28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2069 í B-deild Alþingistíðinda. (2917)

Marshallaðstoðin

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. beindi til mín nokkrum fyrirspurnum í sambandi við þá lántöku, sem þingið veitti heimild til, og viðvíkjandi því, sem ég þá lýsti yfir sem minni skoðun á þeirri lántöku, eins og hún þá lá fyrir. Ég fullyrði ekkert um það, hvort hv. þm. fer rétt með það, sem þar stendur skrifað, en hitt get ég sagt, að í Ed. lýsti ég yfir því, að ekki væri til þess stofnað við þessa lántöku, að það yrði Marshalllán. Það var það heldur ekki. Meðferð málsins varð önnur vegna breyttrar aðstöðu, og þegar svo var komið, að um það var að ræða, hvort lán skyldi tekið yfir höfuð að tala, og þar með að bjarga áfram þeim fyrirtækjum, sem átti að bjarga með láninu, eða ekki, þá hafði ég samráð við ríkisstj. um áframhaldandi meðferð málsins og tel mig hafa metið þá þörf mest, sem fyrir lá, að þiggja lánið, þótt það væri ekki veitt nákvæmlega samkv. þeirri fyrirmynd, sem ég hafði hugsað mér í fyrstu. Þessu er hér til að svara. Ég mun ekki bera af mér neitt, sem ég lét uppi sem mína persónulega skoðun við þær umr., en mun taka á mig ábyrgðina af því að hafa tekið við þessu láni, þó að aðstaðan hafi breytzt á þessu tímabili, því að ég vildi ekki taka á mig ábyrgðina af að hafna því og þar með að stöðva þau fyrirtæki, sem voru við lántökuna bundin. Ég vildi ekki hafna því sökum þess aðeins, að það var veitt innan Marshallrammans.