28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2054 í B-deild Alþingistíðinda. (2904)

Marshallaðstoðin

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Í hinni löngu ræðu hv. 2. ,þm. Reykv. voru, þegar öllum umbúðum er vikið frá, aðeins tvö atriði, sem vert er að taka til athugunar. Það er þá fyrst, að hann telur, að við fáum ekki tryggðan rétt til að selja allar okkar fiskafurðir, og talaði um í því sambandi, að samkv. upplýsingum í nál. undirbúningsnefndar efnahagsstofnunarinnar væri fyrirsjáanlegt, að þeim atvinnuvegi okkar væri stefnt í voða í náinni framtíð. — Ég hef þessa skýrslu undir höndum, og þess ber vel að gæta, að hún er eftir undirbúningsnefnd, sem ekki hafði fengið neinar fullnaðartölur. Þar sem þar er talað um fiskframleiðslu, er átt við hvers konar fisktegundir, en ekki þær tegundir fyrst og fremst, sem við framleiðum til útflutnings. Og þótt tölurnar verði okkur áhagstæðar eins og hann les í málið, þá segja þær t. d. ekkert til um framleiðsluaukningu saltfisksins. Það stendur líka í skýrslunni, að tölurnar séu áætlunartölur og geri meira úr framleiðsluaukningunni en rétt er. Ríkisstj. hefur svo á hinn bóginn lagt áherzlu á það að tryggja okkur fiskframleiðslu og undirstrikað það í áætlun þeirri, er send var til efnahagssamvinnustofnunarinnar í París, að við værum fiskveiðiþjóð og ættum allt undir því, að sá atvinnuvegur gæti blómgazt. Í inngangsorðum að áætlun okkar til efnahagssamvinnustofnunarinnar er lögð rík áherzla á það, að í því sé fólgin hætta fyrir okkur, að aðrar þjóðir auki mjög fiskframleiðslu sína, og að við höfum þá aðstöðu, að eðlilegt sé, að við fáum að einbeita okkur að því að framleiða fisk. þar sem við getum framleitt hann „effektivar“ en aðrar þjóðir. Enn fremur það, að nauðsynlegt sé, að fiskimið okkar séu vernduð. Þetta sýnir, að það hefur ekki verið látið undir höfuð leggjast að reyna að tryggja það, að aðstaða okkar í þessu efni yrði eins góð og unnt er.

Hitt atriðið svo, sem einkum er athugavert í ræðu h.v. 2. þm. Reykv., er það, að Bandaríkin mundu ekki láta þátttökuríkin fá þær vörur, sem þau þyrftu helzt, heldur umframvörur, sem þau þyrftu sjálf að losna við. — Ég veit ekki, hvaðan hv. þm. hefur þetta. En það stangast berlega við veruleikann. Það, sem okkar sendimenn í sumar fengu einmitt fyrirmæli um, var þetta, að þeir ættu ekki að taka neinar þær vörur upp í innflutningsáætlunina frá Ameríku, sem unnt væri að fá innan þátttökuríkjanna, enda er það í fullu samræmi við aðaltilgang þessa samstarfs að örva viðskiptin milli þátttökuríkjanna sjálfra innbyrðis. — Annað mál er það, að listinn, sem gerður var yfir þær vörutegundir, sem við þurftum að flytja inn frá Ameríku, sýndi það, að þörfin var svo mikil, að hallinn nam um 8 millj. dollara. Og það er svo fjarri því, að það væri reynt að pína inn á okkur sígarettur t. d., að sá listi, sem við lögðum fram yfir okkar nauðsynjavörur, hefur verið tekinn fullkomlega gildur eins og við lögðum hann fyrir. Og mér vitanlega hefur aldrei komið fram, í neinu formi tilhneiging til þess að setja þátttökuríkjunum slíka kosti, gagnstæða öllu eðli þessa samstarfs.

Ég vil ekki setjast niður án þess að láta þess getið, að af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um hina skilorðsbundnu aðstoð, sem við tókum á móti fyrir nokkrum dögum, varð ekki betur skilið en hann væri að vita það, að ekki var krafist óendurkræfs framlags. Þegar það er svo borið saman við þá fullyrðingu, að til hinna miklu framkvæmda, sem við áætlum hér heima, þurfum við enga aðstoð, sést ósamræmið glöggt á milli staðhæfinganna. Sú aðstoð hins vegar, sem við fáum fyrir þátttöku okkar í þessu samstarfi, er tvenns konar. Í fyrsta lagi ýtir þessi samvinna undir og örvar viðskiptin við Evrópuþjóðirnar, og í öðru lagi gerir hún okkur kleift að fá vörur, sem við værum ella útilokaðir frá að fá, ef framleiðslan hrykki ekki til að afla gjaldeyris. Við fáum þannig dollara fyrir umframvörur til Evrópu, og ef framleiðslan nægir ekki til þarfa okkar, þá eru fyrir hendi skilyrði til þess að fá nauðsynlegt fé, annaðhvort sem lán eða óafturkræft framlag. Ég tel þessi hlunnindi svo mikil, að það væri óverjandi, ef við tækjum ekki þátt í þessu samstarfi.