sem væri í rauninni sjálfstæðismaður. Ég benti á, hve hættulegt það gæti orðið sjálfstæði þjóðarinnar að taka við gjöfum frá framandi stórveldi. Sú skírskotun hafði auðvitað engin áhrif. Ég sagði honum þá, að Sósfl. væri eins og kunnugt er andvígur allri þessari pólitík, við þyrftum enga Marshallaðstoð, en úr því að ekkert þýddi að skírskota til hans sem sjálfstæðismanns og afráðið væri, að Ísland tæki þátt í Marshallplaninu, skulum við, sagði ég, athuga aðra hlið málsins, en þetta sagði ég vitanlega ekki vegna þess, að ég hvikaði í neinu frá standpunkti okkar sósíalista í málinu. Við skulum þá líta á málið út frá hreinu kaupmennskusjónarmiði, sagði ég. Og ég sagði við hæstv. utanrrh., að ef hann þægi gjafir, þá væri vitanlega betra að nota þær almennilega, þiggja þær hreinlega, í stað þess að láta útflutningsvörur okkar koma á móti gjafafénu til þess að láta líta svo út, að tekizt hefði að selja vörurnar. Ég skal nú taka ljóst dæmi til skýringar, en tek það fram, að skýringartölurnar eru aðeins hugsaðar, en ekki byggðar á neinum útreikningi eða áætlun.

Segjum, að við hugsum okkur að framleiða fyrir 1.400 millj. kr. á 4 árum og framleiddum það, og segjum; að við gætum fengið Marshallgjafir og Marshalllán á þessu tímabili að upphæð 250 millj. kr., það eru samanlagt 1.650 millj. kr. Nú er það gefið, að töluverðan hluta af 1400 milljónum væri hægt að nota til að kaupa og byggja fyrir stór framleiðslutæki, segjum, að til þess væri hægt að verja 300 milljónum. Og ef stj. er að þiggja gjafir upp á 250 milljónir, þá eru þessar 250 milljónir viðbót við þær 300 milljónir, sem ég hugsaði mér, að hægt væri að verja til öflunar stórra framleiðslutækja, og yrði þá samtals hægt að verja 550 milljónum til þess samkvæmt þessum hugsuðu tölum mínum. Hvað gerist því, er hæstv. utanrrh. fer inn á þá pólitík að gefast upp við að selja heildarframleiðslu þjóðarinnar fyrir 1400 millj. kr., sem raunverulega væri hægt að fá fyrir hana, en taka það, sem á vantaði söluna, af gjöfunum, segjum 150 millj. kr.? Þá lækkaði hann hina raunverulegu vörusölu um 150 milljónir og rýrði jafnframt möguleika þjóðarinnar til að afla sér framleiðslutækja um 150 milljónir, svo að í stað 550 milljóna, sem ég hef áður reiknað með í dæminu, hefðum við aðeins úr 400 milljónum að spila til að kaupa fyrir framleiðslutækin og byggja upp atvinnulífið. Hvert skólabarn skilur það, að þegar ríkisstj. er að taka útflutningsvörurnar og láta upp í Marshallaðstoðina, þá er hún að éta upp óskalistann sinn í stað þess að þiggja gjafir og í stað þess að byggja upp atvinnulífið, fyrst hún á annað borð vill lítillækka sig til að þiggja gjafir af erlendu stórveldi. Og þetta gæti stj. skilið líka, ef hún aðeins fengist til að hugsa um það, sem Ísland varðar. En hæstv. utanrrh. einokar utanríkisverzlunina undir sig og er að reyna að fá Bandaríkin til að taka afurðir okkar upp í gjafirnar. En það þarf ekki að bjóða íslenzkar afurðir sem þóknun fyrir gjafir, þó að hæstv. ráðh. reki upp kveinstafi um, að Íslendingar geti ekki neitt, með því að fara að tala um, að landið sé svo snautt og fátækt. Honum er ekki nóg að reyna að svipta þjóðina öllu trausti á sjálfa sig, heldur á nú að fara að reyna að svipta hana trúnni á landið, telja henni trú um, að það sé snautt að gæðum, svo að vart sé hægt að lifa í því, þó að það sé ríkasta land í Evrópu að fossaafli og fleiri náttúrugæðum. Aftur á móti hafa beztu menn þjóðarinnar á síðustu öldum og allt fram á þennan dag ekki þreytzt á því að telja þjóðinni trú um, að landið sé gott, og engin kynslóð hefur betur fundið það en við, hve landið er gott. En þessi versta ríkisstj., sem setið hefur hér að völdum, reynir að kenna landinu um, þegar hún er svo snauð að hugmyndum og viti, að hún getur ekki nytjað þetta gjöfula og ríka land handa börnum þess. Nei, ég held, að sú stjórn, sem grípur til þeirrar auðsveipnis prédikunar að níða þjóð og land, — ég held sú stjórn ætti sem fyrst að fara frá og gefa íslenzku þjóðinni sjálfri frelsi til að skapa sér betri lífskjör, í stað þess að stj. einokar alla lífsmöguleika hennar.

