28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2069 í B-deild Alþingistíðinda. (2918)

Marshallaðstoðin

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir það, að hann hefur svarað skýrt og greinilega, því sem um var spurt, og viðurkennt þá staðreynd, að hann hefur lýst því yfir við Alþ. síðastl. vetur, að ekki væri til þess stofnað af hans hálfu, eins og hann orðaði það, að lánsheimildin yrði notuð til að taka Marshalllán. Hann lýsti því yfir fyrir öllum þingheimi, að hann mundi ekki nota lánsheimildina eins og hún hefur verið notuð, og það er tvímælalaust, að atkvgr. um lánið valt hjá ekki allfáum þm. á þessari yfirlýsingu hæstv. ráðh. Venjulega treysta þm. því, að því megi treysta, sem sagt er úr ráðherrastóli sem hátíðleg yfirlýsing. Hæstv. ráðh. talaði um, að aðstaðan hefði breytzt og að hann hefði ekki viljað hindra það, að Marshalllán yrði tekið. Þetta er engin afsökun. Yfirleitt er ekki til afsökun fyrir því, að ráðh. geri að engu þær yfirlýsingar, sem hann gefur. En jafnvel þótt einhver ráðh. kunni nú að líta svo á stöðu sína, að yfirlýsingar þeirra á þingi séu bara marklaus orð, þá hefur hann heldur ekki neina afsökun frá sínu eigin sjónarmiði. Hæstv. ráðh. hafði í hendi sér að ná til þingsins og spyrja það, hvort það vildi veita honum heimild til þeirrar lántöku, sem hér um ræðir. Áður hafði hann fengið heimild til að taka lán á öðrum grundvelli. Það er svo sem sama, hvort þetta mál er rætt lengur eða skemur, hæstv. ráðh. á enga afsökun, og ég staðhæfi það, að í siðmenningarlöndum, sem oft er vitnað til, eins og t. d. í Bretland og á Norðurlöndum, hefðu þeir ráðh., sem slíkt hefði hent, að hafa yfirlýsingu gefna þinginu að engu, tafarlaust sagt af sér, og það á þessi hæstv. ráðherra að gera, ef hann skilur, hvaða ábyrgð fylgir starfi hans.

Ég heyrði, að það hljóp í skapið á hæstv. dómsmrh., eins og svo oft áður. Hann ætlaði að fara að yfirheyra mig hér, en honum tekst það ekki. Ég er hér ekki til neinna andsvara gagnvart honum um viðskiptamál. Ef hann telur sig hafa fengið upplýsingar um óleyfilegan innflutning hjá þessu fyrirtæki frá viðskiptanefnd, þá vil ég benda honum á, að hans er valdið. Komi hann og kæri. Honum mun verða svarað á réttum vettvangi.