17.12.1948
Neðri deild: 43. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég stend aðeins upp í tilefni af því, að ég hef lagt fram eina brtt. enn, sem ekki er búið að útbýta enn, en vildi, að hún kæmi til atkv. við 2. umr. (Forseti: Hvað er þingskjalsnúmerið?) Það er ekki búið að útbýta till., en ég lagði hana fram fyrir nokkuð löngu og vildi biðja hæstv. forseta að sjá til þess, að umr. verði ekki slitið fyrr en hún kemur.

Ég vil þá skýra frá efni till. Hún er á þá leið, að við 5. tölulið 17. gr. bætist nýr stafl., en á þessum 5. lið (a og b) er um upptalningu að ræða á þeim kröfum, ef til skuldaskila kemur, sem eru forgangskröfur í sambandi við þessi skuldaskil, þ.e. kröfur þeirra, sem í flestum tilfellum koma ekki til með að tapa vegna þessara skuldaskila. Ég legg til, að þarna bætist við einn stafl. (c), svo hljóðandi: „Kröfur félagssamtaka útvegsmanna, svo sem olíusamlaga, viðgerðarverkstæða, verzlunarsamtaka o.fl., enda séu þau opin öllum útvegsmönnum á félagssvæðinu“. Kröfur þessara félaga hafi einnig forgangsrétt sambærilegan við þær kröfur, sem taldar eru upp í a og b, og verði því ekki eins áhættusamt fyrir þessi félög í sambandi við þessi skuldaskil, að kröfur þeirra verði að engu, eins og annars mundi verða. Ég hef minnzt á það áður, að mikið er um það, að útvegsmenn hafa komið sér upp félagssamtökum á samvinnugrundvelli. Alþ. hefur hvatt þá til þess, flestir flokkar, og sett hér lög um stofnun olíusamlaga útvegsmanna, sem rekin eru á samvinnugrundvelli og annast olíusölu til bátaútvegsins á viðkomandi stöðum og selja þessa vöru útgerðinni með kostnaðarverði og hafa yfirleitt haldið verðinu talsvert fyrir neðan hið almenna olíuverð. Þessi félög hafa hins vegar ekki verulegt stofnfé, og ef fara ætti nú þannig að þeim að heimta af þeim þær olíuskuldir, sem á þeim hvíla, einkum vegna óhappa síldarútvegsins, og setja þau á höfuðið, þá vitanlega væri það tekið með annarri hendinni, sem væri gefið með hinni, og útvegsmenn og félagssamtök þeirra illa leikin. — Sama gildir um viðgerðarverkstæði, verzlunarsamtök o.fl., sem útvegsmenn hafa komið sér upp og rekið á samvinnugrundvelli, þar sem þetta er opið öllum útvegsmönnum á viðkomandi stöðum og þannig reynt að létta af sér því óeðlilega okri, sem verið hefur í þessum efnum hjá einstökum félögum. Það er hart, ef á að eyðileggja með þessu skuldaskil þessara félaga og setja þau á höfuðið með því, að réttar kröfur þeirra yrðu þannig útstrikaðar.

Þetta er efni till. Ég vil fá skýrt úr því skorið, hvaða þm. vilja verða til þess að steypa þessum félagssamtökum útvegsmanna á höfuðið með þeim aðferðum, sem hér er til stofnað. Aðaltill. mín er sú, að þessi skuldaskil verði ekki samþ. Verði hún felld og eigi að lögleiða hér þessi skuldaskil þvert ofan í vilja útvegsmanna, eins og mér skilst að meiningin sé, þá vildi ég þó bera fram þessa brtt. við 17. gr., til þess að vernda þessi samtök og sjá, hvernig henni mundi reiða af. Að öðru leyti skal ég ekki hafa fleiri orð um málið að sinni, en vænti, að forseti taki fullt tillit til þess, að þessi till. hefur verið lögð inn fyrir alllöngu, og vænti þess, að hún fái að koma til atkvgr. við 2. umr.