Þá ætla ég að víkja að ræðu hv. 4. þm. Reykv., sem reyndi að tala hér málefnalega. Hann ræddi sérstaklega um hin almennu og sérstöku gjaldeyrisvandræði, sem Íslendingar ættu við að búa; og sagði, að ég hefði ekki bent á neina hagnýta lausn þess vanda í ræðu minni. Við skulum nú athuga þetta. Fyrst ræddi ég um dollarana. Það var orðinn skortur á dollurum þegar árið 1945. Þá voru aðeins dollarar til í nýbyggingarsjóði, og þá vildum við sósíalistar, sem tókum þátt í ríkisstj., tryggja dollarasparnað, höfðum áður reynt að tryggja sparnað á þeim dollurum, sem eytt var utan sjóðsins, og vildum hindra 1945, að farið væri að taka dollara úr sjóðnum til almennrar eyðslu. En við fengum ekki við það ráðið. Sjálfstæðismenn höfðu það fram, að dollarar voru teknir úr sjóðnum og yfirfærðir til viðskiptaráðs, og sýndi það sig glögglega, að heildsalarnir vildu fá dollarana til umráða og þrýstu þingmönnum sínum til þessara ráðstafana. Hins vegar tókst með samningum við Sovétríkin að afla dollara fyrir vörur okkar, og hefur það því sýnt sig, að víðar er hægt að fá dollara en í Bandaríkjunum. Þetta er rétt að athuga og hafa í minni.

Í Morgunblaðinu í vor var birtur listi yfir vörur upp á 10½ millj. dollara upp í Marshallaðstoðina við Íslendinga. Ég hef enn þá ekki fengið upplýst opinberlega, hvort þessi upphæð sé rétt né sundurgreiningin á vörunum, eins og hún var í blaðinu. En ég tók þá strax fyrir þessa sundurgreiningu eins og hún var og sýndi fram á, hvar hægt væri að fá þessar vörur, sem þarna voru tilnefndar, án þess að greiða þær í dollurum. Ég sýndi fram á, að allar þessar vörur væri hægt að kaupa utan Bandaríkjanna, nema sem svaraði 1½ milljón eða rúmlega það, t. d. olíu, kol, korn, áburð og fleira. Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að ekki væri hægt að fá korn og olíu nema fyrir dollara. Korn er hægt að fá frá Sovétríkjunum í skiptum fyrir vörur okkar. Þannig hafa nokkur ríki í Evrópu verzlað við Sovétríkin, t. d. Sviss, sem hefur nú afnumið brauðskömmtun hjá sér. Og olíu er hægt að fá fyrir pund með viðskiptum við England, en hér ráða pólitískar ástæður viðskiptunum eins og víðar; því að amerískur auðhringur hefur heimtað að selja hingað olíu, svo að hér er um pólitíska þvingun að ræða. Og svo talaði hv. 4. þm. Reykv. um áburð, og það er sannarlega ástæða til að ræða um áburð. Allri nýrækt hefur verið haldið niðri hér á landi um 8 ára skeið sökum áburðarskorts. Bændur hafa ekki fengið nema einn þriðja hluta þess áburðar, sem þeir hafa þurft, frá Bandaríkjunum. Þeir hafa viljað fá meiri áburð, en ekki fengið hann af pólitískum ástæðum, af því að Bandaríkin hafa ekki viljað selja meira. Þau hafa rekið sömu pólitík gagnvart öðrum löndum í Evrópu til að halda niðri kornframleiðslunni og koma með því í veg fyrir offramleiðslu hjá sér, þó að þessi pólitík sé vitanlega vitleysa gagnvart Íslendingum, sem framleiða ekkert korn. En Combined foodboard segir, að bændur skuli ekki fá meiri áburð, og íslenzka ríkisstj. lætur sér það lynda, þótt bændum sé þar með settur stóllinn fyrir dyrnar um að notfæra sér hin stórvirku nýju tæki til ræktunar, sem þeir hafa nú fengið. En það er vitað, að fleiri framleiða áburð en Bandaríkin. Sovétríkin eru t. d. stórútflytjandi áburðar, og ég veit ekki til, að reynt hafi verið að fá áburð þar.

