28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2062 í B-deild Alþingistíðinda. (2911)

Marshallaðstoðin

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég stend upp til að svara fyrirspurn, sem hv. 2. þm. Reykv. beindi til mín. Hann spurði allgleiðgosalega, hvernig það væri, hvort ég hefði fengið ræðu, sem ég flutti í þjóðvarnarfélaginu, prentaða í Alþýðublaðinu, og það lá í orðunum, að hann gæti sjálfur svarað þessari spurningu neitandi. Það er rétt, að ég flutti ræðu í þjóðvarnarfélaginu, en það kom aldrei til orða að fá hana prentaða í Alþýðublaðinu. Ég bað aldrei um, að þessi ræða væri prentuð, og það af þeirri einföldu ástæðu, að ég hafði áður flutt ræðu um sama efni á Alþingi, og sú ræða var prentuð í blaði þessa félags, Þjóðvörn. Og ég a. m. k. sá enga ástæðu til að fara þess á leit við mitt flokksblað, að það birti þessa ræðu, svo að orð hv. 2. þm Reykv. eru algerlega út í bláinn. Annars verð ég að segja, að skörin er farin að færast upp í bekkinn, þegar hv. 2. þm. Reykv. fer að bera sérstaka umhyggju fyrir frjálslyndi og víðsýni blaða. Hann hefur sjálfur verið ritstjóri dagblaðs í Reykjavík í nokkur ár, og var það þá þröngsýnast og einsýnast allra blaða á Íslandi. Stjórnaði hann því blaði þannig, að þar fékkst aldrei birt nokkurt orð, sem ekki væri í fullu samræmi við hans skoðun og yfirboðara hans; og þeirri stefnu hefur síðan verið dyggilega fylgt. Í þessu blaði sést varla nokkurn tíma nokkurt orð, sem ekki sé í algeru samræmi við skoðanir hinna tiltölulega fáu æðstu ráðamanna flokksins. Ein undantekning gerðist þó fyrir fáum vikum. Það heyrðist þar ein rödd, sem var svolítið öðruvísi, en maður á að venjast í því blaði. En mér skilst, að það hafi verið óvart, sem sú rödd heyrðist. Ástæðan mun hafa verið sú, að ritstjórinn og helzti aðstoðarmaður hans voru fjarverandi og blaðamenn aðrir ekki eins vel vakandi eins og æðstu stjórnendur blaðsins venjulega eru. Nei, það situr áreiðanlega illa á þessum hv. þm. og flokksbræðrum hans að tala digurbarkalega um stjórnendur annarra blaða og um skort á frjálslyndi.

Einu atriði í ræðu hv. þm. Siglf. langar mig til að svara. Hann kvað mig hafa sagt, að clearingviðskipti jafngiltu gengislækkun, og hins vegar, að ég væri á móti gengislækkun. Taldi hann illt að koma þessu heim og saman. Mér vitanlega hefur enginn haldið því fram, að við Íslendingar ættum að taka upp utanríkis- viðskipti við Bretland og Bandaríkin ein eða Sovétríkin ein. Það, sem um hefur verið að ræða, eru ekki slíkar öfgaskoðanir, heldur það, hvort leggja skyldi meiri áherzlu á bein viðskipti til dollara- og sterlinglandanna eða clearinglandanna. Ég vil ekki dylja — af ástæðum, sem ég hef oft gert grein fyrir —, að ég tel að ýmsu leyti varhugavert að beina viðskiptunum mjög mikið í áttina til clearinglandanna, vegna þess hvernig viðskiptaaðstaðan er í þeim löndum. En fulltrúar Sósfl. eru á þeirri skoðun, að þessi viðskipti séu engan veginn óheppileg. Ég hef hins vegar sýnt fram á, og hygg, að allir glöggir menn hafi skilið, að þessi viðskipti koma í sama stað niður og ef dollarinn og pundið lækkuðu og viðskipti við þau svæði færu fram á þessu lækkaða gengi. Og af þessum sökum fyrst og fremst hef ég talið það óeðlilegt að beina viðskiptunum til clearinglandanna frekar en beinlínis er nauðsynlegt til þess að tryggja þar markað fyrir vörur, sem ekki er hægt að selja annars staðar, — og einnig frá því sjónarmiði, að æskilegt hlýtur að teljast, að við Íslendingar höfum viðskiptin sem víðast, jafnvel þótt kjörin, sem við njótum í hinum ýmsu löndum, séu mismunandi góð. Af markaðsöryggisástæðum er nauðsynlegt að selja til sumra landa, þótt þau bjóði ekki eins hagstæð kjör og önnur. Og það er það, sem á sér stað að því er clearinglöndin snertir.