26.10.1948
Sameinað þing: 8. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2049 í B-deild Alþingistíðinda. (2899)

Marshallaðstoðin

Björn Ólafsson:

Hv. 2. þm. Reykv. gat mín að nokkru í hinni löngu ræðu sinni. Hann sagði m. a., og það hefur oft komið fram hjá kommúnistum, bæði í blaði þeirra og ræðum, að ég hefði fyrir fjórum árum verið með hrakspár um sölu afurða okkar og að þessar hrakspár hafi verið staðlausir stafir, eins og mín var von og vísa. Það, sem ég sagði þá, var það, að framleiðslan stæði á leirfótum sakir dýrtíðar og að lífsnauðsyn væri að lækka svo framleiðslukostnaðinn í landinu, að samræmi kæmist á við afurðaverð nágrannaþjóðanna. Þetta eru þær hrakspár, sem kommúnistar vitna í. Ég vil benda hv. 2. þm. Reykv. á það, að á landsfundi útvegsmanna nú lýsti form. þess fundar yfir því, að enginn grundvöllur væri í dag fyrir rekstri sjávarútvegsins og hefði ekki verið undanfarin fjögur ár. Ég skal svo ekki fara nánar út í þetta, því að það var frekar í sambandi við annað, sem ég kvaddi mér hljóðs.

Hv. 2. þm. Reykv. hefur sakað hæstv. utanrrh. freklega um það, að hann hafi ekki viljað selja Rússum afurðir okkar. Þótt þessi ásökun sé ekki ný, eru þetta svo sjaldgæf óheilindi, að ég verð forviða í hvert sinn, sem ég sé þetta á prenti eða hlusta á það í ræðu.

Ég var einn þeirra, er fór til Moskva í byrjun árs 1947, og var þar næstum í tvo mánuði. Við áttum viðræður við ráðamenn þar og héldum með þeim marga fundi. Er við höfðum verið í Moskva í sjö vikur, höfðum við ekki fengið svar við neinu af því, sem við höfðum borið fram, og þó vorum við með langan lista yfir afurðir okkar og máttum næstum bjóða forgangsrétt á sumum vörum. Er við höfðum verið þarna í sjö vikur, sögðum við, að nú yrðum við að fá að vita, hvað þeir vildu og gætu keypt af okkur. Við buðum Rússum 50.000 tonn af saltfiski, en þeir svöruðu: „Við getum ekki notað hann“. Við buðum álíka magn af ísfiski, en þeir kváðust heldur ekki geta keypt hann eða notfært sér. Þeir vildu ekki niðursuðuvörur, ekki hrogn og ekki landbúnaðarvörur. Þeir sögðu hreinskilnislega: „Við höfum ekkert við þessar vörur að gera“. Þeir vildu ekki frosinn fisk, en sögðust vera reiðubúnir til að kaupa hann til þess að fá síldarolíu. Það, sem þeir vildu, var síldarolía, þorskalýsi og síld. Þeir sögðu hreinskilnislega frá því, að þeir hefðu enga þörf fyrir aðrar vörur og engan áhuga á þeim. En svo standa þessir herrar upp og segja, að hæstv. utanrrh. og aðrir vilji ekki selja Rússum íslenzkar afurðir, enda þótt þeir viti, að þetta eru bein ósannindi og einstök óheilindi, því að Rússar vilja ekki kaupa vörurnar.

Mér er ekki grunlaust um, að hv. 2. þm. Reykv. hafi séð þetta, er hann var í Moskva, því að það er sagt, að honum hafi ekki liðið þar vel og enginn Íslendingur, sem hafi haft þar jafnskamma dvöl, hafi sótt eins fast og hann að komast fljótt burt.