28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2067 í B-deild Alþingistíðinda. (2914)

Marshallaðstoðin

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Ég hef ekki miklu að svara. En við vorum viðstaddir hér fæðingu, ef svo mætti segja. Við sáum, hvernig ákveðin lygi varð til hjá þessum hv. þm., sem síðast talaði. Nú á að skrökva því í Þjóðviljanum á morgun með stórri fyrirsögn, að ég hafi sagt, að ég vildi ekki skipta við einræðisríkin. Ég vil vekja athygli á, að þessi ósannindi urðu til í munni hv. þm. Ég var að rökstyðja frekar það, sem hv. þm. Siglf. sagði, að við ættum ekki að vera háðir neinum aðila í viðskiptum, og að það væri enn þá hættulegra að vera háður einræðisríkjum heldur en nokkrum öðrum. Svo á að snúa því upp í það, að ég vilji ekki verzla við Rússa, af því að þeir eru einræðisríki. Um vilja minn til að skipta við Rússa vitna ég í það, að á mína ábyrgð var gerður við Rússa stærsti viðskiptasamningur, sem gerður hefur verið við þá af Íslands hálfu. Því er haldið fram, að tvær ástæður séu til þess, að sá samningur er ekki endurnýjaður. Önnur er sú hjá hv. ræðumanni, að við höfum ekki viljað kaupa af þeim í staðinn. Taki menn nú eftir, hvað það er, sem allt valt á og útilokaði hagkvæm viðskipti: Það eru þurrkaðir ávextir! En ég tel nú víst, að við hefðum viljað kaupa af þeim þurrkaða ávexti, (BÓ: Þeir höfðu þá ekki til.) jafnvel þótt ekki hefði allt oltið á því. Það er mikið, sem þessir menn vinna fyrir sínu kaupi, til þess að geta haldið áfram þessari endemis vitleysu.

Hv. 1. þm. Reykv. minntist á það hér áðan, að sá, sem lengi dvaldi hér og keypti mest af hv. þm. Siglf. um árið, hefði verið veikur, þegar spurt var eftir honum í Moskva. Það vildi svo einkennilega til, að þegar spurt var eftir svari um það, hvort þeir vildu yfirleitt tala við okkur, þá var sá maður, sem samband hafði verið haft við, veikur, og þegar spurt var eftir, hvort ekki væri hægt að fá að tala við annan mann, þá var það ekki hægt. Það varð að tala við þennan eina. Sem betur fer, er hann samt kominn til góðrar heilsu. Ég get glatt hv. þm. Siglf. með því, að þótt hr. Semenoff hafi verið veikur í Moskva, þegar spurt var eftir honum þar, þá hef ég frétt til hans ekki alls fyrir löngu, og var hann þá við fulla heilsu og hafði mikinn áhuga fyrir Íslandsviðskiptum áfram. En það er saga, sem ég skal segja hv. þm. við tækifæri. Það er margt hægt að tína til handa hv. þm. um þessi efni, ef hann vill halda áfram umr.