28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2071 í B-deild Alþingistíðinda. (2920)

Marshallaðstoðin

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Ég vil aðeins staðfesta það, sem hv. þm. Ísaf. sagði, að áður en ákveðið var að taka lán, svo sem gert var, til þess að koma upp síldariðnaðinum við Faxaflóa, þá var leitað fyrir sér hjá nógu mörgum þingmönnum til þess að staðfesta, að meiri hluti þingmanna væri samþykkur því, að lánið yrði tekið af viðreisnarfénu. Það er síður en svo móti vilja þingsins, en í beinu sambandi við óskir þingmanna.

Út af svari hv. 6. þm. Reykv. vegna fyrirspurnar minnar vil ég taka það fram, að hann svaraði eins og hans var von og vísa og ég bjóst við. Hann fékkst ekki til að ræða málið, svo málsskrafsmikill maður um flest málefni og ekki sízt um málefni Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis. Hv. 6. þm. Reykv. neitar nú að tala og segist skuli hitta mig á öðrum vettvangi. Ég efast ekki um, að hann verði að gera það, ef svo ber undir, því að hann getur ekki skorazt undan því frekar en aðrir að mæta fyrir réttvísi landsins, ef hann er til þess kvaddur. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi talað svo dólgslega í trausti þess, að hér í þetta mál er blandað erlendu sendiráði, sem íslenzk lögsaga nær ekki yfir. Hann treystir því, að ekki sé hægt að reka þetta mál með venjulegum hætti, og það kann eitthvað að vera til í þessu, að það komi honum að einhverju gagni, þegar hann kýs að þegja, en þögnin verður ekki misskilin.