28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2072 í B-deild Alþingistíðinda. (2922)

Marshallaðstoðin

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Hæstv. utanrrh. og hv. þm. Ísaf. hafa að vísu gefið frekari skýringu gagnvart þessu, sem hv. 6. þm. Reykv. taldi ósæmilegt athæfi af minni hálfu. Ég mótmæli þeim skilningi, sem hv. þm. leggur í það, sem ég sagði í málinu, og það, sem ég hef gert í málinu. Þegar þessi lántökuheimild var til umræðu, þutu tveir flokksmenn hv. 6. landsk. upp og spurðu um, ef um lán væri að ræða, hvort það yrði Marshalllán. Ég sagði þá, að ekki yrði til þess stofnað af minni hálfu. Ég gaf ekkert fyrirheit um, að það kynni ekki að geta orðið það síðar meir, ef svo yrði að vera. Þegar svo eftir marga mánuði, að málið horfði þannig við, að ekki er hægt að fá það í gegn öðruvísi, en innan þess ramma, sem kallaður er Marshallaðstoð, þó að lánskjörin séu alveg eins og í hverjum öðrum lánssamningi og í engu frábrugðin, nema hvað vextirnir eru sérstaklega lágir, þá þótti mér rétt, að það yrði borið undir nægilega marga af stuðningsmönnum stj. á þingi, hvernig málið horfði við, áður en frá láninu yrði gengið. En viðurlögin voru þau, að þá var komið svo langt með undirbúning og vélakaup til þeirra framfaramála, sem frv. var í öndverðu flutt til að fleyta fram, að það hefði verið hið mesta tilræði við íslenzka atvinnuvegi, ef horfið hefði verið frá lántökunni, af hræðslu við, að það kynni síðar að verða átalið, að það væri Marshalllán. Annars er þetta ekki í fyrsta sinn, að þessi hv. þm. skorar á mig að segja af mér eða á Alþingi að reka mig í burt. Þetta hefur hann gert í svo mörg skipti, síðan ég kom í þetta sæti, að það má næstum segja, að ég megi ekki koma hér inn fyrir dyr, án þess að þessi virðulegi þm. Sósfl. hafi á einhvern hátt reynt að koma á mig klækihöggi, þótt lítið hafi orðið úr, og mun svo enn verða.