28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2059 í B-deild Alþingistíðinda. (2908)

Marshallaðstoðin

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Hv. utanrrh. hefur nú svarað rækilega flestu því, sem ég ætlaði að svara hv. 2. þm. Reykv. Hann sagði, að ástæðan til þess, hve treglega gekk með sölu til Rússlands, hefði verið sú, að við, sem vorum í nefndinni, hefðum ekki viljað kaupa vörur af Rússum. Þetta er gersamlega rangt með farið, hvort sem það er viljandi gert eða ekki, eða af ókunnugleika mælt. Nefndin reyndi gaumgæfilega að finna þær vörur, sem okkur hentuðu og voru við hæfilegu verði og við gætum keypt af Rússum. Það mátti segja, að við leituðum með logandi ljósi í þessu efni. Og Rússar viðurkenndu líka, að þeir hefðu ekkert undan okkar undirtektum að klaga. Við keyptum þaðan timbur, kol, sement og lítils háttar af öðrum vörutegundum, og það voru líka þær einu vörur, sem gátu hentað okkur og hægt var að kaupa á þeim tíma. Ég tel svo ekki nauðsynlegt að fara lengra út í þetta mál.

Ég vil minnast á það, sem hv. þm. Siglf. sagði, að Rússar hefðu viljað kaupa af okkur fisk. Allir þekkja þá sögu, þegar þessi hv. þm., sem þá var ráðh., samdi við rússneskan mann, sem hér var til þess að taka á móti fiski. Ferð sendinefndarinnar til Moskva 1947 var að miklu leyti byggð á viðtölum fyrrverandi atvmrh. við þennan mann, og þegar við komum til Moskva, spurðum við, hvort við gætum fengið að tala við hann. En við fengum það svar, að hann væri vörumóttökumaður, en ekki samningamaður. En þegar við ítrekuðum ósk um að fá að tala við þennan mann, þá var okkur sagt að hann væri ekki til viðtals, hann væri á spítala. Við ræddum málið ekki frekar.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að ég hefði sagt, að Rússar hefðu ekki viljað kaupa neitt af okkur. Það er alrangt. Ég sagði, að þeir hefðu viljað kaupa lýsi og síld, en það skilyrði fylgdi af okkar hálfu, að þeir keyptu freðfiskinn með. Rússar viðurkenndu hreinskilnislega, að þeir keyptu fiskinn aðeins vegna lýsisins, sem fylgdi honum.

Það er rétt að geta þess, að ummæli mín í þessu sambandi hafa einnig verið rangfærð hér í einu dagblaðanna.