Vélar þurfum við sérstaklega að fá frá Bandaríkjunum, það er rétt. Það er líka það eina, sem við þurfum nauðsynlega að kaupa þar, en þó þurfum við ekki eingöngu að vera upp á Bandaríkin komnir í þeim efnum. Tékkar framleiða t. d. mjög mikið af vélum, t. d. vélar í áburðarverksmiðjur og sementsverksmiðjur. Ég held því, að ef hv. 4. þm. Reykv. gæti fengið lista hjá ríkisstj. yfir þær vörur, sem við þurfum að kaupa fyrir dollara í Bandaríkjunum, og listinn væri eins eða svipaður og í Morgunblaðinu í vor, þá kæmi í ljós, að við þyrftum ekki að kaupa þar fyrir meira en tvær milljónir. Mér dettur hins vegar ekki í hug að neita yfirburðum Bandaríkjanna um ýmsa framleiðslu, það er langt frá því, að ég viðurkenni þá ekki fullkomlega, sérstaklega varðandi stórframleiðslu, en við þurfum að beina viðskiptum okkar til annarra landa, og þá væri dollaraskorturinn ekki eins mikill og af er látið. Hitt er annað mál og það, sem ræður úrslitum, að hér eru umboðsmenn fyrir ameríska auðhringa, sem vilja selja hingað, stj. er „interesseruð“ í slíkum viðskiptum og í nánum tengslum við heildsalana, sem viðurkenna ekki þjóðarhagsmuni né forgang þeirra nema að mjög takmörkuðu leyti, og vald auðhringanna ræður.

Þá kom hv. 4. þm. Reykv. að því í ræðu sinni, að það væri ekki hægt að leysa hin almennu gjaldeyrisvandræði þjóðarinnar með þeim aðferðum, sem ég hefði lagt til. En þar gerði hann mér upp skoðun, sem ég hef ekki. En hún er sú, að um tvennt sé að velja, annaðhvort verzlun fyrir pund og dollara eða clearingverzlun. Ég hef aldrei gengið út frá þessu. Ég veit, að við framleiðum svo mikið með hinum nýju atvinnutækjum, að okkur er óhjákvæmilegt að halda mörkuðum bæði austan og vestan járntjaldsins, sem alltaf er verið að vitna í, og láta ekki pólitíska flokkaskiptingu og flokksofstæki leiða okkur út í að gera vitleysur í verzlunarutanríkispólitík okkar. Því er það, að við getum selt gegn dollurum, pundum, clearing og fleiri myntum, og þurfum á öllum þessum leiðum og aðferðum að halda í utanríkisverzlunarpólitík okkar. Við megum ekki segja, að við seljum aðeins gegn dollurum og pundum, og við verðum að vera nægilega liðugir í verðlagsútreikningum hér heima, flytja vörurnar inn þaðan, sem hagkvæmast er, og þegar hagkvæmast er, en gæta þess jafnframt vel að láta innflutninginn ekki skapa glundroða á innanlandsmarkaðinum, og það gæti ég hugsað mér að væri einna bezt að skipuleggja með innkaupastofnun, sem ríkið hefði með höndum og hefði yfirsýn yfir allt, sem flutt væri inn á markaðinn hér heima.

