26.10.1948
Sameinað þing: 8. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2046 í B-deild Alþingistíðinda. (2897)

Marshallaðstoðin

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því, að ég kvaddi mér hljóðs á undan hv. 2. þm. Reykv., sem nú hefur talað í 4 klst. En væntanlega nægja mér 10 mínútur til þess að ljúka máli mínu.

Ég rifjaði hér upp síðast þá sorgarsögu frá árinu 1944, er stuðningsflokkar þáv. ríkisstj. felldu till. okkar framsóknarmanna um að festa af gjaldeyriseign þjóðarinnar á nýbyggingarreikningi 450 millj. kr. í stað 300. Ef nú hefðu verið til þær 150 millj., sem á milli bar, hefði t. d. mátt kaupa fyrir þær allt efni og vélar, sem samkv. nýju 4 ára áætluninni þarf til áburðarverksmiðju, sementsverksmiðju og allt efni til rafstöðva og raflagna, sem ráðgert er að byggja skv. áætluninni, og þó mundi vera nóg eftir fyrir helmingnum af nýja skipaflotanum, sem áætlunin gerir ráð fyrir. Menn sjá af þessu, hve stórkostleg og örlagarík mistök það voru, að till. okkar framsóknarmanna um þetta skyldi vera felld. Og það er ekki undarlegt, þótt hv. 2. þm. Reykv. reyndi að klóra í bakkann og afsaka óhappaverkið. En árangurinn af þeirri viðleitni hans var heldur óburðugur. — Hann byrjaði málsvörn sína með því að segja, að þeir Sameiningarflokks alþýðu —

Sósíalistaflokksmenn hefðu viljað festa 500 millj. á nýbyggingarreikningi. Það fær ekki staðizt, því að þeir greiddu atkvæði á móti till. okkar framsóknarmanna um að hækka framlagið úr 300 í 450 millj. kr. Þá staðhæfði hann, að eiginlega hefði það verið okkur framsóknarmönnum að kenna, það hefði stafað af því, að við vorum ekki með í stjórninni. Það er víst svo að skilja, að ef framsóknarmenn hefðu verið með í stjórninni, þá hefðu sósíalistar mannað sig upp og greitt atkvæði með því að auka við nýbyggingarféð. En jafnskjótt og hv. þm. hafði þetta mælt, sló heldur en ekki í bakseglið. Þá segir hann, að ef framsóknarmenn hefðu mátt ráða, hefðu þeir komið í veg fyrir alla nýsköpun. Málflutningur hv. þm. er því að efni til á þessa leið: Það, að ekki var látið meira fé til svonefndrar nýsköpunar en gert var, stafar af því, að framsóknarmenn voru þá ekki í ríkisstj. En ef framsóknarmenn hefðu mátt ráða, hefði ekkert orðið úr nýsköpuninni!

Vitanlega er æskilegt, að Alþingi athugi þetta mál sem vandlegast, en að ætla 50 fullorðnum mönnum að hlusta á slíkt fjas er sannarlega of langt gengið, þótt hins vegar sé ekki gott við að gera og vafasamt að fara inn á þá braut að hefta málfrelsi manna.

En þar með var nú ekki allt búið. Hv. þm. strikaði svo yfir allt þetta, og það var nú ekki lengur Framsfl. að kenna, að ekki var fest meira fé á nýbyggingarreikningi, heldur heildsölunum. — Ekki batnar hlutur hv. þm. við þetta. Trúlegt er það að vísu, að heildsalarnir hafi verið á móti þessu, því að gróðavonir þeirra voru meiri, þegar mikið af erlendu inneignunum var óbundið; en hv. þm. gaf enga frambærilega skýringu á því, hvers vegna hann og hans flokksmenn hjálpuðu þeim til að auka eyðsluna; óhófið og sukkið í þjóðfélaginu. Hv. 2. þm. Reykv. og flokkur hans eiga hér, ásamt fleirum, til stórra saka að svara. Þó að hann tali og tali í fjögurra klst. ræðum og jafnvel þó að hann héldi slíkar ræður á hverjum degi allt til æviloka, mun honum ekki takast að hreinsa sig og sinn flokk af þessu ámæli.

Ég vil svo fara þess á leit við hæstv. forseta að mega fresta niðurlagi ræðu minnar þar til hæstv. utanrrh. verður viðstaddur. (Forseti: Já.) Ég þakka hæstv. forseta.