28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2052 í B-deild Alþingistíðinda. (2902)

Marshallaðstoðin

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. flutti hér ræðu fyrir nokkrum dögum um það mál, sem hér er á dagskrá, og það er við upphaf hennar, sem ég vildi nú gera nokkrar athugasemdir.

Ég hafði vikið nokkuð að þeim ágreiningi, sem varð hér á Alþ. 1944 um það, hve mikið af erlendu innstæðunum, sem þjóðin átti þá, skyldi færast á nýbyggingarreikning, og í sambandi við þetta mál vék hæstv. utanrrh. að mér nokkrum orðum. Hann sagði t. d., að ég, sem var flm.till. um það að hækka upphæðina, sem fest væri á nýsköpunarreikningi, um 150 millj., væri íhaldssamasti maðurinn, sem sæti ætti á Alþ. — Að hans dómi eru það þá sennilega hinir sönnu framfaramenn, sem drápu tillöguna. Ráðherrann virðist eftir þessu hafa gaman af öfugmælum og vera byrjaður á að leggja þá tegund skáldskapar fyrir sig. Raunar tel ég íhaldsnafnið ekkert krenkjandi lengur, svo langt sem nú er liðið síðan ákveðinn flokkur hér á landi bar það nafn. — Hæstv. ráðh. sagði enn fremur, að ég hefði verið á móti því, að nýju togararnir væru keyptir. — Af því að ég vil gera ráð fyrir, að hæstv. utanr.- og dómsmrh. vilji hafa það sannasta í hverju máli, vil ég benda honum á, að hann fer hér með rangt mál, og ef hann vill athuga alþingistíðindin, þá getur hann sannfært sig um það. Þetta mun sennilega stafa af gáleysi hjá hæstv. ráðh., vegna þess að hann hafi ekki munað gang málanna, en lagt trúnað á frásagnir miður sannorðra manna um þetta. En ósannar sögur um þetta hafa verið settar á gang. Ég hef t. d. heyrt það sagt, að sumir sjálfstæðismenn hafi stundum lesið upp úr ræðum eftir mig á fundum, sem þeir hafa haldið, og sérstaklega hafi þeir fengið mikla ást á einum ræðukafla, sem byrjar svo: „Fyrst er spýta, svo er spýta.“ Auðvitað er það þeirra tilbúningur, að ég hafi þar verið að lýsa nýju togurunum.

Ég get nú vel skilið, að þeir sjálfstæðismenn þykist þurfa eitthvað af sæmilegu efni frá öðrum til að flytja, t. d. á landsfundum. En hér er sá galli á, að nokkuð af því, sem þeir hafa haft eftir mér, er afbakað, og þannig brugðið upp rangri mynd af ummælum mínum. Það er líka skröksaga, að Framsfl. hafi beitt sér á móti nýsköpuninni og fjandskapazt gegn nýju togurunum, og um það vitna alþingistíðindin, ef menn kynna sér þau. Þó að slíkar frásagnir kunni að þykja vel boðlegar á vissum pólitískum samkomum, er slíkur málflutningur alls ekki viðeigandi á Alþingi. Að vísu má gera undantekningu með hv. þm. Barð., því að ekki er tiltökumál, þótt hann grípi til slíks, t. d. er hann vill hlaupa undir bagga með 2. þm. Reykv. En enginn hæstv. ráðherra getur leyft sér að fara með fullyrðingar, sem stangast við þingtíðindi, svo að hann hljóti ekki með réttu ámæli af. Ég vil því ljúka máli mínu með þeirri góðu ósk til hæstv. ráðh., að hann gæti sín svo vel eftirleiðis, að honum auðnist að komast hjá óhöppum, slíkum sem þessu.