Þá talaði hv. 4. þm. Reykv. um það, að verðlag í clearinglöndunum væri of hátt til þess, að hægkvæmt væri að verzla við þau. Spursmálið er ekki um það, hvort við veljum dollara- eða clearingverzlun, við þurfum nefnilega að fara báðar leiðirnar. Hann nefndi ákveðnar vörur, sem væru 50% dýrari í Tékkóslóvakíu, en í Englandi. Segjum, að þetta sé rétt. En á móti þessu kemur, að verðið, sem við fáum í Englandi fyrir hraðfrysta fiskinn, er helmingi lægra, en í Tékkóslóvakíu, og því borgar sig þjóðhagslega að kaupa 50% dýrara, ef við fáum 50% meira fyrir okkar vörur. Það jafnar sig út, það þarf ekkert að hækka okkar dýrtíð. En svo er annað, og það er það, að við getum keypt mjög mikið af vörum í Tékkóslóvakíu fyrir sama verð og í Englandi, og ef Tékkar kaupa miklu hærra af okkur, fáum við vörurnar raunverulega miklu ódýrari þar en í Englandi. Við eigum beinlínis að stúdera vöruverð og allar viðskiptaaðstæður í hinum ýmsu löndum. Ég vil t. d. benda hæstv. ríkisstj. á, að vélar eins og við þurfum í sementsverksmiðju og áburðarverksmiðju eru Tékkar samkeppnisfærir við Bandaríkjamenn um að framleiða, en það liggur í því, að hér er um einstakar vélasamstæður að ræða og um það standa báðir álíka vel að vígi. Það er aðeins fjöldaframleiðslan á ýmsum hlutum í Bandaríkjunum, sem aðrar þjóðir geta ekki keppt við, þar standa Bandaríkin langtum betur að vígi. En ef við þurfum að fá dynamó og vélar í ákveðið raforkuver, má eins reyna fyrir sér hvar sem er. Hins vegar hefur hæstv. viðskmrh. slíkan ímugust á að reyna þessi praktísku viðskipti við Tékkóslóvakíu, að hann fékkst ekki til þess, meira að segja meðan hann var í nýsköpunarstj., að leita þar tilboða í dynamó í Sogsvirkjunina. Það er þess vegna alveg víst að því er snertir lönd eins og t. d. Tékkóslóvakíu, að við getum tryggt okkur að fá ýmsar vörur þaðan, og þó að við verðum að greiða hærra verð fyrir vörurnar frá t. d. Tékkum heldur en Bandaríkjunum, þá jafnar það sig upp þjóðhagslega í útflutningsvöruverðinu, þar sem þeir greiða hærra fyrir þær. Þá vil ég benda hv. 4. þm. Reykv. á, að ýmsar af vörum í þessum löndum þarna eystra, sem við höfum keypt, eru fullkomlega samkeppnisfærar og meira en það, eins og t. d. kolin og einnig matvörur, sem við höfum fengið frá Rússlandi, á meðan við skiptum við það. Að svo miklu leyti sem það á við er ég ekki á móti því að framkvæma slík viðskipti sem þessi, en það er hægt að hagnýta sér alla þessa viðskiptamöguleika, að leysa okkar sérstöku gjaldeyrisvandræði og komast einnig miklu lengra að leysa okkar almennu gjaldeyrisvandræði, en það er helzt ekki hægt með þeirri stefnu„ sem nú er verið að taka í okkar viðskiptamálum og virðist vera keppt eingöngu að, áð einangra okkur sem allra mest frá t. d. Austur-Evrópuríkjunum.

Ég tók eftir því, að hv. 4. þm. Reykv. átti dálítið erfitt með að sætta sig við gjafir. Mér þótti vænt um að heyra, að þær skyldu standa í honum: Ég tók eftir því, að hæstv. utanrrh. var að reyna að sannfæra þennan hv. þm. og aðra um það, að það væri ekki svo hættulegt. Við fáum kannske að sjá, þegar ofur lítið lengra líður á þingið, hvort hæstv. ráðh. hefur tekizt að snúa hv. 4. þm. Reykv. í þessu efni. En heldur fannst mér það slæm vísbending, sem kom fram hjá honum, að hans afstaða gagnvart Marshalláætluninni sem heild væri sú að reyna að verja þessar ráðstafanir eftir mætti. Hann gerði sem sagt ekkert til þess, sem annars var mjög þægilegt fyrir hann, sem hefur hagfræðilega þekkingu á þessum málum, að reyna að útskýra fyrir hv. þm. þær hvatir hjá Ameríkumönnum, sem liggja á bak við þennan samning og þetta stórkostlegasta undirokunarplan, sem nokkurn tíma hefur verið undirbúið. Það var einmitt verkefni fyrir mann, sem er sérfróður í hagfræðilegum málum, að þekkja hvenær auðhringar Ameríku sjá sér leik á borði fyrir sína hagsmuni. Það var hægt fyrir hagfræðinginn, ef hann hefði þorað, að segja hv. þm., sem ef til vill hafa lagt einhvern trúnað á fagurgala Marshalláætlunarinnar, ef vilji hefði verið til, að segja sannleikann og hvað í húfi væri.

Eins og ég hef hér rakið á undan, þar sem ég hef svarað hv. 4. þm. Reykv. og hæstv. utanrrh., þá kemur í ljós, að afkoma Íslendinga hefur með Marshallsamningnum á engan hátt verið tryggð. Íslendingar hafa engan hagnað af samningnum, heldur þvert á móti, með því að einangra sig með viðskipti við Vestur-Evrópuþjóðirnar. Meira að segja þurfum við að geta verzlað við þjóðirnar báðum megin járntjaldsins öll einangrun er stórhættuleg í þessu efni; og forsvarsmenn Marshallsamningsins hafá engin rök fært fyrir því, að óhjákvæmilegt hefði verið að ganga svona inn á þennan samning. Og það hefur ekkert verið gert til þess að reyna að hrekja það, sem ég hélt fram, að Bandaríkin áskildu sér rétt til þess að hafa eftirlit og yfirstjórn á okkar verzlunarmálum með þessum Marshallsamningi.

Ég veit ekki, hvort þeir menn, sem tala um gjafir til okkar til þess að reisa verksmiðjur, gera sér það ljóst, að það; sem gert er fyrir Marshallfé, er bundið þeim skilyrðum, að gefendurnir ráði yfir því, þannig að þær vörur, sem framleiddar eru í þeim verksmiðjum, megum við ekki selja til annarra landa en þeirra, sem Ameríkumenn leyfa okkur. Ef byggð væri áburðarverksmiðja fyrir slíkt fé, þá mundu vafalaust þessi skilyrði verða sett fyrir þeirri sölu, ef við flyttum út áburð. Þetta er í sjálfum Marshalllögunum, sem ég hef vitnað í, og hæstv. utanrrh. hefur ekki reynt að hafa á móti þessu, og hef ég lesið þá grein upp, því að ég er hræddur um, að hæstv. utanrrh. ætli sér að skáka í því skjóli, að hv. þm. viti ekki um það skilyrði, og ríkisstj., sem hefur gert samninginn upp á sitt eindæmi og alveg án þess að spyrja Alþ. neitt um sitt álit, ætli að láta alveg undir höfuð leggjast að kynna hv. þm. hann.

Þá kem ég næst að þeim þremur, hv. 1. þm. Reykv., hv. þm. V-Húnv. og hæstv. núverandi menntmrh., og mér liggur við að segja, að sami andinn hafi talað úr þeim öllum saman, þó að þar væru þrjár tungur. Ég kenndi í brjósti um þessa menn, ég held að þeim hljóti að líða eitthvað illa innan um þessa risaáætlun, sem hæstv. forsrh. talaði svo mikið um. Það er eitthvað annað, sem þessir menn með afskiptum sínum af þjóðmálum hér á Alþ. vilja fremur tala um, en það að semja einhverja risaáætlun; enda tók ég eftir því, að þessir hv. þm. voru ekki lengi að gera þessa risaáætlun hæstv. forsrh., en það orð notaði hann um fjögurra ára áætlunina, að óskaseðli, sem ég held, að hv. 1. þm. Reykv. hafi notað um hana. Ég verð líka að segja, að mér hefði brugðið við, ef hv. 1. þm. Reykv. hefði nú haldið hér sína fyrstu ræðu á Alþ. sem þm. án þess að koma inn á verðbólgu, enda var verðbólgan ekki farin að verða neitt smáræði í hans augum.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að við sósíalistar hefðum fengið fyrirskipun um það að vera á móti Marshalláætluninni. Hann virðist eiga bágt með að hugsa sér, að menn geti skapað sér sjálfstæðar skoðanir enda verð ég að segja, að sú sjálfstæða skoðun, sem hann hefur reynt að mynda sér um viðskiptamál Íslands, hefur ekki reynzt sérlega vel, svo að það er von, að hann trúi meir á það, sem útlendir fræðimenn segja, en það, sem hann hugsar sjálfur. Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að Íslendingar yrðu að vera með Marshalláætluninni, þangað til Evrópa væri aftur orðin góður viðskiptavinur — það yrði 1951. Hvað var Evrópa góður viðskiptavinur fyrir stríð? Er hv. 1. þm. Reykv. alveg búinn að gleyma viðskiptunum frá 1930 til 1939? En hv. þm. gerir sér þessa hugmynd um viðskipti við Evrópu 1951. Hverjar verða svo staðreyndirnar? Þær verða þær, að þá er einmitt hætta á, að með því að einangra okkur svona núna, eins og helzt lítur út fyrir, að verið sé að keppa að, þá verði komin svo mikil framleiðsla í Evrópu, að erfitt verði að vinna markaði þá, a. m. k. ef við erum þá bundnir við Vestur-Evrópu.

Hv. 1. þm. Reykv. hefur í ræðu, sem hann hefur haldið hér á Alþ. áður, látið ljós sitt skína um verðlag og markaðsmöguleika erlendis. Hann segir í ræðu 11. sept. 1944, útvarpsræðu, með leyfi hæstv. forseta: „Vér seljum í dag fiskafurðir vorar fyrir hátt verð, en um næstu áramót, eftir aðeins hundrað daga, getum við búizt við, að samningar falli niður og verð afurðanna fari stórum lækkandi.“ Síðan heldur hv. þm. áfram í sömu ræðu: „Verðfall á íslenzkum afurðum og framleiðsluvörum hlýtur að koma þegar friður er fenginn og viðskiptin leita í eðlilegan farveg.“ Síðar í sömu ræðu: „Síldarafurðirnar mundu ekki seljast á næsta ári fyrir það verð er næmi framleiðslukostnaðinum, enda þyrfti verð á mjöli og lýsi að hækka mikið frá því, sem nú er. Síldarútgerðin gæti því stöðvazt næsta sumar með sama áframhaldi.“ Og enn segir í sömu ræðu: „Íslenzk útflutningsframleiðsla með núverandi framleiðslukostnaði er í gersamlega vonlausri aðstöðu eftir stríð. Ef hún á að halda áfram að vera í þeirri aðstöðu, getur hún ekki notað sín eigin fátæklegu, úreltu tæki til fullnustu, hvað þá heldur notfært sér stórkostlega tekjuaukningu. Vörurnar verða óseljanlegar, vegna þess að þær eru of dýrar, og vörur, sem enginn vill kaupa, eru ekki framleiddar til lengdar.“ Og enn segir hv. þm.: „Nýsköpunin verður því að byrja á verðlaginu og vinnukostnaðinum í landinu.“

Síðan segir þessi hv. þm. í grein, sem hann skrifaði nokkru seinna, 9. nóv. 1944, þegar nýsköpunarstj. er mynduð: „Loforðin um hina stórhuga nýsköpun atvinnuveganna eru fallegar myndir, en léttvægar og innantóm orð, sem aldrei verða að veruleika, nema búið sé svo að framleiðslunni í landinu, að hún geti borið sig.“

Þetta sagði hv. 1. þm. Reykv. fyrir 4 árum, þá reyndi hann að telja okkur trú um, að um leið og stríðinu lyki, mundi verðlagið hrynja, og íslenzka útgerðin 1945 svo að segja. Hvað hefði orðið; ef við hefðum trúað orðum þessa hv. þm.; þegar hann var fjármrh. 1944? Við hefðum orðið að vera án þeirra hundruð millj. kr., sem útgerðin færði okkur einmitt á þessum tíma, og við mundum nú ekki hafa nein tæki til þess að afla þeirra verðmæta, sem við nú höfum vegna þess, að það tók þá við ríkisstj., sem hafði áræði og skynsemi til þess að hagnýta sér þá möguleika. Þessi hv. þm. hefur því reynzt falsspámaður um verðlag fjögur síðustu árin á Íslandi. Það hefði orðið hrapallegt tjón fyrir atvinnulíf á Íslandi og alla þjóðina í heild, ef farið hefði verið að ráðum hv. 1. þm. Reykv. Nú kemur hv. 1. þm. Reykv. til okkar í dag og segir: „Nú getum við verið aldeilis róleg. Við höllum okkur að Marshall og seljum honum í hendur yfirráð yfir okkar framkvæmdum og mörkuðum fram til 1951, þá er kannske Evrópa orðin góður viðskiptavinur aftur.“ Ég er hræddur um, að með þessari pólitík, sem hann og hans flokkur rekur, muni fara um okkar verðmæti líkt og hann spáði 1945, en við höfum aldrei selt okkar vörur á hærra verði en þá. Nú segir þessi sami hv. þm., að við skulum alveg vera róleg, því að Marshall muni gæta okkar vel, en við skulum vara okkur á spádómum þessa hv. þm., ég er hræddur um, að við Íslendingar þurfum einmitt að passa okkur.

Þá er það hæstv. menntmrh., já, ég veit ekki, hvort ég á að eyða mörgum orðum á hann, hann talaði svo barnalega í þessu máli. Mér fannst hann helzt vera að lesa upp úr Tímanum gömlu tugguna um það, að við vildum allt eyðileggja, þessir sósíalistar, og bara ef við semdum nú við Marshall, væri allt í þessu fína lagi. Hæstv. menntmrh. sagði, að það væri búið að kveða niður í umr. þær skoðanir, sem ég hefði haldið fram, en ég man ekki eftir, að neinn hafi reynt að hrekja það. Hæstv. menntmrh. sagði, að við þyrftum að fá meira fjármagn, en við gætum fengið gegn útflutningi okkar. Þessi góði fjármálamaður lofaði Englendingum á sínum tíma að taka engin erlend lán, en hann lét þess á engan hátt getíð, að hæstv. ríkisstj. hefði í raun og veru nokkuð reynt til þess að fá lán erlendis. Hann hefur sjálfur farið í sendiferð út til þess að athuga möguleika fyrir láni, en eitthvað minnir mig að sú för þætti með vasabókarsniði. Ég er hræddur um, að hæstv. menntmrh. verði að reyna að mennta sig betur í fjármálum heimsins, áður en hann lætur sér nægja að koma aðeins með fullyrðingar án þess að reyna að rökstyðja þær á nokkurn hátt.

Hv. þm. V-Húnv. tók miklu skynsamlegar á málinu. Hann hugsaði eitthvað á þá leið, að úr því að hann tæki þetta að sér, að verja þennan málstað, og svo líka hitt, ef hér væri um einhverjar framfarir að ræða, þá skyldu menn fá að vita, hvaða flokki þær væru að þakka, því að auðvitað væru þær að þakka Framsfl. og engum öðrum flokki þingsins. Hv. þm. V-Húnv. byrjaði með því að tala um nýsköpunina og gamla daga og sagði, að það hefði bara verið eyðsla að kaupa t. d. togarana, enda þótt þeir hafi fært okkur tugi millj. kr. í þjóðarbúið, það væri allt eyðsla. Hins vegar vildi hv. þm. V-Húnv. leggja mikið upp úr því, að hann hefði viljað leggja mikið til hliðar af erlendum gjaldeyri. Við sósíalistar höfum reynt að fá það fram, að lagðar yrðu til hliðar 500 millj. kr., sem við gátum ekki fengið samning um, og býst ég við, að ein af ástæðunum fyrir því, að við gátum ekki fengið samning um það, hafi verið sú, að Framsfl. bilaði, hann vildi alls ekki stuðla með ríkisstj. að neinni nýsköpun, hann skarst algerlega úr leik og vildi ekki vera með að mynda neina stjórn eða vera með því að leggja nokkurt fé til hliðar, heldur tilkynnti hann, að fyrst yrði að lækka kaupið, áður en farið yrði út í slíkt. Framsfl. virtist treysta því, að hann fengi Alþfl. til þess að vera ekki með neinni stjórn, sem Sjálfstfl. og Sósfl. mynduðu. Framsfl. treysti því, að það væri ekki hægt að mynda neina stjórn án hans, og 3. okt. tilkynnir hann, að hann verði ekki með í því að mynda stjórn með þessum flokkum. Síðan reynir Framsfl. að vinna gegn því, að nokkurt fé yrði lagt til hliðar. Það kemur því úr hörðustu átt, þegar framsóknarmenn koma og segjast hafa viljað, að nýsköpunin væri meiri. Jú, þegar þeir sáu, að þeir höfðu tapað, þá komu þeir með yfirboð og lögðu til, að lagðar yrðu til hliðar 300 millj. kr. En fulltrúar Framsfl. í viðskiptaráði, sem sá um almenna fjárveitingu úr nýbyggingarsjóði, hafa alveg jafndyggilega og aðrir komið þeim peningum fyrir kattarnef. Að minnsta kosti fengum við sósíalistar ekki stuðning frá Framsfl., þegar við vorum að berjast fyrir því, að sparað yrði. Það þýðir ekki fyrir hv. þm. V-Húnv. að segja við mig, að nú muni ég sjá það, hvers konar mistök það hafi verið að leggja ekki meira til hliðar. Ég lagði frá upphafi áherzlu á það, að við legðum til hliðar erlendis fyrir því, sem við öfluðum. En það var vegna áhrifa heildsalanna á ríkisstj.vegna þeirra innflutnings, að þeir heimtuðu að fá meiri leyfi fyrir innflutningi. Hv. þm. V-Húnv. veit vel, hvað áhrif heildsalanna eru sterk innan vissra flokka, og ég býst við, að núverandi ríkisstj. þekki þau vel. Hins vegar fengum við sósíalistar samið um, að 15% af árs útflutningsgróðanum yrðu lögð til hliðar á nýbyggingarreikning, og ef það hefði verið gert fyrir árin 1946–48, þá mundi sú upphæð vera um 150 millj. kr. En þessi ákvæði eru í l. nú, ef Framsfl., sem nú stendur að ríkisstj., hefur vilja á að framkvæma þau, og hvort þær ráðstafanir hafa verið gerðar, getur hv. þm. V-Húnv. gefið skýrslu um, og væri þá einnig gaman að heyra, hvaða skilyrði Framsfl. hafi sett fyrir þátttöku sinni í því sambandi og hvernig honum gangi að láta heildsalavaldið ganga með sér undir jarðarmen, eða hvort Framsfl. hafi orðið að smeygja sér inn um þær þröngu dyr, eins og komizt var að orði á fundi sjálfstæðismanna á Akureyri í vor, og hafi síðan orðið að sætta sig við að vera með í þeirri verstu stjórn á fjármálum, sem þekkzt hefur síðan við fengum okkar fjármálastjórn í eigin hendur.

Ég vil enn fremur minna hv. þm. V-Húnv. á, fyrst hann talar svo mikið um nýsköpunarmálin, að Framsfl. vildi, þegar togararnir voru keyptir, ekki kaupa fleiri togara, en við gætum borgað út. Með öðrum orðum, það voru ríku mennirnir í landinu, sem áttu að fá að kaupa togara, og fleiri ekki. Ég er hræddur um, ef farið hefði verið eftir ráðleggingum hv. þm. V-Húnv., að lítið hefði orðið úr nýsköpuninni á þeim tíma. Nú, þegar hv. þm. V-Húnv. sér, að það á að gerast eitthvað í sambandi við Marshallaðstoðina, þá vill hann láta það líta þannig út, að það sé nýsköpunarflokkurinn Framsókn, sem eigi heiðurinn af því, að allt, sem gert hefur verið áður, eru aðeins skýjaborgir, þær hafa ekki verið nema smáræði í samanburði við hina góðu Marshallnýsköpun, sem Framsfl. ætlar nú að beita sér fyrir. Staðreyndirnar dæma, þegar þar að kemur. Það skein þó aðeins í það hjá þessum 3 hv. ræðumönnum, sem ég nefndi áðan, að ef ekkert yrði nú úr þessari miklu nýsköpun ríkisstj., sem hún hefur talað um sem 4 ára áætlun, þá sé ekkert annað, en að skella skuldinni á verðbólguna, en verði hins vegar eitthvað úr henni, þá þora þeir ekki að taka svona illa í hana í annað sinn, og hafa þeir þess vegna vaðið fyrir neðan sig.

Þá sný ég mér næst að hæstv. forsrh. (Forseti: Á hv. þm. mikið eftir af þessari ræðu? Ef svo er, tel ég rétt að fresta umr.) Já, það er líklega rétt, vegna mikillar virðingar við hæstv. forsrh. [ Frh.]